Síðari Samúelsbók
4 Þegar Ísbóset+ sonur Sáls frétti að Abner væri dáinn í Hebron+ féllust honum hendur og allir Ísraelsmenn urðu óttaslegnir. 2 Sonur Sáls hafði hjá sér tvo menn sem fóru fyrir ránsflokkum hans. Annar þeirra hét Baana en hinn Rekab. Þeir voru synir Rimmons frá Beerót af ættkvísl Benjamíns. (En Beerót+ taldist einnig til Benjamíns. 3 Íbúar Beerót flúðu til Gittaím+ og búa þar sem útlendingar enn þann dag í dag.)
4 Jónatan+ sonur Sáls átti son sem var bæklaður* á fótum.+ Hann var fimm ára þegar fréttin um dauða Sáls og Jónatans barst frá Jesreel.+ Fóstra hans tók hann upp og flúði í ofboði en missti hann á flóttanum. Upp frá því var hann bæklaður. Hann hét Mefíbóset.+
5 Einhverju sinni komu Rekab og Baana, synir Rimmons frá Beerót, inn í hús Ísbósets á heitasta tíma dags, en þá hafði Ísbóset fengið sér miðdegisblund. 6 Rekab og Baana+ bróðir hans fóru inn í húsið og þóttust ætla að sækja hveiti en í staðinn stungu þeir Ísbóset í kviðinn og forðuðu sér. 7 Þegar þeir komu inn í húsið lá Ísbóset í rúminu í svefnherbergi sínu. Þeir stungu hann til bana, hjuggu af honum höfuðið og tóku það með sér. Síðan gengu þeir eftir veginum til Araba alla nóttina. 8 Þegar þeir komu til Hebron færðu þeir Davíð höfuð Ísbósets+ og sögðu við konung: „Hér er höfuð Ísbósets, sonar Sáls óvinar þíns+ sem sóttist eftir lífi þínu.+ Í dag hefur Jehóva veitt herra mínum og konungi hefnd á Sál og afkomendum hans.“
9 En Davíð svaraði Rekab og Baana bróður hans, sonum Rimmons frá Beerót: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem hefur bjargað mér úr öllum erfiðleikum,+ 10 þá lét ég handsama og drepa manninn sem sagði mér í Siklag að Sál væri dáinn+ og hélt að hann færði mér góðar fréttir.+ Það voru sögulaunin sem hann fékk frá mér. 11 Og nú, þegar illmenni hafa drepið réttlátan mann í rúmi hans í eigin húsi, ætti ég þá ekki miklu frekar að krefjast blóðs hans af ykkur+ og afmá ykkur af jörðinni?“ 12 Síðan skipaði Davíð ungu mönnunum að drepa þá.+ Þeir hjuggu af þeim hendur og fætur og hengdu þá upp+ við tjörnina í Hebron. En höfuð Ísbósets tóku þeir og lögðu í gröf Abners í Hebron.