‚Látið verða rúmgott hjá ykkur‘
1. Hvaða ábyrgð hvílir á okkur öllum?
1 Í kristna bræðrafélaginu berum við öll ábyrgð á því að hlýjar tilfinningar ríki innan safnaðarins. (1. Pét. 1:22; 2:17) Slík hlýja kemur fram þegar við látum verða „rúmgott“ í hjörtum okkar. (2. Kor. 6:12, 13) Hvers vegna er mikilvægt að kynnast trúsystkinum náið?
2. Hvers vegna er mikilvægt að tengjast trúsystkinum vináttuböndum?
2 Vináttuböndin styrkjast: Þegar við kynnumst trúsystkinum okkar nánar förum við að meta meira trú þeirra, þolgæði og aðra góða eiginleika. Gallar þeirra fara að skipta okkur minna máli og við tengjumst þeim sterkari vináttuböndum. Við erum betur í stakk búin að uppbyggja og hugga hvert annað ef við þekkjumst vel. (1. Þess. 5:11) Við getum styrkt hvert annað til þess að standast skaðleg áhrif frá heimi Satans. Vegna þess mikla álags, sem fylgir hinum síðustu dögum, getum við verið þakklát fyrir að eiga góða vini meðal fólks Jehóva. — Orðskv. 18:24.
3. Hvernig getum við verið öðrum til halds og trausts?
3 Í erfiðum prófraunum er hægt að leita halds og trausts hjá nánum vinum. (Orðskv. 17:17) Trúsystir minnist þess þegar hún var að kljást við þá tilfinningu að vera einskis virði: „Vinirnir uppörvuðu mig til að hjálpa mér að komast yfir neikvæðar hugsanir sem ásóttu mig.“ Slíkir vinir eru blessun frá Jehóva. — Orðskv. 27:9.
4. Hvernig getum við kynnst öðrum í söfnuðinum nánar?
4 Sýnum öðrum áhuga: Hvernig getum við sýnt trúsystkinum okkar sífellt meiri umhyggju? Við skulum ekki aðeins láta okkur nægja að heilsa öðrum á safnaðarsamkomum heldur skulum við einnig leggja okkur fram um að eiga við þá innihaldsríkar samræður. Sýnum að við höfum áhuga á högum þeirra án þess að hnýsast í einkalíf þeirra. (Fil. 2:4; 1. Pét. 4:15) Einnig kæmi til greina að bjóða þeim heim til okkar í mat eða fara með þeim út í starfið. (Lúk. 14:12-14; Lúk. 10:1) Þegar við verðum fyrri til að stofna til kunningsskapar við trúsystkini okkar stuðlum við að samheldni í söfnuðinum. — Kól. 3:14.
5. Hvað gætum við gert til að eignast fleiri vini?
5 Kjósum við aðallega félaga úr hópi jafnaldra eða þeirra sem hafa svipuð áhugamál og við sjálf? Við ættum ekki að láta þetta koma í veg fyrir að við eignumst aðra vini í söfnuðinum. Davíð og Jónatan og einnig Rut og Naomí tengdust sterkum vináttuböndum þrátt fyrir aldursmun og ólíkan uppruna. (Rut. 4:15; 1. Sam. 18:1) Getum við eignast fleiri vini? Það gæti orðið okkur til óvæntrar ánægju.
6. Hvað hefur það í för með sér fyrir okkur að sýna trúsystkinum meiri ástúð og umhyggju?
6 Við styrkjum hvert annað og vinnum að friði í söfnuðinum með því að gera rúmgott í hjörtum okkar. Þar að auki blessar Jehóva okkur fyrir að sýna trúsystkinum kærleika. (Sálm. 41:2, 3; Hebr. 6:10) Hvernig væri að setja sér það markmið að kynnast sem flestum nánar?