Látum þau finna að þau eru velkomin á minningarhátíðina
1 Síðustu árin hefur aðeins 1 af hverjum 3, sem sótt hefur minningarhátíðina, verið boðberi fagnaðarerindisins. Líklega fer eins á þessu ári. Sumir kunna að koma vegna hvatningar frá ættingja eða kunningja í öðrum bæ en aðrir hafa fengið boð frá boðberum á staðnum. Þá koma nokkrir sem eru skírðir en ekki lengur virkir í þjónustunni. Við bjóðum einlæglega velkomna alla þá sem virða fyrirmæli Jesú: „Gjörið þetta í mína minningu.“ — 1. Kor. 11:24; Rómv. 15:7.
2 Þeir sem falin hefur verið umsjón í salnum ættu að vera vakandi fyrir því að bjóða alla velkomna, einkum þá nýju, þegar þeir koma til ríkissalarins. Við getum hins vegar öll átt hlutdeild í því að sýna gestrisni á minningarhátíðinni. (Rómv. 12:13) Hvernig þá?
3 Þetta kvöld verða sumir boðberar mjög uppteknir við að aka áhugasömu fólki til hátíðarinnar. Aðrir gætu kannski mætt snemma og verið á staðnum til að heilsa gestum sem koma fylgdarlaust. Þegar ókunnugur maður kemur í salinn ættir þú að heilsa honum hlýlega og hefja samræður. Spyrðu hann hvort hann þekki einhvern í söfnuðinum. Ef svo er skaltu sjá um hann uns sá aðili kemur. (Samanber Lúkas 10:35.) Ef hann þekkir engan persónulega gætir þú boðið honum að sitja hjá þér meðan á samkomunni stendur. Útskýrðu hvernig vínið og brauðið verður notað á samkomunni. Hann kann að þurfa aðstoð þína við að fletta upp ritningarstöðum sem ræðumaðurinn vitnar í.
4 Þegar hátíðinni er lokið skaltu segja honum að það hafi glatt þig að hann hafi komið. Hann hefur ef til vill spurningar um starf okkar sem þú getur svarað. Persónulegur áhugi þinn gæti leitt til samræðna um eitthvert biblíuefni, annaðhvort í ríkissalnum eða á öðrum stað. Bræður, sem hafa sýnt slíkt lofsvert frumkvæði, hafa stundum hrundið af stað frábærum námum. Áður en hann yfirgefur ríkissalinn ættir þú að kynna hann fyrir öðrum og bjóða honum hlýlega að koma aftur.
5 Það er sannarlega ánægjulegt að bjóða velkomna okkar kæru bræður og systur sem ekki hafa sótt samkomur reglulega eða hafa ekki verið virk í þjónustunni um nokkurn tíma. Í stað þess að spyrja hvers vegna þau hafa ekki látið sjá sig skaltu einfaldlega láta í ljós gleði þína yfir því að þau séu núna viðstödd. Kannski mun eitthvað, sem þau heyra sagt í minningarhátíðarræðunni, fá þau til að endurmeta vígslusamband sitt við Jehóva. Það kann að snerta hjörtu þeirra að þú skulir bjóða þau hlýlega velkomin og sýna þeim ósvikna umhyggju. Láttu þau vita að þú hlakkir til að sjá þau aftur. — Rómv. 1:11, 12.
6 Sérstök ræða, sem ber heitið „Sönn trúarbrögð mæta þörfum mannkynsins,“ verður flutt í flestum söfnuðum hinn 10. apríl næstkomandi. Gættu þess að allir sem sækja minningarhátíðina fái boð um að koma og aðstoð til þess. Það er von okkar að þeir sem sækja þessar sérstöku samkomur finnist þeir vera velkomnir og finni fyrir þeim hlýja félagsanda sem ríkir hjá fólki Jehóva. — Sálm. 133:1.