Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 2.00 bls. 6
  • Húsmæður í brautryðjandastarfi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Húsmæður í brautryðjandastarfi
  • Ríkisþjónusta okkar – 2000
Ríkisþjónusta okkar – 2000
km 2.00 bls. 6

Húsmæður í brautryðjandastarfi

1 „Finnið og sjáið, að [Jehóva] er góður.“ Þannig komst sálmaskáldið Davíð eitt sinn að orði eftir að hann þurfti sérstaklega á styrk og stuðningi Jehóva að halda. (Sálm. 34:9) Reglulegir brautryðjendur geta tekið undir orð Davíðs því að þeir finna fyrir stuðningi Jehóva í starfi sínu dag frá degi. Trúsystur okkar, sem eru brautryðjendur samhliða húsmæðrastörfum, þurfa öðrum fremur að reiða sig á hann. Hvernig fara þær að því að þjóna í fullu starfi og hugsa jafnframt um heimili og börn? Gætirðu hugsað þér að gerast brautryðjandi? Dönsk húsmóðir í reglulegu brautryðjandastarfi sendi nýverið eftirfarandi bréf til Félagsins þar sem hún skýrði frá starfsstundaskrá sinni og eigin reynslu:

2 „Ég er 42 ára og hef verið gift í 23 ár. Maðurinn minn er öldungur í söfnuðinum og við eigum þrjú börn, hið yngsta fimm ára. Við rekum saman lítið tveggja manna hreingerningarfyrirtæki og ég skúra á tveim stöðum tvisvar í viku. Ég hef verið reglulegur brautryðjandi í tíu ár og var áður aðstoðarbrautryðjandi í eitt ár. Brautryðjandastarfið er yndisleg þjónustugrein sem ég mæli eindregið með við alla, unga sem aldna, gifta sem ógifta. Árin mín í brautryðjandastarfi hafa verið bestu ár ævinnar, á því er enginn vafi.

3 Stundaskrá mín er á þessa leið: Virka daga byrja ég í götustarfinu kl. 8. Það er afslappandi þegar ég hef átt annríkt heima fyrir við hin ýmsu heimilisstörf. Ég fer síðan í boðunarstarfið frá kl. 9-12. Síðdegis á mánudögum kenni ég dóttur minni. Á laugardögum störfum við út frá bóknámshópnum, og annan hvern laugardagsmorgun reyni ég að komast í götustarfið. Þessi stundaskrá hentar mér vel og mér finnst ég sjaldan eiga of annríkt.

4 Mér finnst frábært þegar einn í fjölskyldunni getur verið brautryðjandi. Allir þurfa að leggja sitt af mörkum til að það gangi upp og öll fjölskyldan smitast af brautryðjandaandanum. Tvítug dóttir okkar hefur þess vegna alltaf haft brautryðjandastarfið sem markmið og ætlar að byrja sem reglulegur brautryðjandi 1. september 1999 að skólanáminu lokni. Sonur okkar, sem er í múraranámi, hefur oftsinnis verið aðstoðarbrautryðjandi.

5 Ég tók upp brautryðjandastarf þegar krakkarnir byrjuðu að sækja skóla. Þegar yngsta barnið boðaði komu sína í heiminn vorum við dálítið spennt að sjá hvernig tækist að hagræða málum, en við vorum staðráðin í að ég héldi brautryðjandastarfinu áfram; ég var þó í fæðingarorlofi í eitt ár. Þótt ég sé með lítið barn finnst mér brautryðjandastarfið ganga vonum framar. Það krefst að sjálfsögðu töluverðrar skipulagningar og aðstoðar frá fjölskyldu og vinum, en allir hafa verið sérlega hjálpsamir.

6 Áður en ég hóf brautryðjandastarfið hélt ég iðulega að ég myndi ekki hafa mikinn tíma aflögu til náms og samkomuundirbúnings ef ég gerðist brautryðjandi. En reyndin hefur verið önnur. Ég hef aldrei haft svona mikinn tíma til einkanáms, mér finnst ég vilja vita allt. Kostir brautryðjandastarfsins eru augljósir en maður upplifir þá fyrst í alvöru þegar maður gerist brautryðjandi sjálfur. Allir boðberar ættu að spreyta sig á brautryðjandastarfi í eitt ár. Það er gulls ígildi. Fæstir myndu láta eitt ár nægja, en þeir komast ekki að raun um það fyrr en þeir byrja.

7 Ég bið og vona að ég geti verið brautryðjandi allt til endalokanna, og neyðist ég til að hætta mun ég alltaf hugsa með gleði til brautryðjandaáranna. Brautryðjandaandann getur maður þó alltaf haft. Honum getur hvorki fjárhagur né heilsa rænt.“

8 Þannig lýsir systirin daglegri stundaskrá sinni og það er greinilegt að hún hefur fengið að reyna hvað Jehóva er góður. Það er krefjandi að vera bæði brautryðjandi og húsmóðir, en hvers vegna ekki að prófa? Kannski þú fáir að reyna það sama og systirin hér að framan, að eitt ár í brautryðjandastarfi er „gulls ígildi.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila