Nehemíabók
5 Nú fóru mennirnir og konur þeirra að kvarta sáran undan bræðrum sínum,+ Gyðingum. 2 Sumir sögðu: „Við eigum marga syni og dætur. Við þurfum að fá korn til að borða svo að við höldum lífi.“ 3 Aðrir sögðu: „Við höfum veðsett akra okkar, víngarða og hús til að fá korn í þessari hungursneyð.“ 4 Og enn aðrir sögðu: „Við höfum tekið fé að láni gegn veði í ökrum okkar og víngörðum til að borga konunginum skatt.+ 5 Við erum af sama holdi og blóði og bræður* okkar og börnin okkar eru eins og börnin þeirra. Samt þurfum við að gera syni okkar og dætur að þrælum og sumar dætur okkar eru nú þegar í þrælkun.+ Við getum ekkert gert í málinu því að akrar okkar og víngarðar tilheyra nú öðrum.“
6 Ég varð mjög reiður þegar ég heyrði hvernig þeir kvörtuðu sáran. 7 Ég velti þessu vandlega fyrir mér og átaldi síðan tignarmennina og embættismennina og sagði við þá: „Þið heimtið vexti* af ykkar eigin bræðrum.“+
Ég boðaði auk þess til fjöldafundar vegna þessa máls 8 og sagði: „Við höfum gert okkar ýtrasta til að kaupa lausa bræður okkar, Gyðinga, sem voru seldir þjóðunum. Ætlið þið nú að selja ykkar eigin bræður+ og eigum við síðan að kaupa þá til baka?“ Þeir þögðu og gátu engu svarað. 9 Þá sagði ég: „Það sem þið gerið er ekki gott. Ættuð þið ekki að sýna að þið óttist Guð okkar+ svo að þjóðirnar, óvinir okkar, geti ekki gert lítið úr okkur? 10 Ég, bræður mínir og aðstoðarmenn lánum þeim líka peninga og korn. Hættum nú að lána gegn vöxtum.+ 11 Ég bið ykkur að skila strax í dag ökrum þeirra,+ víngörðum, ólívulundum og húsum ásamt hundraðshlutanum* af peningunum, korninu, nýja víninu og olíunni sem þið heimtið í vexti af þeim.“
12 Þá svöruðu þeir: „Við skulum skila þessu og ekki krefjast nokkurs af þeim. Við skulum gera alveg eins og þú segir.“ Ég kallaði þá á prestana og lét mennina sverja að halda þetta loforð. 13 Ég hristi líka úr fellingunum á yfirhöfn minni* og sagði: „Megi hinn sanni Guð á sama hátt hrista úr húsi sínu og burt frá eigum sínum hvern mann sem stendur ekki við þetta loforð. Hann verði hristur burt og skilinn eftir allslaus.“ Þá sagði allur söfnuðurinn: „Amen!“* Og fólkið lofaði Jehóva og gerði eins og það hafði heitið.
14 Einnig má nefna að þau 12 ár sem ég var landstjóri+ í Júda, frá 20. stjórnarári+ Artaxerxesar konungs+ til þess 32.,+ þáði hvorki ég né bræður mínir matinn sem landstjórinn átti rétt á.+ 15 Fyrri landstjórar, þeir sem voru á undan mér, höfðu lagt þungar byrðar á fólkið og tekið af því 40 sikla* silfurs daglega fyrir brauði og víni. Aðstoðarmenn þeirra höfðu líka kúgað fólkið. En ég gerði það ekki+ því að ég óttaðist Guð.+
16 Auk þess tók ég sjálfur þátt í vinnunni við þennan múr og allir aðstoðarmenn mínir komu til að vinna við hann en við eignuðumst ekki einn einasta akur.+ 17 Hundrað og fimmtíu Gyðingar og embættismenn átu við borð mitt ásamt þeim sem komu til okkar frá þjóðunum. 18 Á hverjum degi lét ég elda fyrir mig* eitt naut og sex úrvalssauði auk fugla, og á tíu daga fresti var borið fram nóg af alls konar víni. Þrátt fyrir það gerði ég ekki kröfu um að fá matinn sem landstjórinn átti rétt á þar sem þung vinnuskylda hvíldi þegar á fólkinu. 19 Minnstu mín, Guð minn,* fyrir allt sem ég hef gert fyrir þetta fólk.+