Samviska, hví þjakar þú mig?
„Þú, blauða samviska, hvað þú þjakar mig!“ Þessi frægu orð, sem Ríkharður konungur þriðji mælir í samnefndu leikriti Shakespeares, lýsa því samviskubiti sem gripið getur manninn. Í veruleikanum hefur samviskan þjakað margan manninn og oft breytt lífi fólks.
Máttur samviskunnar kom vel í ljós hjá ungum Ítala ekki alls fyrir löngu. Starf hans sem öryggisvörður fól í sér peningaflutninga og var þar um stórar fjárhæðir að ræða. Allt gekk vel uns hann féll fyrir freistingunni einn góðan veðurdag og stal poka með 300.000.000 milljónum líra (um 13.000.000 ÍSK). Þar eð öryggisverðirnir unnu þrír saman og ógerlegt var að finna út hver þeirra hafði tekið pokann voru þeir allir reknir úr starfi.
Hann faldi stolnu peningana og hugðist nota þá eftir að storminn hefði lægt. En þá tók hann að líða óvæntar kvalir: Hann gat ekki hætt að hugsa um saklausa vinnufélaga sína sem höfðu verið reknir úr starfi. Samviskan gaf honum ekki stundarfrið. Hann gat ekki sofið. Hann gat ekki borðað. Hann varð óþolandi í umgengni.
Uppgefinn á hinni innri baráttu og bugaður af sektarkennd gaf hann sig loks fram við lögregluna og skilaði þýfinu. Hann sagði lögreglunni: „Samviskubitið var mér ofviða. Ég þoli það ekki lengur!“ Hann bætti við: „Það er betra að sitja í fangelsi vegna heiðarleika en vera frjáls og láta samviskuna dæma sig sem þjóf.“
Samviskan er gjöf Guðs til allra manna. Hún getur ásakað okkur eða afsakað. Þegar við hlustum á hana getur hún afstýrt mistökum og forðað okkur frá því að réttlæta alvarlega rangsleitni. Í stað þess að hunsa samvisku okkar þegar hún stingur okkur eða barma okkur gremjulega yfir henni, eins og Ríkharður konungur þriðji gerði í leikriti Shakespeares, ættum við að láta okkur þykja vænt um hana og vernda hana. — Rómverjabréfið 2:14, 15.
Ef þú óskar nánari upplýsinga um Biblíuna og hin hagnýtu ráð hennar skaltu hafa samband við votta Jehóva í næsta ríkissal þeirra eða skrifa þeim. Notaðu það heimilisfang á bls. 5 sem er næst þér.