Líkjum eftir gæsku Jehóva
1 Langar okkur ekki til að þakka Jehóva, uppsprettu allrar gæsku, þegar við horfum á fallegt sólarlag eða borðum ljúffenga máltíð? Gæska Jehóva vekur með okkur löngun til að líkja eftir honum. (Sálm. 119:66, 68; Ef. 5:1) En hvernig getum við sýnt gæsku?
2 Sýnum náunganum gæsku: Ein leið til að líkja eftir gæsku Jehóva er að sýna þeim einlæga umhyggju sem eru ekki sömu trúar og við. (Gal. 6:10) Ef við sýnum gæsku í verki getur það haft jákvæð áhrif á viðhorf þeirra til votta Jehóva og boðskaparins sem við flytjum.
3 Ungur brautryðjandabróðir beið viðtals á læknastofu. Við hliðina á honum sat öldruð kona sem virtist veikari en flestir aðrir á staðnum. Þegar röðin var komin að honum að hitta lækninn leyfði hann konunni að fara í sinn stað. Seinna hitti hann konuna á markaði, og hún var mjög glöð að sjá hann aftur. Áður hafði hún ekki viljað hlusta á fagnaðarerindið en núna sagðist hún vita að vottar Jehóva elskuðu náungann í raun og veru. Biblíunámskeið var hafið hjá henni.
4 Sýnum trúsystkinum okkar gæsku: Við líkjum líka eftir gæsku Jehóva með því að leggja okkur fram um að hjálpa trúsystkinum okkar. Þegar hörmungar ganga yfir erum við meðal þeirra fyrstu sem koma þeim til hjálpar. Við sýnum sama hugarfar þegar við bjóðum öðrum far á samkomur, heimsækjum sjúka og sýnum þeim væntumþykju sem við þekkjum ekki vel í söfnuðinum. — 2. Kor. 6:11-13; Hebr. 13:16.
5 Jehóva sýnir líka gæsku með því að vera „fús til að fyrirgefa“. (Sálm. 86:5) Við líkjum eftir honum þegar við fyrirgefum öðrum og sýnum þannig að við elskum það sem gott er. (Ef. 4:32) Það stuðlar að ‚fögrum og yndislegum‘ samskiptum við trúsystkini okkar. — Sálm. 133:1-3.
6 Hin mikla gæska Jehóva fær okkur til að lofa hann og geisla af gleði. Hún fær okkur líka til að leggja okkur fram um að líkja eftir gæsku hans í einu og öllu. — Sálm. 145:7; Jer. 31:12.