Höldum áfram að tala orð Guðs af djörfung
1 Við vitum að það hlusta ekki allir á okkur í boðunarstarfinu. (Matt. 10:14) En þótt sumir bregðist neikvætt við fagnaðarerindinu látum við það ekki draga úr starfi okkar. (Orðskv. 29:25) Hvað hjálpar okkur til að halda áfram að tala orð Guðs af djörfung?
2 Páll postuli mat mjög mikils „að þekkja Krist Jesú“. Það fékk hann til að tala „með fullkominni sannfæringu“. (Fil. 3:8; 1. Þess. 1:5) Þó svo að sumum hafi ekki fundist mikið til boðskaparins koma vissi Páll að boðskapurinn væri „kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir“. (Rómv. 1:16) Hann hélt þess vegna áfram að tala „djarflega í trausti til Drottins“, líka þegar á móti blés. — Post. 14:1-7; 20:18-21, 24.
3 Hvert sækjum við styrk okkar? Páll talaði ekki af djörfung í eigin krafti. Hann sagði um sjálfan sig og Sílas: „Vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí, en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.“ (1. Þess. 2:2; Post. 16:12, 37) Seinna, þegar Páll var í fangelsi í Róm, bað hann aðra um að biðja fyrir sér svo að hann gæti haldið áfram að boða fagnaðarerindið „með djörfung“ eins og honum bar að tala. (Ef. 6:18-20) Páll setti traust sitt á Jehóva en ekki á sig sjálfan og gat því haldið áfram að tala orð Guðs af djörfung. — 2. Kor. 4:7; Fil. 4:13.
4 Þetta á líka við á okkar dögum. Bróðir einn átti mjög erfitt með að segja frá því á vinnustaðnum að hann væri vottur Jehóva og fannst erfitt að vitna óformlega. Hann lagði málið fyrir Jehóva í bæn og byrjaði síðan að vitna. Samstarfsmaður, sem vildi ekki hlusta í fyrstu, þáði biblíunámskeið þegar bróðirinn minntist á upprisuvonina. Eftir það lagði bróðirinn sig fram um að nota hvert tækifæri til að vitna. Á næsta vinnustað sínum hjálpaði hann 34 einstaklingum til skírnar á 14 ára tímabili. Við getum verið viss um að Jehóva mun líka styrkja okkur og veita okkur fulla djörfung til að halda áfram að tala orð hans. — Post. 4:29.