Er eitthvert gagn í því að biðja?
FÖSTUDAGINN 31. maí 1985 gengu nokkrir skýstrokkar yfir suðurhluta Ontario í Kanada. Prestur, sem býr í litlu þorpi er heitir Grand Valley, horfði hjálparvana á þegar ofsafenginn vindurinn svipti þakinu af heimili hans. Samkvæmt frásögn blaða sá hann „kraftaverk og harmleiki gerast hlið við hlið meðan taumlaus náttúruöflin létu gamminn geisa.“
Vinir og ættingjar þeirra tveggja einstaklinga, sem fórust af völdum skýstrokkanna, litu áreiðanlega á það sem hræðilegan harmleik. Þeim liðlega þúsund manns, sem misstu heimili sín í óveðrinu, hefur vafalaust verið eins innanbrjósts. Þeir sem komust naumlega lífs af eða ekki munaði nema hársbreidd að yrðu fyrir alvarlegu tjóni, litu hins vegar margir hverjir á það sem „kraftaverk.“ Ron og vinnufélagi hans voru í þeirra hópi. Þeim tókst að forða sér yfir í sterkasta hluta skrifstofubyggingarinnar, þar sem þeir unnu, með aðeins fjögurra sekúndna fyrirvara. Eftir að Ron hafði lýst því hvernig þeir sluppu með undraverðum hætti úr greipum dauðans sagði hann: „Ég trúði á Guð áður og ég trúi sannarlega á Guð núna.“
Sagt hefur verið að þegar ógæfa dynur skyndilega og óvænt yfir séu fáir ef nokkrir guðsafneitarar til. Og ef tími vinnst til við slíkar aðstæður er beðið margra, innilegra bæna um vernd og björgun.
Sunnudaginn 21. júlí 1985 söfnuðust yfir 100 karlar, konur og börn saman til tilbeiðslu í Ríkissal sínum í Sidney í Ástralíu. Eftir að sunginn hafði verið lofsöngur til Guðs var borin fram bæn í þágu safnaðarins. Þegar fyrirlesarinn var búinn að tala í stundarfjórðung rauf sprenging skyndilega kyrrðina. Ræðumaðurinn særðist alvarlega, maður, sem sat á fremsta bekk, lést og leggja þurfti yfir 40 manns inn á spítala.
[Rammi/mynd á blaðsíðu 3]
Skipta bænir einhverju máli?
Báðir þeir atburðir sem hér hefur verið getið — öðrum lýst svo að ‚taumlaus náttúruöflin hafi látið gamminn geisa‘ og hinum sem glæpaverki — vekja ýmsar spurningar um gildi bænarinnar. Koma bænir að einhverju haldi? Er það þess virði að biðja?