Miðvikudagur 16. júlí
„Jehóva veit að hugleiðingar hinna vitru eru tilgangslausar.“ – 1. Kor. 3:20.
Við þurfum að forðast að beita hugmyndum manna. Ef við lítum á málin frá mannlegum sjónarhóli gætum við farið að hunsa Jehóva og lög hans. (1. Kor. 3:19) „Viska þessa heims“ höfðar gjarnan til holdlegra langana. Fáeinir kristnir einstaklingar í Pergamos og Þýatíru urðu fyrir áhrifum þeirra sem voru siðlausir og tilbáðu skurðgoð. Jesús áminnti söfnuðina alvarlega fyrir að umbera siðleysi. (Opinb. 2:14, 20) Við verðum líka fyrir þrýstingi til að tileinka okkur rangt hugarfar. Fjölskylda og kunningjar geta reynt að höfða til tilfinninga okkar og hvatt okkur til að gera málamiðlanir. Þau gætu sagt að það skipti engu máli að vera siðferðilega hreinn og að siðferðismælikvarði Biblíunnar sé úreltur. Stundum gæti okkur fundist að leiðbeiningar Jehóva séu ekki nógu skýrar. Við gætum jafnvel freistast til að ‚ganga lengra en skrifað er‘. – 1. Kor. 4:6. w23.07 16 gr. 10, 11
Fimmtudagur 17. júlí
„Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskv. 17:17.
María móðir Jesú þurfti á styrk að halda. Hún myndi verða ófrísk jafnvel þótt hún væri ekki gift. Hún hafði enga reynslu af því að ala upp börn en hún átti að annast dreng sem myndi verða Messías. Og hvernig myndi María útskýra þetta fyrir Jósef unnusta sínum þar sem hún hafði aldrei haft kynmök? (Lúk. 1:26–33) Hvernig fékk María styrk? Hún leitaði hjálpar hjá öðrum. Hún bað til dæmis Gabríel um meiri upplýsingar varðandi málið. (Lúk. 1:34) Stuttu síðar ferðaðist hún alla leið til ‚fjalllendis Júda‘ til að heimsækja Elísabetu frænku sína. Elísabet hrósaði Maríu og Jehóva innblés henni að bera fram hvetjandi spádóm um ófætt barn Maríu. (Lúk. 1:39–45) María sagði að Jehóva hefði „unnið máttarverk með armi sínum“. (Lúk. 1:46–51) Hann notaði Gabríel og Elísabetu til að styrkja Maríu. w23.10 14–15 gr. 10–12
Föstudagur 18. júlí
„Hann gerði okkur að konungsríki og prestum handa Guði sínum og föður.“ – Opinb. 1:6.
Ákveðinn fjöldi lærisveina Krists hefur verið smurður heilögum anda og þannig öðlast sérstakt samband við Jehóva. Og þessir 144.000 einstaklingar eiga að þjóna sem prestar á himni með Jesú. (Opinb. 14:1) Hið heilaga í tjaldbúðinni táknar að þeir hafi verið ættleiddir sem andlegir synir Guðs meðan þeir eru enn á jörðinni. (Rómv. 8:15–17) Hið allra helgasta í tjaldbúðinni táknar himininn þar sem Jehóva dvelur. „Fortjaldið“ sem skildi að hið heilaga og hið allra helgasta táknar jarðneskan líkama Jesú. Eins lengi og hann væri í honum kæmist hann ekki til himna til að vera æðstiprestur í andlega musterinu. Með því að fórna jarðneskum líkama sínum fyrir mannkynið opnaði Jesús öllum andasmurðum þjónum Jehóva möguleikann á lífi á himnum. Þeir þurfa líka að afsala sér jarðneskum líkama sínum til að fá himnesk laun sín. – Hebr. 10:19, 20; 1. Kor. 15:50. w23.10 28 gr. 13