Við höfum gagn af því að nema bókina Nálægðu þig Jehóva
1 Það var ánægjulegt að fá bókina Nálægðu þig Jehóva á landsmótinu „Kostgæfir boðberar Guðsríkis“. Margir fóru strax að lesa hana. Og árstextinn 2003, „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður“, hefur eflaust kveikt löngun hjá enn fleirum til að lesa hana. — Jak. 4:8.
2 Í marsmánuði verður byrjað að fara yfir þessa bók í safnaðarbóknáminu. Hvernig getum við haft sem mest gagn af náminu? Góður undirbúningur er nauðsynlegur. Farið verður yfir hálfan kafla á viku og eru þá frekar fáar efnisgreinar til umræðu. Þannig verður nægur tími til að segja frá eigin brjósti hvað við lærðum af því að nema og hugleiða efnið. Þær vikur, sem farið verður yfir síðari hluta hvers kafla, verða enn færri efnisgreinar til umræðu svo að tími gefist til að brjóta til mergjar efni rammans „Til íhugunar“.
3 Frá og með öðrum kafla kemur þessi rammi fyrir í lok hvers kafla. Bóknámsumsjónarmaðurinn stjórnar umræðum hópsins um efni rammans eftir að farið hefur verið yfir síðustu efnisgreinina í kaflanum. Hann hvetur hvern og einn í hópnum til að tjá sig um ritningarstaðina og reynir að draga fram það sem þeim þótti athyglisverðast. (Orðskv. 20:5) Til viðbótar við spurningarnar í rammanum getur hann stundum spurt spurninga eins og: „Hvað segir þetta okkur um Jehóva? Hvaða áhrif hefur það á líf okkar? Og hvernig getum við notað það til að hjálpa öðrum?“ Markmiðið ætti að vera að draga fram einlæg svör en ekki spyrja hópinn of mikið út í smáatriði.
4 Nálægðu þig Jehóva er einstök bók. Öll rit ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ lofa Jehóva en þessi bók fjallar eingöngu um eiginleika hans. (Matt. 24:45-47) Við eigum svo sannarlega von á góðu! Það verður okkur til mikils gagns að fræðast ítarlega um persónuleika Jehóva. Megi námið verða til þess að við nálægjum okkur himneskum föður okkar enn meir og að við verðum færari í að hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama.