Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w92 1.7. bls. 23-28
  • Ræktaðu ávöxt andans — sjálfstjórn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ræktaðu ávöxt andans — sjálfstjórn
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Að óttast Guð og hata hið illa
  • Sjálfstjórn er viturleg
  • Óeigingjarn kærleikur hjálpar
  • Trú og auðmýkt hjálpa
  • Sjálfstjórn innan fjölskyldunnar
  • Notfærðu þér þá hjálp sem Guð gefur
  • Sjálfstjórn — hvers vegna svona þýðingarmikil?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Iðkum sjálfstjórn og hljótum launin
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Auðsýnið í þekkingunni sjálfstjórn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Temdu þér sjálfstjórn
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
w92 1.7. bls. 23-28

Ræktaðu ávöxt andans — sjálfstjórn

„Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi [„sjálfstjórn,“ NW]. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ — GALATABRÉFIÐ 5:22, 23.

1. Hverjir hafa gefið okkur besta fordæmið um sjálfstjórn og hvaða ritningarstaðir sýna það?

JEHÓVA GUÐ og Jesús Kristur hafa gefið okkur besta fordæmið um sjálfstjórn. Allt frá óhlýðni mannsins í Edengarðinum hefur Jehóva haldið áfram að iðka þennan eiginleika. (Samanber Jesaja 42:14.) Níu sinnum lesum við í Hebresku ritningunum að hann sé „þolinmóður“ eða „seinn til reiði.“ (2. Mósebók 34:6) Það kostar sjálfstjórn. Og vissulega iðkaði sonur Guðs mikla sjálfstjórn því að hann „illmælti eigi aftur, er honum var illmælt.“ (1. Pétursbréf 2:23) Samt sem áður hefði Jesús getað beðið föður sinn um „meira en tólf sveitir engla“ sér til stuðnings. — Matteus 26:53.

2. Hvaða góð dæmi höfum við úr Ritningunni um sjálfstjórn af hálfu ófullkominna manna?

2 Við höfum líka nokkur góð dæmi úr Ritningunni um ófullkomna menn sem sýndu sjálfstjórn. Til dæmis sýndi Jósef, sonur ættföðurins Jakobs, mikla sjálfstjórn þegar eiginkona Pótífars reyndi að táldraga hann. (1. Mósebók 39:7-9) Þá má einnig nefna hið góða fordæmi hinna fjögurra ungu Hebrea sem iðkuðu sjálfstjórn með því að neita að borða ljúfmeti af borði konungs vegna ákvæða Móselaganna. — Daníel 1:8-17.

3. Hverjir eru þekktir fyrir góða hegðun og hvernig hefur verið borið vitni um það?

3 Sem nútímadæmi um sjálfstjórn getum við bent á votta Jehóva sem heild. Þeir verðskulda það hrós sem New Catholic Encyclopedia gefur þeim — að þeir séu „einn best siðaði hópur í heimi.“ Háskólakennari á Filippseyjum sagði að ‚vottarnir iðki í trú sinni það sem þeir læra af Ritningunni.‘ Pólskur fréttamaður skrifaði um mót vottanna í Varsjá árið 1989: „55.000 manns reyktu ekki eina einustu sígarettu í þrjá daga! . . . Þetta dæmi um ofurmannlegan sjálfsaga vakti með mér lotningarblandna aðdáun.“

Að óttast Guð og hata hið illa

4. Hver er ein mesta hjálpin í því að iðka sjálfstjórn?

4 Einhver besta hjálpin við að iðka sjálfstjórn er guðsótti, heilnæmur ótti við að misþóknast elskuríkum föður okkar á himnum. Sú staðreynd að Ritningin nefnir þennan lotningarfulla ótta við Guð mörgum sinnum sýnir að hann ætti að vera mjög mikilvægur í augum okkar. Þegar Abraham var í þann mund að fórna Ísak syni sínum sagði Guð: „Nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.“ (1. Mósebók 22:12) Tilfinningaálagið var vafalaust mikið, þannig að það hlýtur að hafa kostað Abraham mikla sjálfstjórn að gera það sem Guð bauð honum og ganga svo langt að hefja hnífinn á loft til að fórna Ísak, ástkærum syni sínum. Já, guðsótti hjálpar okkur að iðka sjálfstjórn.

