Miskunnsamur Samverji nútímans
KONA í Kanada varð fyrir umferðarslysi. Miskunnsamur Samverji nútímans kom henni til hjálpar. (Lúkas 10:29-37) Góðvild hans snart hana svo að hún sendi dagblaðinu The Georgetown Independent eftirfarandi bréf:
‚Kæri ritstjóri:
Ég skrifa þetta bréf af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vil ég þakka Georgetown-búa sem aðstoðaði mig um síðustu helgi eftir að ég missti stjórn á bifreið minni og ók út í skurð.
John Saunders ók þar hjá og nam staðar. Hann veitti mér skyndihjálp og var mjög hughreystandi. Hann var hjá mér uns sjúkraflutningamennirnir og lögreglan tóku við. Það er blessun fyrir bæinn að miskunnsamur Samverji á borð við Saunders skuli búa í bænum.
Saunders heimsótti okkur hjónin á spítalann til að ganga úr skugga um að mér liði vel. Það kom mér mjög á óvart að uppgötva að Saunders skyldi starfa við aðalskrifstofu votta Jehóva í Georgetown. Ég hafði alltaf staðið í þeirri trú að þetta fólk tryði ekki á lækningar og nú var einn þeirra búinn að veita mér skyndihjálp. Þar með er ég komin að síðari ástæðunni fyrir bréfi mínu.
Mig langar til að biðja alla votta Jehóva afsökunar á því hve ókurteis ég hef verið við þá þegar þeir hafa bankað upp á hjá mér. Ég hef alltaf litið á ykkur sem ofstækismenn. Saunders sannaði mér að ég hafði kolrangt fyrir mér. Þið eruð öll bara venjulegt fólk og eruð að reyna að gera það sem ykkur finnst vera rétt.
Þakka þér aftur, Saunders, og haltu þér við trú þína. Guð blessi þig.
T. M., Tórontó‘
Vottar Jehóva eru þeirrar skoðunar að ‚maður eigi að elska náungann eins og sjálfan sig.‘ (Lúkas 10:27) Ef þú hefur áhuga á nánari upplýsingum um votta Jehóva eða vilt fá ókeypis biblíunám á heimili þínu skaltu hafa samband við Varðturninn, Sogavegi 71, 108 Reykjavík.