Fimmtudagur 17. júlí
„Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskv. 17:17.
María móðir Jesú þurfti á styrk að halda. Hún myndi verða ófrísk jafnvel þótt hún væri ekki gift. Hún hafði enga reynslu af því að ala upp börn en hún átti að annast dreng sem myndi verða Messías. Og hvernig myndi María útskýra þetta fyrir Jósef unnusta sínum þar sem hún hafði aldrei haft kynmök? (Lúk. 1:26–33) Hvernig fékk María styrk? Hún leitaði hjálpar hjá öðrum. Hún bað til dæmis Gabríel um meiri upplýsingar varðandi málið. (Lúk. 1:34) Stuttu síðar ferðaðist hún alla leið til ‚fjalllendis Júda‘ til að heimsækja Elísabetu frænku sína. Elísabet hrósaði Maríu og Jehóva innblés henni að bera fram hvetjandi spádóm um ófætt barn Maríu. (Lúk. 1:39–45) María sagði að Jehóva hefði „unnið máttarverk með armi sínum“. (Lúk. 1:46–51) Hann notaði Gabríel og Elísabetu til að styrkja Maríu. w23.10 14–15 gr. 10–12
Föstudagur 18. júlí
„Hann gerði okkur að konungsríki og prestum handa Guði sínum og föður.“ – Opinb. 1:6.
Ákveðinn fjöldi lærisveina Krists hefur verið smurður heilögum anda og þannig öðlast sérstakt samband við Jehóva. Og þessir 144.000 einstaklingar eiga að þjóna sem prestar á himni með Jesú. (Opinb. 14:1) Hið heilaga í tjaldbúðinni táknar að þeir hafi verið ættleiddir sem andlegir synir Guðs meðan þeir eru enn á jörðinni. (Rómv. 8:15–17) Hið allra helgasta í tjaldbúðinni táknar himininn þar sem Jehóva dvelur. „Fortjaldið“ sem skildi að hið heilaga og hið allra helgasta táknar jarðneskan líkama Jesú. Eins lengi og hann væri í honum kæmist hann ekki til himna til að vera æðstiprestur í andlega musterinu. Með því að fórna jarðneskum líkama sínum fyrir mannkynið opnaði Jesús öllum andasmurðum þjónum Jehóva möguleikann á lífi á himnum. Þeir þurfa líka að afsala sér jarðneskum líkama sínum til að fá himnesk laun sín. – Hebr. 10:19, 20; 1. Kor. 15:50. w23.10 28 gr. 13
Laugardagur 19. júlí
„Ég hefði ekki nægan tíma ef ég færi að segja frá Gídeon.“ – Hebr. 11:32.
Gídeon brást mildilega við þegar Efraímítar gagnrýndu hann. (Dóm. 8:1–3) Hann brást ekki reiður við heldur sýndi auðmýkt þegar hann hlustaði á kvartanir þeirra og dró þannig úr spennu við þessar aðstæður. Það er skynsamlegt af öldungum að líkja eftir Gídeon með því að hlusta vandlega og bregðast mildilega við þegar þeir eru gagnrýndir. (Jak. 3:13) Þannig stuðla þeir að friði í söfnuðinum. Þegar Gídeon hlaut lof eftir sigurinn yfir Midíanítum beindi hann athyglinni að Jehóva. (Dóm. 8:22, 23) Hvernig geta útnefndir menn líkt eftir Gídeon? Þeir geta gefið Jehóva heiðurinn fyrir það sem þeir áorka. (1. Kor. 4:6, 7) Öldungur sem fær til dæmis hrós fyrir kennsluhæfileika sína getur beint athyglinni að uppsprettu leiðbeininganna, orði Guðs, eða að þjálfuninni sem við fáum í söfnuðinum. Öldungar gætu stundum hugleitt hvort þeir dragi of mikla athygli að sjálfum sér. w23.06 4 gr. 7, 8