5. Hvaða hlutverki gegnir hatur til hins illa í því að iðka sjálfstjórn?

5 Hatur á hinu illa er nátengt ótta Jehóva. Við lesum í Orðskviðunum 8:13: „Að óttast [Jehóva] er að hata hið illa.“ Það að hata hið illa hjálpar okkur síðan að iðka sjálfstjórn. Aftur og aftur segir Ritningin okkur að hata það sem illt er — já, hafa andstyggð á því. (Sálmur 97:10; Amos 5:14, 15; Rómverjabréfið 12:9) Hið illa er oft svo skemmtilegt, svo lokkandi, að við hreinlega verðum að hata það til að brynja okkur gegn því. Allt slíkt hatur á því sem illt er hefur þau áhrif að styrkja þann ásetning okkar að iðka sjálfstjórn og er okkur þannig vernd.

Sjálfstjórn er viturleg

6. Hvers vegna er það viturlegt að bæla niður eigingjarnar tilhneigingar með því að iðka sjálfstjórn?

6 Önnur mikil hjálp í því að iðka sjálfstjórn er að gera sér grein fyrir hve viturlegt það er. Jehóva biður okkur að iðka sjálfstjórn sjálfum okkur til góðs. (Samanber Jesaja 48:17, 18.) Orð hans inniheldur fjölmörg heilræði sem sýna hve viturlegt það er að hafa hemil á eigingjörnum tilhneigingum okkar með því að iðka sjálfstjórn. Við hreinlega komumst ekki undan óbreytanlegum lögum Guðs. Orð hans segir okkur: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir á andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.“ (Galatabréfið 6:7, 8) Það að eta og drekka er augljóst dæmi. Margs konar kvillar geta orsakast af ofáti og ofdrykkju. Það að láta undan slíkri eigingirni rænir manninn sjálfsvirðingu. Og það er ekki hægt að láta undan eigingirninni án þess að skaða líka samband sitt við aðra. Hið alvarlegasta er þó það að taumleysi spillir sambandi okkar við himneskan föður okkar.

7. Hvert er meginstef Orðskviðanna og hvaða ritningarstaðir sýna það?

7 Þess vegna verðum við að minna okkur stöðugt á að með eigingirni vinnum við gegn sjálfum okkur. Hið áberandi meginstef Orðskviðanna, sem leggja áherslu á sjálfsögun, er það að eigingirni hreinlega borgi sig ekki og að það sé viturlegt að iðka sjálfstjórn. (Orðskviðirnir 14:29; 16:32) Og við skulum hafa hugfast að sjálfstjórn er miklu meira en það eitt að forðast hið illa. Sjálfsögun eða sjálfstjórn er líka nauðsynleg til að gera það sem er rétt, en það getur verið erfitt vegna þess að það gengur gegn syndugum tilhneigingum okkar.

8. Hvaða frásaga endurspeglar viskuna í því að iðka sjálfstjórn?

8 Við skulum nefna dæmi sem sýnir viskuna í því að sýna sjálfstjórn. Vottur Jehóva stóð í biðröð í banka þegar maður ruddist fram fyrir hann. Þótt vottinum gremdist þetta eilítið sýndi hann sjálfstjórn. Þennan sama dag þurfti hann að hitta verkfræðing einn til að fá skrifað upp á nokkrar byggingarteikningar að ríkissal. Og hver reyndist þessi verkfræðingur vera? Enginn annar en maðurinn sem ruddist fram fyrir hann í bankanum! Bæði reyndist verkfræðingurinn afar vinsamlegur og auk þess krafði hann vottinn um innan við tíunda hluta þess gjalds sem venja var til. Votturinn var sannarlega ánægður með að hann skyldi hafa sýnt sjálfstjórn fyrr um daginn í stað þess að reiðast.

