‚Jehóva er minn hjálpari‘
1 Þegar Jesús fól fyrstu lærisveinum sínum að prédika sagði hann þeim: „Sjá, ég sendi yður eins og sauði meðal úlfa.“ (Matt. 10:16) Urðu þeir kvíðnir þegar þeir heyrðu þetta og veigruðu sér við að prédika? Nei, þeir tóku þá afstöðu sem Páll postuli lét í ljós síðar er hann sagði við trúbræður sína: „Vér [getum] öruggir sagt: [Jehóva] er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?“ (Hebr. 13:6) Þeir glöddust yfir að hafa verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú og létu ekki af að kenna og boða fagnaðarerindið. — Post. 5:41, 42.
2 Prédikunarstarfið um allan heim er nú á lokastigi, og líkt og Jesús spáði erum við hataðir af öllum þjóðum. (Matt. 24:9) Boðunarstarf okkar hefur mætt andstöðu, gert hefur verið gys að því og það hefur jafnvel verið bannað sums staðar í heiminum. Ef okkur skorti trú gætum við misst kjarkinn. En vitneskjan um að Jehóva er okkar hjálpari hressir okkur við og styrkir til að halda ótrauð áfram.
3 Hugrekki felur í sér styrk, áræði og hugprýði. Það er andstæða ótta, feimni og hugleysis. Lærisveinar Jesú hafa alltaf þurft að vera hugrakkir til að þrauka. Hugrekki er nauðsynlegt til að við látum ekki viðhorf og breytni heims, sem fjandskapast við Guð, draga kjark úr okkur. Það er sérlega hvetjandi að virða fyrir sér hið frábæra fordæmi Jesú sem sigraði heiminn. (Jóh. 6:33) Munum einnig eftir fordæmi postulanna sem lýstu hugdjarfir yfir er þeir stóðu frammi fyrir erfiðri prófraun: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Post. 5:29.
4 Við skjótum okkur ekki undan: Við ættum að kappkosta að varðveita jákvætt viðhorf til starfs okkar. (Hebr. 10:39) Höfum ávallt hugfast að Jehóva er að senda okkur til fólks vegna kærleika síns og miskunnar gagnvart öllu mannkyni. Hann biður aldrei þjóna sína að gera nokkuð sem þjónar ekki gagnlegum tilgangi. Allt sem okkur er falið að gera verður að lokum þeim til góðs sem elska Guð. — Rómv. 8:28.
5 Bjartsýni hjálpar okkur að halda áfram að leita uppi sauðumlíkt fólk á starfssvæðinu. Við gætum litið á sinnuleysi fólks sem merki um vonbrigði þess og vonleysi. Látum kærleikann knýja okkur til að vera samúðarfull og þolinmóð. Í hvert sinn sem við útbreiðum rit eða finnum einhvern áhuganeista ætti markmið okkar að vera að fara sem fyrst aftur til að örva áhugann frekar. Við þurfum aldrei að efast um hæfni okkar til að koma af stað heimabiblíunámskeiði eða stjórna því heldur leita stöðugt eftir aðstoð og handleiðslu Jehóva í bæn, fullviss um að hann hjálpi okkur.
6 Við trúum því staðfastlega að Jehóva sjái til þess að starfið verði fullkomnað. (Samanber Filippíbréfið 1:6.) Óbrigðult traust til hans sem hjálpara styrkir okkur svo að við „þreytumst ekki að gjöra það sem gott er.“ — Gal. 6:9.