Sýndu tilbeiðslustað Jehóva virðingu
1 Þegar við erum gestir á heimili einhvers sýnum við eigum húsráðanda virðingu, völdum ekki skemmdum á þeim og truflum ekki fastar venjur heimilismanna. Þannig ætti hegðun okkar miklu fremur að vera þegar við erum gestir Jehóva! Okkur ber að vita hvernig við eigum að haga okkur í húsi hans. (Sálm. 15:1; 1. Tím. 3:15) Hvort sem kristnar samkomur okkar eru haldnar í ríkissal, opinberri byggingu eða á einkaheimili, sýna flest okkar ávallt virðingu fyrir tilbeiðslustaðnum eins og hann væri hús Jehóva en „tign hans er yfir jörð og himni.“ — Sálm. 148:13.
2 Sumir bræður sýna samkomunum virðingarleysi með því að vera hávaðasamir eða láta eins og efnið, sem fram er borið, sé lítils virði. Nokkrir fullorðnir halda uppi ónauðsynlegum samræðum í anddyrinu, á salerninu eða fyrir utan ríkissalinn meðan samkoman stendur yfir. Þegar barn er látið hafa eftirlit með yngra barni verður það stundum til þess að þau byrja að leika sér og hafa lítið gagn af dagskránni. Eftir samkomur hefur sést til nokkurra ungmenna fyrir utan ríkissalinn að leika sér með miklum hávaða og jafnvel gera karatehreyfingar hvert að öðru. Í sumum tilvikum hafa þau ónáðað nágranna eða truflað umferð á bílastæðinu eða á götunni.
3 Hvernig forðast má að sýna virðingarleysi: Ef við skiljum hve háleit og heilög tilbeiðsla okkar er viljum við eflaust ekki trufla aðra með því að hvísla, borða, tyggja tyggigúmmí, láta skrjáfa í pappír, fara óþarfar ferðir á salernið eða hafa fyrir venju að mæta seint á samkomur. Þakklátir foreldrar, sem virða tilbeiðslustaðinn, leyfa börnum sínum ekki að óhreinka teppi, áklæði eða veggi ríkissalarins eða heimilisins þar sem bóknámið er haldið. Og eflaust erum við öll sammála því að hvers kyns svívirðileg hegðun, heimskutal eða klúrt spaug á ekki heima á samkomunum. — Ef. 5:4.
4 Ef við munum alltaf eftir tilgangi kristinna samkomna gætum við þess að við og börn okkar sýni tilhlýðilega virðingu fyrir tilbeiðslunni á Jehóva á staðnum þar sem við ‚viljum standa.‘ — Sálm. 84:11.