Bóknámið stuðlar að menntun
1 Safnaðarbóknámið gegnir mjög mikilvægu hlutverki í menntunaráætlun skipulags Jehóva. Bóknámshóparnir eru dreifðir um safnaðarsvæðið og það auðveldar öllum að sækja bóknámið. Áhugasamir einstaklingar kunna að vera fúsari en ella til að þiggja boð um að sækja þessa samkomu af því að hún fer fram í næsta nágrenni við þá.
2 Leitast er við að halda hverjum hópi fremur litlum. Það gerir stjórnandanum mögulegt að veita hverjum og einum persónulega hjálp. Námshraði manna er misjafn. Ef einhver á í erfiðleikum með að skilja eitthvert atriði, jafnvel þótt hann hafi numið efnið fyrirfram, getur stjórnandinn rætt það nánar að náminu loknu. Í litlum hópi gefast þar að auki fleiri tækifæri til að gefa athugasemdir og taka þátt í að lesa ritningarstaði. Leggur þú þitt af mörkum til umræðnanna með því að gefa reglulega athugasemdir? Reynir þú að svara með eigin orðum? Fúsleiki þinn til þátttöku getur verið bæði þér og öðrum til gagns. Þegar þú undirbýrð þig skalt þú nota skilningsgáfu þína til að finna út hvernig þú getir hagnýtt þér viss atriði í námsefninu. — Hebr. 5:14.
3 Með því að taka eftir hvers konar kennsluaðferðir bóknámsstjórinn notar getur þú lært hvernig stýra má heimabiblíunámi á áhugaverðan og fræðandi hátt. Eftir að hæfur bróðir hefur lesið tölugreinarnar er fjallað um spurningarnar. Námsstjórinn hvetur alla til að tala nægilega hátt. Eftir því sem tíminn leyfir leitast hann við að draga fram athugasemdir um tilvísaða ritningarstaði til að hjálpa okkur að skilja hvernig þeir tengjast efninu. (Samanber Nehemía 8:8.) Stundum kann hann að bæta við stuttum athugasemdum frá eigin brjósti til skýringar eða nota aukaspurningar til að ná fram aðalatriði. Dæmi eða samlíking gæti hjálpað okkur að sjá hvernig upplýsingarnar snerta okkar eigið líf.
4 Aðsóknin er fremur dræm að sumum bóknámum. Ferð þú reglulega? Ef ekki þá missir þú af mikilvægri andlegri ráðstöfun. Jehóva sýnir umhyggju sína fyrir okkur meðal annars með bóknáminu. (1. Pét. 5:7) Hann vill að við tökum framförum í þekkingu og visku til þess að við verðum andlega sterk. Hins vegar vill Satan hægja á andlegum vexti okkar og veikja okkur til þess að við komum Jehóva og skipulagi hans að minna gagni. Láttu það ekki gerast! Láttu hið hlýlega, kærleiksríka andrúmsloft í þessum nátengda hópi snerta hjarta þitt og hvetja þig til að halda áfram að vegsama Jehóva. — Samanber Sálm 111:1.
5 Á flestum bóknámsstöðum fara fram samkomur til boðunarstarfsins sem henta boðberunum. Þær geta verið á virkum dögum, um helgar eða á kvöldin. Bóknámsstjórinn sér um að nægilegt starfssvæði sér fyrir hendi og að einhver sé til taks til að taka forystuna í boðunarstarfinu. Samkomur til boðunarstarfs ættu ekki að vera lengri en 10-15 mínútur. Stjórnandinn gæti stuttlega rætt um dagstextann ef hann tengist prédikunarstarfi okkar og komið með eina eða tvær sérstakar tillögur um kynningarorð eða haft stutta sýnikennslu um tilboð mánaðarins.
6 Stjórnandinn leitast við með tímanum að starfa persónulega með hverjum og einum í hópnum hans og veita viðeigandi uppörvun og þjálfun. — Samanber Markús 3:14; Lúkas 8:1.