Esekíel
22 Orð Jehóva kom aftur til mín: 2 „Mannssonur, ertu tilbúinn til að kveða upp dóm yfir hinni blóðseku borg*+ og leiða henni fyrir sjónir allt það viðbjóðslega sem á sér stað í henni?+ 3 Segðu: ‚Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva: „Þú borg sem úthellir blóði+ á þínum eigin götum, þú hlýtur bráðum makleg málagjöld.+ Þú óhreinkar þig með því að gera þér viðbjóðsleg skurðgoð.*+ 4 Þú ert sek vegna blóðsins sem þú hefur úthellt+ og óhrein vegna viðbjóðslegra skurðgoða þinna.+ Þú hefur flýtt fyrir refsingu þinni, ár þín eru á enda. Þess vegna læt ég þjóðirnar gera lítið úr þér og ég geri þig að athlægi um öll lönd.+ 5 Hæðst er að þér í nálægum löndum og fjarlægum,+ þú sem ert með flekkað mannorð og full af óeirðum. 6 Allir höfðingjar Ísraels sem búa í þér beita valdi sínu til að úthella blóði.+ 7 Foreldrar eru fyrirlitnir hjá þér.+ Menn hafa fé af útlendingum og fara illa með föðurlaus börn* og ekkjur.“‘“+
8 „‚Þú fyrirlítur helgidóm minn og vanhelgar hvíldardaga mína.+ 9 Hjá þér eru rógberar sem vilja úthella blóði.+ Hjá þér borða menn fórnir á fjöllunum og fólk hegðar sér svívirðilega.+ 10 Hjá þér svívirða menn rúm* föður síns+ og sofa hjá* konu sem er óhrein vegna blæðinga.+ 11 Hjá þér fremur maður viðurstyggð með eiginkonu náunga síns,+ annar flekkar tengdadóttur sína með blygðunarlausri hegðun+ og enn annar svívirðir systur sína, dóttur föður síns.+ 12 Hjá þér þiggja menn mútur til að úthella blóði.+ Þú lánar gegn vöxtum+ eða í gróðaskyni* og kúgar fé út úr náunga þínum.+ Já, þú hefur steingleymt mér,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva.
13 ‚Ég slæ saman höndum af fyrirlitningu yfir óheiðarlegum gróða þínum og blóðsúthellingunum hjá þér. 14 Stenst kjarkur þinn og verða hendur þínar sterkar þegar ég læt til skarar skríða gegn þér?+ Ég, Jehóva, hef talað og ég læt til mín taka. 15 Ég tvístra þér meðal þjóðanna og dreifi þér um löndin+ og ég bind enda á óhreinleika þinn.+ 16 Þú verður vanvirt frammi fyrir þjóðunum og þú munt komast að raun um að ég er Jehóva.‘“+
17 Orð Jehóva kom aftur til mín: 18 „Mannssonur, Ísraelsmenn eru orðnir eins og einskis nýtur sori í augum mínum. Þeir eru allir eins og kopar, tin, járn og blý í bræðsluofni. Þeir eru orðnir að silfursora.+
19 Þess vegna segir alvaldur Drottinn Jehóva: ‚Þar sem þið eruð öll eins og einskis nýtur sori+ safna ég ykkur saman í Jerúsalem. 20 Eins og silfri, kopar, járni, blýi og tini er safnað í bræðsluofn og blásið er að eldinum til að bræða það, eins safna ég ykkur saman í reiði minni og heift og blæs á ykkur svo að þið bráðnið.+ 21 Ég safna ykkur saman og blæs að ykkur eldi reiði minnar+ svo að þið bráðnið inni í borginni.+ 22 Þið bráðnið í henni eins og silfur bráðnar í bræðsluofni og þið komist að raun um að ég, Jehóva, hef úthellt reiði minni yfir ykkur.‘“
23 Orð Jehóva kom aftur til mín: 24 „Mannssonur, segðu við landið: ‚Þú ert land sem verður ekki hreinsað og fær ekki regn á degi reiðinnar. 25 Spámenn þínir hafa gert samsæri.+ Þeir eru eins og öskrandi ljón sem slíta sundur bráð.+ Þeir gleypa fólk. Þeir hrifsa til sín fjársjóði og dýrgripi og hafa fjölgað ekkjum í landinu. 26 Prestar þínir hafa brotið lög mín+ og þeir vanhelga helgidóm minn.+ Þeir gera engan greinarmun á því sem er heilagt og því sem er það ekki+ og fræða ekki fólk um hvað er óhreint og hvað er hreint.+ Þeir neita að halda hvíldardaga mína og ég er vanhelgaður á meðal þeirra. 27 Höfðingjar þínir eru eins og úlfar sem rífa í sig bráð. Þeir úthella blóði og drepa fólk í gróðaskyni.+ 28 En spámenn þínir hafa hvítkalkað verk þeirra og falið þau. Þeir sjá falskar sýnir og flytja lygaspár+ og segja: „Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva,“ þó að Jehóva hafi ekki talað. 29 Fólkið í landinu hefur svikið og rænt.+ Það hefur farið illa með bágstadda og fátæka, haft fé af útlendingum og synjað þeim um að njóta réttar síns.‘
30 ‚Ég leitaði að manni meðal fólksins til að gera við múrinn eða standa í skarðinu á móti mér til að verja landið svo að það yrði ekki lagt í eyði,+ en ég fann engan. 31 Þess vegna ætla ég að úthella reiði minni yfir fólkið og útrýma því í brennandi heift minni. Ég læt það taka afleiðingum gerða sinna,‘ segir alvaldur Drottinn Jehóva.“