Mikilvægasti atburðurinn í sögu mannsins
1 Jesús kom til jarðar að boði föður síns til að bera vitni sannleikanum sem myndi leiða okkur til eilífs lífs. (Jóh. 18:37) Trúfesti hans allt til dauða varð Jehóva til heiðurs, helgaði nafn Guðs og sá fyrir lausnargjaldi. (Jóh. 17:4, 6) Þetta er það sem gerði dauða Jesú að mikilvægasta atburðinum í allri sögu mannsins.
2 Upp frá sköpun Adams hafa aðeins tveir fullkomnir menn lifað á þessari jörð. Adam var í aðstöðu til að færa óbornum afkomendum sínum dásamlegar blessanir. En í stað þess gerði hann í eigingirni uppreisn og með því dæmdi hann alla niðja sína til eymdarlegrar tilveru sem dauðinn byndi að lokum enda á. Þegar Jesús kom sýndi hann fullkomna trúfesti og hlýðni og opnaði öllum sem iðka trú tækifæri til að öðlast eilíft líf. — Jóh. 3:16; Rómv. 5:12.
3 Enginn annar atburður jafnast á við fórnardauða Jesú. Hann breytti gangi mannkynssögunnar. Á grundvelli hans verður hægt að reisa milljarða manna upp frá dauðum. Hann lagði grunninn að ævarandi ríki sem binda mun enda á illsku og gera jörðina að paradís. Hann mun að lokum leysa mannkynið undan sérhverri mynd kúgunar og þrælkunar. — Sálm. 37:11; Post. 24:15; Rómv. 8:21, 22.
4 Allt þetta hjálpar okkur að gera okkur alveg ljóst hvers vegna Jesús bauð lærisveinum sínum að minnast dauða síns með því að halda minningarhátíðina ár hvert. (Lúk. 22:19) Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi hennar og hlökkum þar af leiðandi til að safnast saman, eins og meðbræður okkar í söfnuðum votta Jehóva um heim allan gera líka, föstudaginn 14. apríl eftir sólsetur. Áður en að því kemur væri gott að lesa saman sem fjölskylda frásagnir Biblíunnar af síðustu jarðvistardögum Jesú og hvernig hann tók hugrakkur afstöðu með sannleikanum. (Ritningarstaðirnir, sem mælt er með að lesnir séu, eru tilgreindir á dagatali okkar fyrir árið 1995, og í Rannsökum daglega ritningarnar, dagana 9.-14. apríl.) Jesús var okkur fyrirmynd í því að helga sig skapara okkar. (1. Pét. 2:21) Gerum okkar ítrasta til að bjóða vinum okkar og fjölskyldu, svo og biblíunemendum og öðru áhugasömu fólki, til þessarar mikilvægu samkomu. Útskýrum fyrirfram hvað fari þar fram og hvað brauðið og vínið tákni. — 1. Kor. 11:23-26.
5 Öldungarnir ættu að gera tímanlegar ráðstafanir til að tryggja að ríkissalurinn sé hreinn og snyrtilegur. Fela ætti einhverjum að útvega brauðið og vínið og áhöld til að bera það fram í. Framreiðsla brauðsins og vínsins ætti að vera vel skipulögð með hliðsjón af aðstæðum í salnum. Gagnlegar tillögur um hvernig við getum sýnt kvöldmáltíð Drottins virðingu voru settar fram í Varðturninum 1. febrúar 1985, blaðsíðu 17. Það væri vel við hæfi fyrir söfnuðinn að gera ráðstafanir til aukins boðunarstarfs á akrinum allnokkra daga fyrir minningarhátíðina svo og nokkra daga að henni lokinni.
6 Síðastliðið ár voru alls 12.288.917 um allan heim viðstaddir þegar þessa mikilvæga atburðar var minnst. Þar sem þetta er mikilvægasti dagurinn á dagatali okkar ættum við ÖLL að vera viðstödd.