Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • yp2 bls. 6-10
  • Hvar fæ ég bestu leiðbeiningarnar?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvar fæ ég bestu leiðbeiningarnar?
  • Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
yp2 bls. 6-10

FORMÁLI

Hvar fæ ég bestu leiðbeiningarnar?

Fyrir stelpur

Þú getur ekki hætt að hugsa um nýja strákinn í bekknum. Hann er svo sætur. „Hann veit ekki einu sinni að ég er til,“ segirðu við sjálfa þig, „svo það hlýtur að vera allt í lagi þótt ég láti mig dreyma.“ Fyrir utan það ert þú ekki sú eina. Öllum stelpunum finnst hann æðislegur. Þú veist það af því að þær eru alltaf að tala um hann.

Skyndilega horfir hann í áttina til þín og brosir. Vá, þessu áttirðu ekki von á! Þú brosir til baka. Hann kemur til þín.

„Hæ,“ segir hann svolítið hikandi.

„Hæ,“ svarar þú.

„Ég heiti Breki.“

„Ert þú ekki nýr í skólanum?“ heyrirðu sjálfa þig segja.

„Jú, fjölskylda mín flutti hingað fyrir nokkrum vikum.“

Þú trúir því varla að Breki sé í alvöru að tala við þig!

„Heyrðu,“ segir hann, „það verður partí heima hjá mér í kvöld. Viltu koma?“

Síðan hallar hann sér að þér og hvíslar:

„Bara svo þú vitir, þá eru foreldrar mínir ekki heima og vínskápurinn er ólæstur. Hvernig líst þér á?“

Breki bíður eftir svari. Allar hinar stelpurnar í skólanum myndu strax segja já.

Hverju svarar þú?

Fyrir stráka

Tveir skólafélagar ganga í áttina til þín. Þú færð hnút í magann. Þetta verður í þriðja skiptið í þessari viku sem þeir reyna að fá þig til að reykja.

Fyrri strákurinn segir: „Ertu bara einn á ferð? Mig langar til að kynna þig fyrir góðum ,vini‘ mínum.“ Hann leggur áherslu á orðið „vinur“ og blikkar öðru auganu. Síðan dregur hann eitthvað upp úr vasanum og réttir í áttina til þín.

Þú sérð að hann heldur á einhverju sem líkist sígarettu. Þú veist nákvæmlega hvað þetta er og færð enn þá meiri hnút í magann.

„Nei, takk,“ segir þú. „Ég er búinn að segja ykkur að ég vil ekki . . .“

Seinni strákurinn grípur fram í fyrir þér: „Það er út af trúnni þinni er það ekki? Þú mátt ekki gera neitt skemmtilegt!“

„Eða ertu kannski bara skræfa?“ segir fyrri strákurinn til að ögra þér.

„Nei, ég er ekki skræfa!“ hefurðu kjark til að segja.

Þá leggur seinni strákurinn handlegginn á öxl þína. „Taktu hana bara,“ segir hann vinalega.

Fyrri strákurinn færir hvíta hlutinn nær andliti þínu og hvíslar: „Við segjum engum. Það þarf enginn að komast að þessu.“

Hvað gerir þú?

SVIPAÐIR atburðir eiga sér stað á hverjum degi um nánast allan heim. En staðreyndin er sú að sumir unglingar eru betur undirbúnir en aðrir til að takast á við svona aðstæður. Þegar verið er að reyna að fá strák til að reykja gæti hann hugsað: „Mig langar ekki til að gefa eftir en ég þoli ekki meiri þrýsting. Af hverju get ég ekki sýnt skólafélögunum að ég geti verið ,venjulegur‘?“ Og þegar stelpu er boðið á stefnumót gæti hún sagt við sjálfa sig: „Þetta er góður strákur. Af hverju get ég ekki sagt já — bara í þetta eina skipti?“

Mörgum unglingum hefur hins vegar verið kennt að verja trúarskoðanir sínar af öryggi. Þótt ótrúlegt megi virðast leiðir það til þess að þeir finna fyrir minni þrýstingi til að láta undan. Vilt þú vera þannig unglingur? Góðu fréttirnar eru þær að þú getur það. Hvernig?

Biblían getur hjálpað þér að takast á við erfiðleika unglingsáranna af öryggi. Í henni eru bestu ráð sem hægt er að finna því að hún er innblásið orð Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Hvaða vandamál getur Biblían hjálpað þér að leysa? Skoðaðu listann hér fyrir neðan og settu ✔ við það sem höfðar sérstaklega til þín.

□ Sambandið við hitt kynið

□ Hvernig get ég sætt mig við breytingar á líkamanum?

□ Hvernig get ég eignast vini?

□ Hvernig get ég tekist á við þrýsting í skólanum?

□ Hvernig á ég að fara með peninga?

□ Sambandið við foreldrana

□ Hvernig get ég haft stjórn á tilfinningum mínum?

□ Hvernig afþreyingu á ég að velja?

□ Hvernig get ég bætt samband mitt við Guð?

Eins og þú sérð á bls. 4 og 5 samræmist þessi listi bókarhlutunum níu. Hvaða atriði merktirðu við? Kannski viltu fyrst skoða bókarhlutana sem fjalla um það efni. Meginreglur Biblíunnar geta hjálpað þér á öllum þessum sviðum lífsins. Bókin, sem þú ert að lesa núna, getur sýnt þér hvernig.a

Í bókinni færðu líka tækifæri til að koma hugsunum þínum á blað. Aftarlega í hverjum kafla er til dæmis að finna ramma sem nefnist „Hvað ætla ég að gera?“ Þar geturðu skrifað niður hvernig þú hefur hugsað þér að nota efnið. Vinnublöð — eins og „Viðbrögð við hópþrýstingi“ á bls. 132 og 133 — hjálpa þér að hugsa um vandamálin sem þú stendur frammi fyrir og finna góðar lausnir. Síðasta blaðsíðan í hverjum bókarhluta nefnist „Hugleiðingar“ en þar geturðu skrifað hjá þér hvernig ákveðið efni í bókinni á við þig. Á níu stöðum í bókinni er líka að finna blaðsíðu með yfirskriftinni „Fyrirmynd“. Þar er fjallað um biblíupersónur sem gott er að taka sér til fyrirmyndar.

Í Biblíunni er að finna þessa hvatningu: „Aflaðu þér visku, aflaðu þér hygginda.“ (Orðskviðirnir 4:5) Orðin „viska“ og „hyggindi“ gefa í skyn meira en að þekkja bara muninn á réttu og röngu. Þú verður að sjá heildarmyndina. Tökum dæmi. Ef þú veist hvaða afleiðingar það hefur að gera það sem er rangt og hvaða gagn er að því að gera það sem er rétt áttu auðveldara með að sýna hugrekki og standast hópþrýsting.

Eitt geturðu verið viss um: Vandamál þín — sama hversu stór þau virðast — eru ekkert einsdæmi. Aðrir hafa staðið frammi fyrir svipuðum erfiðleikum og sigrast á þeim. Þú getur það líka! Nýttu þér bókina Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi. Hún á eftir að sannfæra þig um að í Biblíunni er að finna bestu ráð í heimi.

[Neðanmáls]

a Mikið af efninu í þessari bók er byggt á völdum greinum úr greinaröðinni „Ungt fólk spyr“ sem birtist reglulega í tímaritinu Vaknið!, gefið út af Vottum Jehóva.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila