Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.1. bls. 5-6
  • Á þunglyndi sér aðeins geðrænar orsakir?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Á þunglyndi sér aðeins geðrænar orsakir?
  • Vaknið! – 1988
  • Svipað efni
  • Hvers vegna verð ég svona þunglyndur?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga
  • Þunglyndi unglinga – hvað er til ráða?
    Vaknið! – 2017
  • Þunglyndi — hvernig er það meðhöndlað?
    Vaknið! – 2010
  • Sigrað í baráttunni við þunglyndi
    Vaknið! – 1988
Sjá meira
Vaknið! – 1988
g88 8.1. bls. 5-6

Á þunglyndi sér aðeins geðrænar orsakir?

MAÐURINN fékk þunglyndiskast jafnskjótt og hann byrjaði að gera upp húsið sitt sem var 200 ára gamalt. Hann svaf illa og átti óvenjulega erfitt með að einbeita sér lengi að nokkrum hlut. Fjölskylda hans fór að velta fyrir sér hvort reimt væri í húsinu! Maðurinn veitti athygli að verstu einkennin, sem voru samfara verk í kviðarholi, gerðu vart við sig eftir að hann hafði unnið við að losa gamla málningu af tréverki innanhúss. Læknir uppgötvaði síðan að þunglyndið stafaði af blýeitrun frá gömlu málningunni.

Eitruð efni geta stundum valdið þunglyndi. Sannleikurinn er sá að þunglyndi getur átt sér margar, líkamlegar orsakir.

Fyrir nokkrum árum fór fram ítarleg rannsókn á hundrað manns sem lagðir voru inn á spítala vegna geðrænna kvilla, meðal annars þunglyndis. Í 46 af þessum tilfellum mátti finna bein tengsl milli hinna tilfinningalegu einkenna og líkamlegra kvilla. Í tímaritinu American Journal of Psychiatry, þar sem frá þessu var greint, segir að ‚geðrænu kvillarnir hafi horfið eins og dögg fyrir sólu‘ hjá 28 af þessum sjúklingum þegar hinir líkamlegu kvillar voru meðhöndlaðir, og 18 fengu „verulegan bata.“

Samspil líkamlegra kvilla og þunglyndis er þó flókið. Það er reynsla margra lækna að þunglyndur sjúklingur getur líka verið haldinn líkamlegum veikindum sem eru óskyld þunglyndi hans og ekki völd að því, en taka þó hug hans allan. Eigi að síður er oft nauðsynlegt að greina og meðhöndla þunglyndið sem undir býr.

Þótt líkamlegir sjúkdómar geti valdið eða magnað upp tilfinningaleg vandamál og geðræna kvilla geta þeir líka orðið til sem svörun við sjúkdómi. Til dæmis gengur fólk nánast alltaf í gegnum þunglyndistímabil meðan það er að ná sér eftir meiriháttar skurðaðgerð, einkum hjartaskurðaðgerð. Þegar það nær sér eftir aðgerðina hverfur þunglyndið að jafnaði. Það álag, sem alvarlegur sjúkdómur hefur á líkamann, getur líka valdið þunglyndi. Þar að auki getur ofnæmissvörun við ákveðnum matvælum eða öðrum efnum í sumum tilvikum valdið alvarlegu þunglyndi.

Erfðir geta líka valdið því að sumum hættir til þunglyndis af vissu tagi. Á síðastliðnu ári var tilkynnt að uppgötvast hefði erfðagalli sem talinn er valda því að sumum hættir til geðhvarfasýki, en það er sjúkdómur sem einkennist af miklum geðsveiflum frá eðlilegu skapi, ýmist til sjúklegs æsings eða örmagna vonleysis og hryggðar.

Sumir sérfræðingar halda því fram að um 10 til 20 af hundraði kvenna fái eftir fyrsta barnsburð þunglyndiskast sem krefst læknismeðferðar. Vísindamenn eru þó ekki á einu máli um hvort það stafi af breyttri hormónastarfsemi samfara barnsburði eða því tilfinningalega álagi sem fylgir því að verða móðir. Nýjar rannsóknir gefa einnig til kynna að einkennamynstur fyrir tíðir og notkun getnaðarvarnarlyfja, „pillunnar,“ geti í sumum tilvikum valdið þunglyndi.

Þar við bætist að nýjustu rannsóknir hafa leitt í ljós að hugarástand sumra virðist sveiflast í takt við árstíðirnar. Þeim hættir til að vera mjög þunglyndir að hausti og vetri. Þeir fara sér hægt, sofa yfirleitt umfram það sem eðlilegt er, forðast vini og ættingja og auk þess breytist matarlyst þeirra og matarsmekkur. Þegar vor gengur í garð og allt sumarið eru þeir léttir í lund, starfsamir og fullir lífsorku. Í sumum tilvikum hefur náðst góður árangur af því að lýsa upp umhverfið í skammdeginu.

Þunglyndi á sér því ekki alltaf geðrænar orsakir. Því er nauðsynlegt að fara í rækilega læknisrannsókn ef þú ert niðurdreginn lengi í senn. En hvað er hægt að gera ef engar líkamlegar orsakir finnast fyrir þunglyndinu?

[Rammi á blaðsíðu 6]

Nokkrar líkamlegar orsakir þunglyndis

Rannsóknir hafa leitt í ljós tengsl milli eftirfarandi atriða og þunglyndis hjá sumu fólki:

Eitraðir málmar og efni: Blý, kvikasilfur, ál, kolsýringur og sum skordýraeitur.

Næringarskortur: Skortur á vissum vítamínum eða næringarefnum.

Smitsjúkdómar: Berklar, einkirningasótt, lungnabólga af völdum veiru, lifrarbólga og inflúensa.

Innkirtlasjúkdómar: Sjúkdómar í skjaldkirtli, Cushing-sjúkdómur, of lítill blóðsykur og sykursýki.

Sjúkdómar í miðtaugakerfi: Mænusigg og Parkinsonsveiki.

Fíkniefni: PCP („englaryk“), hass, amfetamín, kókaín, heróín og metadon.

Lyf: Barbítúröt, vöðvaslakandi lyf, kortíkósteróíð og hormónar. Sum lyf gegn háum blóðþrýstingi, liðagigt, hjarta- og æðasjúkdómum og geðsjúkdómum. (Að sjálfsögðu valda ekki öll slík lyf þunglyndi. Venjulega eru líkurnar aðeins fáein prósent, og séu lyfin tekin undir umsjón læknis er áhættan lítil.)

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila