Vissir þú?
Nú voru Jósef og María aðeins trúlofuð. Af hverju hugðist Jósef þá gefa henni skilnaðarbréf?
Að sögn Matteusarguðspjalls var María aðeins „föstnuð Jósef“ en ekki gift honum þegar hann komst að raun um að hún var barnshafandi. Hann vissi ekki að hún væri þunguð „af heilögum anda“. Hann hlýtur því að hafa hugsað sem svo að hún hefði verið honum ótrú og ætlaði þess vegna að skilja við hana. — Matt. 1:18-20.
Meðal Gyðinga var litið svo á að trúlofað par væri þegar gengið í hjónaband. Þau fóru hins vegar ekki að búa saman fyrr en haldið hafði verið brúðkaup með formlegum hætti. Svo bindandi var trúlofun að ef hætt var við brúðkaupið — annaðhvort vegna þess að brúðguminn skipti um skoðun eða af annarri veigamikilli ástæðu — var ungu konunni ekki frjálst að giftast öðrum fyrr en hún hafði fengið skilnaðarbréf. Ef kona var heitbundin manni og hann dó áður en brúðkaup var haldið var litið á hana sem ekkju. Ef hún drýgði hór meðan hún var trúlofuð var hún álitin hórkona og dæmd til dauða. — 5. Mós. 22:23, 24.
Jósef hefur trúlega gert sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefði fyrir Maríu að hljóta opinbera skömm fyrir að vera barnshafandi. Hann hefur eflaust talið sér skylt að vekja athygli viðeigandi yfirvalda á málinu en vildi vernda hana og afstýra hneyksli. Þess vegna ákvað hann að skilja við hana í kyrrþey. Ef einstæð móðir var með skilnaðarbréf í höndum gaf það að minnsta kosti til kynna að hún hefði verið gift.