Við getum gert það sem Jehóva krefst af okkur
1. Hvernig gæti okkur stundum verið innanbrjósts og hvers vegna?
1 Besta lífsstefnan núna er að fara eftir lögum og meginreglum Jehóva og það kemur okkur að gagni við að leggja góðan grunn að eilífu lífi. (Sálm. 19:8-12; 1. Tím. 6:19) En heimur Satans beitir okkur miklum þrýstingi. Og ófullkomleikinn bætir ekki úr skák. Þegar við reynum að rækja biblíulegar skyldur gæti okkur stundum fallist hugur. (Sálm. 40:13; 55:2-9) Við gætum jafnvel farið að velta fyrir okkur hvort við getum gert allt sem Jehóva krefst af okkur. Hvað getur hjálpað okkur að halda jafnvægi þegar svo stendur á?
2. Hvernig er Jehóva sanngjarn í kröfum sínum til okkar?
2 Boðorð Jehóva eru ekki þung: Jehóva gerir aldrei ósanngjarnar kröfur til okkar. Boðorð hans eru ekki þung heldur eru þau okkur til góðs. (5. Mós. 10:12, 13; 1. Jóh. 5:3) Hann tekur tillit til veikleika okkar, „minnist þess að vér erum mold“. (Sálm. 103:13, 14) Guð kann að meta það þegar við gerum okkar besta í þjónustunni þó að kringumstæðurnar setji okkur skorður og á þann hátt sýnir hann okkur miskunn. (3. Mós. 5:7, 11; Mark. 14:8) Hann býður okkur að varpa áhyggjunum á sig og fullvissar okkur um að hann muni gera okkur kleift að standa trúföst. — Sálm. 55:23; 1. Kor. 10:13
3. Hvernig gefur Jehóva okkur styrk til að sýna þolgæði?
3 Þolgæðis er þörf: Frásögur í Biblíunni um ráðvanda menn eins og Elía, Jeremía og Pál sýna okkur fram á að þörf sé á þolgæði. (Hebr. 10:36) Jehóva studdi þá þegar þeir urðu fyrir andstöðu og mótlæti. (1. Kon. 19:14-18; Jer. 20:7-11; 2. Kor. 1:8-11) Og við erum snortin af hollustu trúsystkina okkar nú á tímum. (1. Pét. 5:9) Þegar við hugleiðum slík dæmi getur það hjálpað okkur að láta ekki hugfallast.
4. Hvers vegna er mikilvægt að hafa loforð Guðs skýrt í huga?
4 Vonin um loforð Guðs er „akkeri sálarinnar“. (Hebr. 6:19) Hún fékk Abraham og Söru til að fara eftir boði Jehóva um að yfirgefa heimaland sitt og ‚setjast að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingar‘. Hún gaf Móse styrk til að taka óttalausa afstöðu með sannri tilbeiðslu. Og hún veitti Jesú styrk til að halda út á kvalastaurnum. (Hebr. 11:8-10, 13, 24-26; 12:2, 3) Þegar við höfum loforðið um réttlátan nýjan heim Guðs lifandi fyrir hugskotssjónum mun það á sama hátt hjálpa okkur að halda áfram að standa stöðug. — 2. Pét. 3:11-13.
5. Hvers vegna getur það verið uppörvandi að minnast hollustunnar sem við höfum þegar sýnt?
5 Þegar við minnumst þess hvernig við höfum sýnt hollustu, fórnfýsi og hugrekki getur það einnig gefið okkur kraft í þjónustunni. (Hebr. 10:32-34) Það minnir okkur á gleðina sem við njótum þegar við gerum það sem Jehóva krefst af okkur — að sýna honum hollustu af allri sálu. — Matt. 22:37.