9. Hvað er viturlegt að gera þegar okkur er lastmælt í þjónustunni á akrinum?

9 Aftur og aftur er okkur lastmælt þegar við göngum hús úr húsi og prédikum fagnaðarerindið um Guðsríki eða stöndum á götuhorni og reynum að vekja áhuga vegfarenda á boðskap okkar. Hvað er þá viturlegt að gera? Orðskviðirnir 15:1 koma með þetta viturlega ráð: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði.“ Með öðrum orðum þurfum við að iðka sjálfstjórn. En það eru ekki aðeins vottar Jehóva sem hafa komist að þeirri niðurstöðu. Læknavísindin eru sífellt að gera sér betri grein fyrir lækningagildi sjálfstjórnarinnar.

Óeigingjarn kærleikur hjálpar

10, 11. Hvers vegna er kærleikur mikil hjálp til að sýna sjálfstjórn?

10 Lýsing Páls á kærleikanum í 1. Korintubréfi 13:4-8 sýnir að kraftur hans getur hjálpað okkur að iðka sjálfstjórn. „Kærleikurinn er langlyndur.“ Það kostar sjálfstjórn að vera langlyndur. „Kærleikurinn öfundar ekki . . . er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.“ Kærleikurinn hjálpar okkur að hafa stjórn á hugsunum okkar og tilfinningum og bæla niður sérhverja tilhneigingu til öfundar, raupsemi og hroka. Kærleikur kemur okkur til að gera hið gagnstæða; hann gerir okkur hógvær og lítillát eins og Jesú. — Matteus 11:28-30.

11 Páll heldur áfram og segir að ‚kærleikurinn hegði sér ekki ósæmilega.‘ Það kostar líka sjálfstjórn að hegða sér sómasamlega öllum stundum. Kærleikurinn forðar okkur frá ágirnd, frá því að ‚horfa einungis á eigin hag.‘ Kærleikurinn „reiðist ekki.“ Það er auðvelt að reiðast yfir því sem aðrir segja eða gera, en kærleikurinn hjálpar okkur að iðka sjálfstjórn og segja ekki eða gera hluti sem okkur myndi iðra síðar. Kærleikurinn „er ekki langrækinn.“ Það er mannlegt eðli að ala með sér gremju og vera langrækinn, en kærleikur hjálpar okkur að losa okkur við slíkar hugsanir. Kærleikurinn „gleðst ekki yfir óréttvísinni.“ Það útheimtir sjálfstjórn að hafa ekki ánægju af því sem er rangt og ranglátt, svo sem klámi eða spillandi framhaldsþáttum í sjónvarpi. Kærleikurinn „breiðir yfir allt“ og „umber allt.“ Það kostar sjálfstjórn að umbera óþægindi, að þola erfiðleika og þungar byrðar án þess að missa kjarkinn, gjalda í sömu mynt eða íhuga að hætta að þjóna Jehóva.

12. Nefndu eina leið til að sýna að við kunnum að meta allt sem Jehóva Guð og Jesús Kristur hafa gert fyrir okkur.

12 Ef elskum himneskan föður okkar í sannleika og metum að verðleikum hina stórkostlegu eiginleika hans og allt sem hann hefur gert fyrir okkur, þá viljum við þóknast honum með því að iðka sjálfstjórn öllum stundum. Eins munum við hlýða boði Drottins okkar og meistara, Jesú Krists, um að ‚taka kvalastaur okkar og fylgja honum stöðuglega,‘ ef við elskum hann í raun og sannleika. (Markús 8:34) Það gerir svo sannarlega þá kröfu til okkar að við iðkum sjálfstjórn. Kærleikur til kristinna bræðra okkar og systra mun einnig koma í veg fyrir að við særum þau með einhverri eigingjarnri breytni.

