Notaðu blöðin í boðunarstarfinu
1, 2. Hvernig hafa blöðin Varðturninn og Vaknið! haft áhrif á líf fólks?
1 „Athyglisverð, tímabær og uppörvandi.“ „Ég hef aldrei lesið svona hvetjandi blöð.“ Þessi ummæli lýsa vel hvað fólki um allan heim finnst um Varðturninn og Vaknið! Blöðin okkar hafa svo sannarlega reynst ómetanleg verkfæri til að koma fagnaðarerindinu á framfæri við ‚alla menn‘. — 1. Tím. 2:4.
2 Kaupsýslumaður nokkur fékk eintak af Vaknið! sem fjallaði um málefni sem vakti áhuga hans. Síðar las hann meðfylgjandi Varðturnsblað. Í því var grein sem fékk hann til að grandskoða þrenningarkenninguna en hann hafði trúað á hana alla sína ævi. Þetta vakti áhuga hans. Sex mánuðum síðar lét hann skírast. Annar maður tók iðulega við blöðunum en las þau aldrei. Kona hans forðaðist aftur á móti vottana en las blöðin sem eiginmaðurinn þáði. Hún varð snortin af loforðum Biblíunnar um paradís á jörð þar sem réttlátt fólk mun búa. Með tímanum gerðust hún, sonur hennar og systir þjónar Jehóva.
3. Hvaða kosti hefur það að bjóða blöðin saman?
3 Bjóddu blöðin saman: Eins og sést á fyrrnefndum dæmum getum við ekki vitað með vissu hverjir lesa blöðin okkar og hvað vekur áhuga þeirra. (Préd. 11:6) Það er því gott að bjóða Varðturninn og Vaknið! saman þó að við kynnum yfirleitt bara annað blaðið. Við ákveðnar aðstæður getur verið viðeigandi að bjóða nokkur tölublöð saman.
4. Hvernig getum við skipulagt blaðastarf?
4 Gott er að taka frá einn dag í viku fyrir blaðastarfið. Á dagatali Votta Jehóva fyrir árið 2005 eru allir laugardagar merktir sem blaðastarfsdagar. Þar sem aðstæður á svæðinu og aðstæður boðbera eru mismunandi er auðvitað hægt að velja einhvern annan dag til að einbeita sér að blaðastarfinu. Tekurðu frá tíma fyrir blaðastarfið í hverri viku?
5. Við hvaða tækifæri væri hægt að bjóða blöð og hvaða markmið getum við sett okkur?
5 Settu þér markmið: Gott er að hafa það markmið að dreifa ákveðnum fjölda blaða á mánuði því að það getur hjálpað manni að leggja áherslu á blaðastarfið. Hefurðu komið þér upp blaðaleið? Býðurðu þeim sem þú hittir í boðunarstarfinu blöðin? Gætirðu boðið blöðin á viðskiptasvæðum, í götustarfinu eða annars staðar á almannafæri? Hefurðu blöð meðferðis þegar þú ferðast, verslar eða bíður á biðstofum? Nýttu öll hentug tækifæri til að hjálpa öðrum að njóta góðs af Varðturninum og Vaknið!
6. Hvernig getum við nýtt eldri eintök af blöðunum?
6 Við getum líka reynt að dreifa eldri eintökum sem við eigum til. Þó að blöðum sé ekki dreift innan mánaðar eða tveggja frá útgáfudeginum er innihald þeirra samt sem áður jafngott. Komdu þeim til áhugasamra. Varðturninn og Vaknið! hafa verið milljónum manna eins og „orð í tíma töluð“. (Orðskv. 25:11) Notum þau til að hjálpa milljónum manna að kynnast Jehóva og þjóna honum.