Ríkisþjónusta okkar fær nýtt útlit
Ríkisþjónusta okkar hefur fengið nýtt útlit eins og augljóst er af þessu tölublaði hennar. Hún er núna umbrotin og sett í tölvu með útgáfuhugbúnaði Félagsins, þeim sama og notaður hefur verið um árabil fyrir tímaritin okkar, bæklinga og bækur.
Fyrir rúmu ári var vinnslu Ríkisþjónustu okkar á ensku (og öðrum útbreiddum málum) breytt þannig að búa mætti til bæði fyrirsagnirnar og textann á tölvu og þurfti þá ekki lengur að skera fyrirsagnirnar til í höndunum og líma á prentfilmurnar. Það auðveldar mjög prentsmiðjuvinnuna og gerir Félaginu kleift að prenta lítil upplög án þess að kostnaðurinn á hvert eintak verði óheyrilega hár. Þess njótum við núna með því að fá Ríkisþjónustu okkar prentaða á íslensku á sama hátt og fyrir miklu fölmennari lesendahópa.
Þótt innihaldið sé það sama hefur lesandinn ýmislegt gagn af þessari breytingu. Prentaði textinn er læsilegri en sá sem við höfum notað fram að þessu. Prentunin gefur möguleika á margvíslegum leturgerðum og stafastærð. Fyrirsagnir í lit og skyggðir litrammar gefa aðlaðandi útlit. Samræmi er á milli leturgerða og sú leturgerð sem valin er fyrir textann er mjög læsileg, jafnvel sem smáletur. Blaðsíðunum fækkar úr átta í fjórar (ef ekki fylgir viðauki) og er hún núna þægilegri í meðhöndlun og geymslu. Aðalgreinarnar munu yfirleitt vera á útsíðunum og í flestum tilfellum án framhalds á innsíðum. Á innsíðunum verður þjónustusamkomudagskráin, skrá yfir námsefni safnaðarbóknámsins, þjónustuskýrslan, tilkynningar, guðveldislegar fréttir, spurningakassinn og annað sem til fellur.
Ríkisþjónusta okkar er ekki rit sem við notum í einn mánuð og fleygjum síðan. Verulegur hluti af efni hennar úreldist ekki. Við skyldum því varðveita hana vel í hinu guðveldislega bókasafni okkar. Nýju brúnu plastmöppurnar frá Félaginu eru mjög heppilegar til þeirra hluta. Allir fjölskyldumeðlimirnir ættu að geyma sín eintök til að geta gripið til þeirra þegar tilefni gefst.
Við vonum að ykkur muni finnast þetta verðmæta tæki í sínum nýja búningi enn meira aðlaðandi og áhrifaríkt verkfæri við það mikilvæga starf að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki og gera menn að lærisveinum.