Trú og auðmýkt hjálpa

13. Hvers vegna getur trú hjálpað okkur að iðka sjálfstjórn?

13 Önnur góð hjálp til að iðka sjálfstjórn er trú á Guð og fyrirheit hans. Trú gerir okkur kleift að treysta á Jehóva og bíða tiltekins tíma hans til að koma á réttlæti. Páll postuli bendir á þetta atriði í Rómaverjabréfinu 12:19: „Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, . . . því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir [Jehóva].‘“ Þar getur auðmýkt einnig hjálpað okkur. Ef við erum auðmjúk rjúkum við ekki upp út af ímynduðum eða raunverulegum rangindum. Við tökum ekki lögin í okkar hendur í fljótfærni, ef þannig má að orði komast, heldur iðkum við sjálfstjórn og erum fús til að bíða eftir Jehóva. — Samanber Sálm 37:1, 8.

14. Hvaða frásaga sýnir að janvel þeir sem skortir mjög sjálfstjórn geta ræktað hana með sér?

14 Reynslufrásaga af einkar skapbráðum manni sýnir greinilega að við getum lært að iðka sjálfstjórn. Svo skapbráður var hann að hann sló niður þrjá lögregluþjóna áður en tókst að yfirbuga hann, þegar lögreglan var kvödd til út af ólátum sem hann og faðir hans ollu. Síðar komst hann í samband við votta Jehóva og lærði að iðka sjálfstjórn, einn af ávöxtum anda Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Núna, 30 árum síðar, er þessi maður en trúfastur þjónn Jehóva.

Sjálfstjórn innan fjölskyldunnar

15, 16. (a) Hvað hjálpar eiginmanni að iðka sjálfstjórn? (b) Undir hvaða kringumstæðum er sjálfstjórn sérstaklega þýðingarmikil og hvaða reynslufrásögn sýnir það? (c) Hvers vegna þarf eiginkona að iðka sjálfstjórn?

15 Sjálfstjórn er vissulega nauðsynleg innan vébanda fjölskyldunnar. Eiginmaður verður að hafa mikla stjórn á hugsunum sínum, orðum og athöfnum til að elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig. (Efesusbréfið 5:28, 29) Já, það kostar sjálfstjórn af hálfu eiginmanna að fara eftir orðum Péturs postula í 1. Pétursbréfi 3:7: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar.“ Einkum er þýðingarmikið af hálfu eiginmanns, sem er í trúnni, að iðka sjálfstjórn ef eiginkona hans er ekki í trúnni.

16 Tökum dæmi: Öldungur einn átti einkar geðilla konu sem ekki var í trúnni. Samt sem áður iðkaði hann sjálfstjórn og hún gerði honum svo gott að læknirinn hans sagði honum: „John, annaðhvort ert þú einstaklega þolinmóður maður að eðlisfari eða þú býrð yfir máttugri trú.“ Við búum svo sannarlega yfir máttugri trú því að „ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar“ sem gerir okkur kleift að iðka sjálfstjórn. (2. Tímóteusarbréf 1:7) Það krefst einnig sjálfstjórnar af hálfu eiginkonu að vera undirgefin, einkum ef maðurinn hennar er ekki í trúnni. — 1. Pétursbréf 3:1-4.

17. Hvers vegna er sjálfstjórn mikilvæg í samskiptum foreldra og barna?

17 Sjálfstjórn er einnig nauðsynleg í samskiptum foreldra og barna. Eigi börnin að læra sjálfstjórn þurfa foreldrarnir að ganga á undan með góðu fordæmi. Og þegar börnin þarfnast einhvers konar ögunar ætti alltaf að veita hana með stillingu og kærleika sem kostar verulega sjálfstjórn. (Efesusbréfið 6:4; Kólossubréfið 3:21) Ef börnin síðan vilja sýna að þau elska foreldra sína í raun og veru, þá kallar það á hlýðni og hlýðni útheimtir vissulega sjálfstjórn. — Efesusbréfið 6:1-3; samanber 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Notfærðu þér þá hjálp sem Guð gefur

18-20. Hvaða þrjár andlegar ráðstafanir er nauðsynlegt að nota til að rækta þá eiginleika sem hjálpa okkur að iðka sjálfstjórn?

