Fyrri Konungabók
20 Benhadad+ Sýrlandskonungur+ safnaði nú saman öllum her sínum. Hann hélt af stað ásamt 32 öðrum konungum, hestum þeirra og stríðsvögnum, settist um+ Samaríu+ og herjaði á hana. 2 Síðan sendi hann menn inn í borgina til Akabs+ Ísraelskonungs með þessi skilaboð: „Benhadad segir: 3 ‚Silfur þitt og gull er mitt og einnig fallegustu konur þínar og synir.‘“ 4 Ísraelskonungur svaraði: „Eins og þú vilt, herra minn og konungur. Ég og allt sem ég á er þitt.“+
5 En sendiboðarnir komu aftur og sögðu: „Benhadad segir: ‚Ég hef sent þér þessi skilaboð: „Þú skalt gefa mér silfur þitt og gull, konur þínar og syni.“ 6 En um þetta leyti á morgun sendi ég þjóna mína til þín. Þeir munu leita hátt og lágt í húsi þínu og húsum hirðmanna þinna og hafa á burt með sér allt sem er þér dýrmætt.‘“
7 Þá kallaði Ísraelskonungur saman alla öldunga landsins og sagði: „Þið sjáið að þessi maður vill steypa okkur í ógæfu. Hann hefur heimtað að ég gefi honum konur mínar og syni, silfur mitt og gull og ég neitaði honum ekki um það.“ 8 Allir öldungarnir og allt fólkið sagði við hann: „Gerðu ekki eins og hann segir, láttu ekki undan.“ 9 Þá sagði Akab við sendiboða Benhadads: „Segið við herra minn og konung: ‚Allt sem þú krafðist af þjóni þínum í fyrra skiptið mun ég gera en þetta get ég ekki gert.‘“ Síðan fóru sendiboðarnir og færðu honum svarið.
10 Þá sendi Benhadad honum þessi skilaboð: „Guðirnir refsi mér harðlega ef ryk Samaríu nægir til að fylla lúkur allra þeirra sem fylgja mér.“ 11 En Ísraelskonungur svaraði: „Segið honum: ‚Sá sem herklæðist ætti ekki að hreykja sér eins og sá sem leggur herklæðin frá sér.‘“+ 12 Benhadad heyrði þetta svar þegar hann sat að drykkju með konungunum í tjöldunum.* Hann skipaði mönnum sínum þegar í stað að búast til árásar, og þeir bjuggust til að ráðast á borgina.
13 Þá kom spámaður nokkur til Akabs+ Ísraelskonungs og sagði: „Jehóva segir: ‚Hefurðu séð þennan mikla herafla? Ég ætla að gefa hann í þínar hendur í dag. Þá muntu komast að raun um að ég er Jehóva.‘“+ 14 Akab spurði: „Með hjálp hvers?“ Spámaðurinn svaraði: „Jehóva segir: ‚Með hjálp aðstoðarmanna héraðshöfðingjanna.‘“ „Hver á að hefja bardagann?“ spurði Akab þá. „Þú,“ svaraði spámaðurinn.
15 Þá taldi Akab aðstoðarmenn héraðshöfðingjanna og þeir reyndust vera 232. Síðan taldi hann alla Ísraelsmenn. Þeir voru 7.000. 16 Þeir fóru út úr borginni um hádegi en Benhadad og konungarnir 32 sem höfðu slegist í lið með honum sátu þá og drukku sig drukkna í tjöldunum.* 17 Aðstoðarmenn héraðshöfðingjanna komu fyrstir út úr borginni. Benhadad sendi þá út njósnara sem sögðu honum að menn væru lagðir af stað frá Samaríu. 18 Hann sagði: „Hvort sem þeir eru komnir til að semja frið eða til að berjast skuluð þið taka þá lifandi til fanga.“ 19 En þegar aðstoðarmenn héraðshöfðingjanna og herinn sem fylgdi þeim komu út úr borginni 20 hjuggu þeir andstæðinga sína til bana. Þá flúðu Sýrlendingar+ og Ísraelsmenn eltu þá. Benhadad Sýrlandskonungur komst hins vegar undan á hesti ásamt nokkrum riddurum. 21 Nú hélt Ísraelskonungur af stað, réðst á hestana og vagnana og gersigraði Sýrlendinga.
22 Nokkru síðar kom spámaðurinn+ aftur til Ísraelskonungs og sagði við hann: „Styrktu varnir þínar og hugleiddu vandlega hvað þú ætlar að gera+ því að í byrjun næsta árs* mun Sýrlandskonungur halda gegn þér.“+
23 Ráðgjafar Sýrlandskonungs sögðu nú við hann: „Guð þeirra er fjallaguð. Þess vegna sigruðu þeir okkur. En ef við berjumst við þá á jafnsléttu munum við sigra þá. 24 Þetta skaltu líka gera: Settu landstjóra yfir herinn í stað konunganna.+ 25 Safnaðu saman jafn fjölmennum her og þú misstir, með jafn mörgum hestum og stríðsvögnum. Síðan skulum við berjast við þá á jafnsléttu. Þá vinnum við öruggan sigur.“ Benhadad hlustaði á ráð þeirra og gerði eins og þeir lögðu til.
