Nýr Lykill að efnisskrá „Varðturnsins“
Margir hafa kunnað vel að meta Lykilinn að efnisskrá Varðturnsins sem hefur verið til um árabil. Hann hefur reynst gott hjálpargagn til að finna efni sem komið hefur út í íslenskri útgáfu Varðturnsins. Á svæðismótinu í vor var gefin út uppfærð útgáfa sem nær yfir árabilið 1959 til 2004.
Margir hafa lært að nota Lykilinn en sumum finnst það svolítið snúið. Hvernig á að nota hann? Eins og nafnið bendir til er hér um að ræða lykil að efnisskrá Varðturnsins. Það þýðir að hann kemur að litlu gagni nema við höfum enska efnisskrá (Watchtower Publications Index) við höndina. Lykillinn sýnir hvar greinar í Varðturninum á ensku frá 1959 til 2004 er að finna í íslensku útgáfunni.
Setjum sem svo að biblíunemandi sé að lesa biblíulestur vikunnar og langi til að glöggva sig betur á 2. Konungabók 6:16, 17. Hann hefur leitað í ensku efnisskránni og fundið tilvitnun í grein í Varðturninum á ensku og vill kanna hvort hún hafi komið út á íslensku og þá hvenær. Í ensku efnisskránni 1986-2000 er vísað í w98 6/15 12-13, 18. Hann flettir upp í Lyklinum á „The Watchtower, 1998“ og finnur 15. júní, bls. 12-16. Þar er vísað í 8.98 7-11. Þetta merkir að efnið birtist í íslenska Varðturninum 1. ágúst 1998, bls. 7-11. Í 4. til 6. tölugrein er rætt um versin sem hann var að leita að.
Tökum annað dæmi. Segjum að nemandi í Boðunarskólanum sé að undirbúa verkefni nr. 3 fyrir vikuna sem hefst 15. ágúst. Viðfangsefnið er: „Hvers vegna var fólk fyrir flóðið svona langlíft?“ Nemandinn flettir upp í efnisskránni sem er á geisladisknum Watchtower Library 2003. Hann slær inn leitarorðin „Life span“ og finnur „pre-Flood“ þar sem meðal annars er vísað í w03 5/15 5. Hann flettir upp á „The Watchtower, 2003“ í Lyklinum, finnur 15. maí og sér að við bls. 4-7 er vísað í 7.03 4-7. Á bls. 5 er að finna ágæta rammagrein með yfirskriftinni „Voru menn svona langlífir?“
Í þessu samhengi er gott að benda á að enska efnisskráin er í nokkrum bindum. Gott er að verða sér úti um þau ef við kjósum að nota þau frekar en geisladiskinn. Bræður í bókaafgreiðslu safnaðarins geta veitt nánari upplýsingar. Eins ættu bræður og systur að geta gengið að efnisskránni vísri í bókasafni safnaðarins.
Lykillinn að efnisskrá Varðturnsins á örugglega eftir að koma að góðum notum á komandi misserum við efnisleit og einkanám og reynast úrvals ‚lykill þekkingarinnar‘ á Guði. — Lúkas 11:52.