18 Til að vaxa í guðsótta, óeigingjörnum kærleika, trú, hatri á því sem illt er og í sjálfstjórn þurfum við að notfæra okkur alla þá hjálp sem Jehóva Guð hefur séð fyrir. Við skulum íhuga þrjár andlegar ráðstafanir sem geta hjálpað okkur að iðka sjálfstjórn. Í fyrsta lagi skulum við nefna hin dýrmætu sérréttindi sem bænin er. Við viljum aldrei vera of upptekin til að biðja. Já, við ættum að þrá það að ‚biðja án afláts,‘ að vera „staðfastir í bæninni.“ (1. Þessaloníkubréf 5:17; Rómverjabréfið 12:12) Við skulum ræða í bænum okkar um löngun okkar til að þroska með okkur sjálfstjórn. En þegar okkur mistekst að sýna sjálfstjórn skulum við iðrunarfullir biðja himneskan föður okkar fyrirgefningar.

19 Önnur hjálp til að sýna sjálfstjórn er fólgin í því að nærast á orði Guðs og þeim ritum sem hjálpa okkur að skilja Biblíuna og heimfæra hana. Það er auðvelt að vanrækja þennan þátt heilagrar þjónustu okkar! Við verðum að iðka sjálfstjórn og halda áfram að minna okkur á að það er ekkert þýðingarmeira lesefni til en Biblían og það sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ lætur í té, og við verðum því að láta það ganga fyrir öðru. (Matteus 24:45-47) Sannleikurinn er sá að við komumst ekki yfir að gera alla hluti heldur verðum við að velja og hafna. Erum við í raun og sannleika andlegar manneskjur? Ef við berum skyn á andlega þörf okkar iðkum við þá sjálfstjórn sem þarf til að slökkva á sjónvarpstækinu og búa okkur undir samkomur eða lesa Varðturninn sem er nýkominn í póstinum.

20 Í þriðja lagi verðum við að meta safnaðarsamkomur okkar og mótin að verðleikum. Lítum við á allar slíkar samkomur sem algera nauðsyn? Undirbúum við okkur til að taka þátt í þeim og sækjum þær við hvert tækifæri? Í sama mæli og við metum samkomurnar að verðleikum styrkjum við þann ásetning okkar að iðka sjálfstjórn undir öllum kringumstæðum.

21. Nefndu sum af laununum sem fylgja því að rækta þann ávöxt andans sem sjálfstjórn er.

21 Hvaða umbunar megum við vænta fyrir það að reyna sem best við getum að iðka sjálfstjórn öllum stundum? Meðal annars uppskerum við aldrei hinn beiska ávöxt eigingirninnar. Við höfum sjálfsvirðingu og hreina samvisku. Við firrum okkur ótal vandræðum og höldum okkur á veginum til lífsins. Enn fremur getum við unnið öðrum mikið gagn með því. Umfram allt erum við þó að hlýða Orðskviðunum 27:11: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ Og það er mesta umbunin sem getur fallið okkur í skaut — þau sérréttindi að gleðja hjarta hins elskuríka föður okkar á himnum, Jehóva!

Manst þú?

◻ Hvernig hjálpar guðhræðsla okkur að iðka sjálfstjórn?

◻ Hvers vegna hjálpar kærleikur okkur að iðka sjálfstjórn?

◻ Hvernir er sjálfstjórn gagnleg innan fjölskyldunnar?

◻ Hvaða ráðstafanir verðum við að nota vel ef við viljum rækta með okkur sjálfstjórn?

[Mynd á blaðsíðu 24]

Jósef iðkaði sjálfstjórn þegar hans var freistað.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Það kostar mikla sjálfstjórn að aga barn með stillingu og kærleika.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila