Önnur Mósebók
36 Besalel á að vinna með Oholíab og öllum handverksmönnunum.* Jehóva hefur gefið þeim visku og skilning svo að þeir viti hvernig á að vinna öll þau verk sem tengjast hinni heilögu þjónustu eins og Jehóva hefur gefið fyrirmæli um.“+
2 Móse kallaði nú á Besalel og Oholíab og alla handverksmenn sem Jehóva hafði gefið visku,+ alla sem buðu sig fúslega fram til að vinna verkið.+ 3 Síðan fengu þeir frá Móse öll framlögin+ sem Ísraelsmenn höfðu gefið til vinnunnar við helgidóminn. En Ísraelsmenn héldu áfram að færa honum framlög á hverjum morgni.
4 Eftir að handverksmennirnir hófust handa við hið heilaga verk komu þeir hver á fætur öðrum 5 til Móse og sögðu við hann: „Fólkið kemur með miklu meira en nauðsynlegt er til verksins sem Jehóva hefur gefið fyrirmæli um.“ 6 Móse lét því tilkynna um allar búðirnar: „Hvorki karlar né konur skulu leggja meira fram til helgidómsins.“ Þá hætti fólkið að koma með framlög. 7 Efniviðurinn nægði fyrir öllu sem átti að gera og meira en það.
8 Allir handverksmennirnir+ gerðu nú tjaldbúðina+ úr tíu tjalddúkum úr fínu tvinnuðu líni, bláu garni, purpuralitri ull og skarlatsrauðu garni. Hann* gerði þá með útsaumuðum kerúbamyndum.+ 9 Hver tjalddúkur var 28 álnir* á lengd og 4 álnir á breidd. Allir tjalddúkarnir voru jafn stórir. 10 Hann festi saman fimm tjalddúka í eina einingu og hina fimm tjalddúkana sömuleiðis. 11 Síðan gerði hann lykkjur úr bláu garni á jaðri annarrar einingarinnar og eins á jaðri hinnar einingarinnar þar sem átti að tengja þær saman. 12 Hann gerði 50 lykkjur á jaðri annarrar einingarinnar og 50 lykkjur á jaðri hinnar svo að lykkjurnar stóðust á þar sem átti að tengja þær saman. 13 Að lokum gerði hann 50 gullkróka og tengdi tjalddúkana saman með þeim þannig að tjaldbúðin varð ein samfelld heild.
14 Að því búnu gerði hann dúka úr geitarhári til að leggja yfir tjaldbúðina. Hann gerði 11 dúka.+ 15 Hver tjalddúkur var 30 álnir á lengd og 4 á breidd. Dúkarnir 11 voru jafn stórir. 16 Hann festi saman fimm af tjalddúkunum og festi líka saman hina sex. 17 Hann gerði síðan 50 lykkjur á jaðri annarrar einingarinnar, á ysta tjalddúknum, og 50 lykkjur á jaðri hinnar einingarinnar þar sem þær tengdust. 18 Hann gerði líka 50 króka úr kopar til að tengja tjaldið saman í eina heild.
19 Hann gerði yfirtjald úr rauðlituðum hrútskinnum og yfirtjald úr selskinnum til að leggja yfir það.+
20 Eftir það tók hann akasíuvið+ og gerði veggramma tjaldbúðarinnar sem stóðu upp á endann.+ 21 Hver rammi var tíu álnir á hæð og ein og hálf alin á breidd. 22 Á hverjum ramma voru tveir tappar* hlið við hlið. Þannig gerði hann alla veggramma tjaldbúðarinnar. 23 Hann gerði 20 veggramma fyrir suðurhlið tjaldbúðarinnar. 24 Síðan gerði hann 40 undirstöðuplötur úr silfri undir veggrammana 20, tvær plötur undir hvern ramma, hvora fyrir sinn tappann.+ 25 Hann gerði einnig 20 veggramma fyrir norðurhlið tjaldbúðarinnar 26 og 40 undirstöðuplötur fyrir þá úr silfri, tvær plötur undir hvern ramma.
27 Fyrir bakhlið tjaldbúðarinnar, sem snýr í vestur, gerði hann sex veggramma.+ 28 Hann gerði tvo ramma sem standa á báðum hornum bakhliðarinnar. 29 Þeir voru tvöfaldir neðan frá og upp úr, að efsta hringnum. Þannig gerði hann bæði hornin. 30 Veggrammarnir voru sem sagt átta með 16 undirstöðuplötum úr silfri, tveim plötum undir hverjum ramma.
31 Hann gerði síðan þverslár úr akasíuviði, fimm fyrir aðra hlið veggrammanna í tjaldbúðinni,+ 32 fimm fyrir hina hlið rammanna í tjaldbúðinni og fimm þverslár fyrir rammana í bakhlið tjaldbúðarinnar sem snýr í vestur. 33 Hann gerði miðslána sem er á miðjum veggrömmunum og nær endanna á milli. 34 Hann lagði veggrammana gulli, gerði hringi úr gulli sem halda þverslánum og lagði slárnar gulli.+
35 Hann gerði fortjald+ úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni og saumaði út kerúba+ á það.+ 36 Hann gerði fjórar súlur úr akasíuviði fyrir fortjaldið og lagði þær gulli. Hann gerði einnig króka úr gulli og steypti fjórar undirstöðuplötur úr silfri undir súlurnar. 37 Síðan gerði hann forhengi fyrir inngang tjaldsins, ofið úr bláu garni, purpuralitri ull, skarlatsrauðu garni og fínu tvinnuðu líni.+ 38 Hann gerði einnig fimm súlur ásamt krókum. Hann lagði súlnahöfuðin og festingar* þeirra gulli en undirstöðuplöturnar fimm voru úr kopar.