Spurningar frá lesendum
◼ Líta vottar Jehóva á drykkjusýki sem sjúkdóm?
Margir líta á áfengisánauð sem sjúkdóm í víðtækasta skilningi þess orðs. Í þeirra hópi eru vísindamenn, læknar og aðrir sem vinna að málefnum drykkjusjúkra, því að margir þeirra nota hugtakið „sjúkdómur“ til að lýsa eða skilgreina drykkjusýki. Til dæmis sagði í tímaritinu Science Digest í maí 1984:
„Drykkjusýki er sjúkdómur sem enn er verið að leita skýringar á. Áður var litið svo á að drykkjusýki ætti sér eingöngu huglægar orsakir, en nú er haldið að hún eigi sér einnig erfðafræðilegar og lífefnafræðilegar orsakir. . . . Nýlegar uppgötvanir styðja eldri gögn frá Svíþjóð þess efnis að misnotkun áfengis gangi oft í ættir.“ — Bls. 16.
Þó er ástæða til vissrar varúðar í að líta á drykkjusýki sem sjúkdóm. Sumir drykkjusjúklingar, og raunar fleiri, hafa haft tilhneigingu til að afsaka áfengisánauðina með því að þeir ráði ekki við hana því að hún sé sjúkdómur. Aðrir virðast líta svo á að hafi þeir líffræðilega hneigð til drykkjusýki, eða ef lífefnafræðileg viðbrögð líkamans við áfengi séu ekki eðlileg, þá sé ekki hægt að líta svo á að drykkja þeirra sé siðferðilega ámælisverð.
Kristnir menn láta sér þó fyrst og fremst umhugað um viðhorf Guðs til málanna. Viðhorf hans eru réttlát, öfgalaus, varanleg, ólíkt afstöðu lækna og sálfræðinga sem getur tekið ýmsum tískusveiflum sem breytast eða hverfa eftir því sem tíminn líður. Hið fullkomna orð Jehóva fordæmir drykkjuskap skorinort og nefnir ofdrykkju sem eitt af því er getur komið í veg fyrir að menn fái inngöngu í Guðsríki. (Galatabréfið 3:19-21) Rómverjabréfið 13:12, 13 ráðleggur: „Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund.“ Jafnvel þótt verið geti í einstaka tilviki líffræðileg hneigð til drykkjusýki, sem kemur sumum til að líta á hana sem sjúkdóm, gera kristnir menn sér ljósar hinar siðferðilegu hliðar málsins.
Pétur postuli skrifaði kristnum mönnum: „Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjun og svívirðilegri skurðgoðadýrkun. Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.“ (1. Pétursbréf 4:3, 4) Pétur var ófullkominn sjálfur og skildi vel mannlegt eðli. Þó sagði hann ekki að allir kristnir menn hefðu snúið baki við óhóflegri áfengisneyslu, nema þeir sem hefðu einhverja líffræðilega hneigð til ofneyslu áfengis. Páll postuli sagði meira að segja að sumir kristnir menn hefðu áður verið saurlífismenn, þjófar, drykkjumenn og ræningjar. En hvað svo sem hafði leitt þá út í slík siðferðileg vandamál bæði gátu þeir breytt sér og gerðu það. Páll sagði: „Þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.“ — 1. Korintubréf 6:9-11.
Hvort heldur talað er um drykkjusýki sem sjúkdóm eða ekki ber okkur því að halda okkur við hinn háleita og góða staðal sem orð Guðs setur. Hver sá sem orðinn er háður áfengi — hvort heldur það er vegna skorts á sjálfstjórn, félagslegra aðstæðna eða áhrifa frá fjölskyldu, eða jafnvel vegna líffræðilegra duttlunga — ætti að leggja sig fram um að yfirstíga það, og ef til vill notfæra sér hjálp annarra sem kunna skil á þessum vanda. (Sjá Vaknið! (enska útgáfu) þann 8. júlí 1982, bls. 4-12.) Þannig getur hann ‚lifað tímann sem eftir er, ekki í mannlegum fýsnum heldur að vilja Guðs.‘ — 1. Pétursbréf 4:2.