Nærðu þig andlega
1 Næsta landsmót okkar, „Kostgæfir boðberar Guðsríkis,“ gefur okkur gott tækifæri til að seðja andlegt hungur okkar. Við getum verið viss um að dagskráin næri okkur andlega „af orði trúarinnar“ eins og hollur málsverður styrkir líkamann. (1. Tím. 4:6) Hún mun gera okkur kleift að styrkja tengslin við Jehóva og við megum búast við að fá ráð og hvatningu sem hjálpar okkur að takast á við erfiðleikana í lífi okkar. Jehóva lofar: „Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér.“ (Sálm. 32:8) Við erum sannarlega lánsöm að njóta kærleiksríkrar leiðsagnar hans! Íhugum hvað við getum gert til að fá sem mest út úr mótsdagskránni.
2 Við þurfum að undirbúa hjartað: Hvert okkar hefur þá ábyrgð að vernda sitt táknræna hjarta. (Orðskv. 4:23) Það útheimtir að við beitum okkur sjálfsaga og séum hreinskilin við sjálf okkur. Mótið er tími til að hugsa um samband okkar við Jehóva, tími til að ‚skyggnast inn í hið fullkomna lögmál frelsisins.‘ Til að búa hjarta okkar undir að ‚taka á móti hinu gróðursetta orði‘ ættum við að biðja Jehóva einlæglega um að leiða okkur „hinn eilífa veg“ með því að rannsaka okkur til að sjá hvort í okkur búi slæmar tilhneigingar er þarfnist leiðréttingar. — Jak. 1:21, 25; Sálm. 139:23, 24.
3 Hlustaðu og hugleiddu: Jesús hrósaði Maríu fyrir að hlusta með athygli á orð sín og sagði: „María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“ (Lúk. 10:39, 42) Ef við höfum þetta sama viðhorf leyfum við ekki smávægilegum málum að trufla okkur. Við gætum þess að sitja kyrr og hlusta á alla dagskrána. Við forðumst að tala og ganga um svæðið að óþörfu og gætum þess að trufla ekki aðra með farsímum, símboðum, myndavélum og myndbandsupptökuvélum.
4 Þegar við hlustum á ræðurnar er gott að skrifa niður stutt minnisatriði sem auðvelda okkur að fylgjast með framvindu efnisins. Við skulum tengja það sem við heyrum við það sem við vitum. Það hjálpar okkur að skilja efnið og muna það. Förum síðan yfir minnispunktana með það fyrir augum að nota efnið. Við getum öll spurt: ‚Hvernig snertir þetta samband mitt við Jehóva? Hvað þarf ég að lagfæra í lífi mínu? Hvernig get ég fylgt þessu í samskiptum mínum við aðra? Hvernig get ég notað þetta í boðunarstarfinu?‘ Ræðum saman um það sem við kunnum sérstaklega að meta. Ef við gerum þetta mun það hjálpa okkur að varðveita orð Jehóva ‚innst í hjarta okkar.‘ — Orðskv. 4:20, 21.
5 Notum það sem við lærum: Að loknu landsmóti sagði einn mótsgestanna: „Dagskráin var mjög persónuleg. Hún hvatti mann til að skoða ástand hjarta síns og fjölskyldunnar og til að veita kærleiksríka biblíulega aðstoð eftir því sem þarf. Hún hefur opnað augu mín fyrir skyldu minni að veita söfnuðinum meiri aðstoð.“ Líklega könnumst við flest við þessa tilfinningu. En það er ekki nóg fyrir okkur að halda bara heim á leið ánægð og endurnærð. Jesús sagði: „Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.“ (Jóh. 13:17) Við þurfum að fara eftir því sem á við okkur sjálf. (Fil. 4:9) Það er lykillinn að því að seðja andlegt hungur okkar.
[Rammi á blaðsíðu 4]
Hugsaðu um það sem þú heyrir:
■ Hvernig snertir þetta samband mitt við Jehóva?
■ Hvaða áhrif hefur það á framkomu mína við aðra?
■ Hvernig get ég notað það í lífinu og í boðunarstarfinu?