Prédikunarstarfið hjálpar okkur að vera staðföst
1 Í orði Guðs erum við hvött til að þreyta þolgóð „skeið það, sem vér eigum framundan“. (Hebr. 12:1) Hlauparar þurfa að sýna þolgæði til að komast í mark og eins þurfum við að sýna þolgæði til að hljóta eilíft líf. (Hebr. 10:36) Hvernig getur boðunarstarfið hjálpað okkur að vera staðföst allt til enda? — Matt. 24:13.
2 Styrkt í trúnni: Þegar við segjum öðrum frá stórkostlegu loforði Biblíunnar um réttlátan nýjan heim hjálpar það okkur að hafa vonina skýrt í huga. (1. Þess. 5:8) Með því að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu fáum við tækifæri til að segja öðrum frá sannindunum sem við höfum lært í Biblíunni. Við fáum líka tækifæri til að svara fyrir trú okkar og það styrkir okkur andlega.
3 Við verðum sjálf að hafa skýran skilning á sannindum Biblíunnar til að geta kennt öðrum á árangursríkan hátt. Við þurfum því að rannsaka biblíutengt efni og hugleiða það vel. Ef við leggjum okkur einlæglega fram öðlumst við dýpri þekkingu, sterkari trú og endurnærumst andlega. (Orðskv. 2:3-5) Við styrkjum sjálf okkur þegar við leitumst við að hjálpa öðrum. — 1. Tím. 4:15, 16.
4 Heilshugar þátttaka í boðunarstarfinu er mikilvægur hluti af „alvæpni Guðs“ sem við þurfum að hafa til að standa stöðug gegn Satan og illum englum. (Ef. 6:10-13, 15) Ef við erum upptekin í þjónustunni einbeitum við okkur að því sem er uppbyggjandi og látum ekki heims Satans spilla okkur. (Kól. 3:2) Þegar við kennum öðrum vegi Jehóva fáum við stöðuga áminningu um nauðsyn þess að vera heilög. — 1. Pét. 2:12.
5 Guð veitir okkur styrk: Boðunarstarfið kennir okkur einnig að treysta á Jehóva. (2. Kor. 4:1, 7) Það er mikil blessun. Ef við höfum slíkt traust hjálpar það okkur ekki aðeins að fullna þjónustu okkar heldur líka að takast á við hvaða aðstæður sem upp koma í lífinu. (Fil. 4:11-13) Lykillinn að því að vera staðfastur er að læra að reiða sig algerlega á Jehóva. (Sálm. 55:23) Prédikunarstarfið hjálpar okkur að mörgu leyti að standa stöðug.