26 Í byrjun næsta árs* safnaði Benhadad saman Sýrlendingum og hélt upp til Afek+ til að berjast við Ísrael. 27 Ísraelsmönnum var einnig safnað saman. Þeir fengu vistir og héldu út á móti þeim. Ísraelsmenn slógu upp búðum andspænis þeim og voru eins og tvær litlar geitahjarðir en Sýrlendingar þöktu landið.+ 28 Maður hins sanna Guðs kom þá til Ísraelskonungs og sagði: „Jehóva segir: ‚Þar sem Sýrlendingar sögðu: „Jehóva er fjallaguð en ekki sléttuguð,“ ætla ég að gefa allan þennan fjölda í þínar hendur.+ Þá munuð þið komast að raun um að ég er Jehóva.‘“+
29 Þeir voru í herbúðunum hvorir andspænis öðrum í sjö daga en á sjöunda degi kom til bardaga. Ísraelsmenn felldu 100.000 sýrlenska fótgönguliða á einum degi. 30 Þeir sem komust undan flúðu til Afek,+ inn í borgina. En borgarmúrinn hrundi yfir 27.000 þeirra sem komust undan. Benhadad hafði líka flúið inn í borgina og falið sig í skúmaskoti í húsi nokkru.
31 Ráðgjafar hans sögðu við hann: „Við höfum heyrt að konungar Ísraels séu miskunnsamir konungar.* Við skulum vefja hærusekk um mjaðmirnar og binda reipi um höfuðið og fara á fund Ísraelskonungs. Ef til vill þyrmir hann lífi þínu.“+ 32 Síðan vöfðu þeir hærusekk um mjaðmirnar og bundu reipi um höfuðið og fóru á fund Ísraelskonungs. Þeir sögðu: „Benhadad þjónn þinn biður þig að þyrma lífi sínu.“ Akab svaraði: „Er hann enn á lífi? Hann er bróðir minn.“ 33 Mennirnir töldu þetta vita á gott og voru fljótir að taka undir það sem hann sagði. „Benhadad er bróðir þinn,“ sögðu þeir. Þá sagði Akab: „Farið og sækið hann.“ Benhadad kom til Akabs og hann lét hann stíga upp í vagninn.
34 Benhadad sagði við hann: „Ég ætla að skila borgunum sem faðir minn tók af föður þínum og þú mátt koma á fót mörkuðum* í Damaskus eins og faðir minn gerði í Samaríu.“
Akab svaraði: „Með þessum skilyrðum læt ég þig lausan.“
Síðan gerði hann sáttmála við hann og leyfði honum að fara.
35 Einn af sonum spámannanna*+ sagði við félaga sinn að boði Jehóva: „Sláðu mig.“ En hann vildi ekki slá hann. 36 Þá sagði hann: „Þar sem þú hlustaðir ekki á Jehóva mun ljón drepa þig um leið og þú gengur burt frá mér.“ Þegar hann var farinn frá honum kom ljón á móti honum og drap hann.
37 Hann gekk upp að öðrum manni og sagði: „Sláðu mig.“ Maðurinn sló hann svo að það sá á honum.
38 Síðan fór spámaðurinn og beið við veginn eftir konungi. Hann batt fyrir augun til að þekkjast ekki. 39 Þegar konungurinn fór fram hjá hrópaði spámaðurinn til hans: „Ég, þjónn þinn, var í miðjum bardaga þegar einhver maður kom til mín með fanga og sagði: ‚Gættu þessa manns. Ef hann sleppur þarftu að gjalda fyrir líf hans með lífi þínu+ eða greiða talentu* af silfri.‘ 40 En þegar ég þurfti að sinna öðru slapp fanginn.“ Ísraelskonungur sagði við hann: „Þú hefur sjálfur kveðið upp dóminn yfir þér.“ 41 Þá reif hann sárabindið frá augunum og Ísraelskonungur sá að þetta var einn af spámönnunum.+ 42 Spámaðurinn sagði við hann: „Jehóva segir: ‚Þar sem þú lést manninn sleppa sem ég hafði ákveðið að ætti að deyja+ skalt þú deyja í hans stað+ og þjóð þín í stað þjóðar hans.‘“+ 43 Síðan fór Ísraelskonungur heim til Samaríu,+ önugur og þungur í skapi.