Er barnið þitt nógu þroskað til að taka alvarlega ákvörðun?
1. Hvaða afstöðu hafa ungir vottar þurft að taka til blóðgjafa? Nefndu dæmi.
1 Þessi alvarlega ákvörðun, sem hér um ræðir, er ákvörðun um blóðgjöf. Í greininni „Framgöngum eins og Jehóva fræðir okkur“, í Varðturninum 1. nóvember 1991, kemur fram að börn og unglingar í söfnuði Votta Jehóva hafa þurft að taka skýra og eindregna afstöðu í þessu máli. Þau hafa þurft að sanna að það séu ekki aðeins foreldrar þeirra sem vilji að þau hlýði lögum Guðs um blóðið heldur vilji þau það sjálf. Gæti barnið þitt staðið í þeim sporum að þurfa að taka slíka afstöðu?
2. Hvaða ákvæði er um börn í lögum um réttindi sjúklinga og hvað þurfa kristnir foreldrar og börn þeirra þar af leiðandi að leggja áherslu á?
2 Hvað segja landslög? Í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74 frá 1997 er kafli með sérreglum um sjúk börn. Þar segir í 26. grein: „Foreldrar sem fara með forsjá barns skulu veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára. Eftir því sem kostur er skulu sjúk börn höfð með í ráðum og alltaf ef þau eru 12 ára eða eldri.“ Eins og fram kemur í þessu ákvæði ætlast löggjafinn til þess að börn séu alltaf höfð með í ráðum ef þau hafa náð 12 ára aldri og einnig yngri börn eftir því sem kostur er. Það má því búast við að læknar eða aðrir ræði við barnið til að heyra það sjálft lýsa yfir að það vilji ekki þiggja blóðgjöf, og til að kanna hvort það sé nógu þroskað til að taka sjálfstæða ákvörðun. Barnið þarf að skilja allvel hve alvarleg veikindi þess eru og hvaða afleiðingar það geti haft að velja ákveðinn meðferðarkost umfram annan. Barnið þarf að geta tjáð skýrt og ákveðið hvaða trúarlegu sannfæringu það hefur og hvernig það lítur á lög Guðs um blóðið.
3. Hvaða spurningar ættu foreldrar að íhuga alvarlega og hvers vegna?
3 Hvað myndi barnið þitt segja? Eru börnin þín vel undir það búin að tjá sig um þetta mál? Trúa þau af öllu hjarta að það sé skipun Guðs að við ‚höldum okkur frá blóði‘? (Post. 15:29; 21:25) Geta þau útskýrt afstöðu sína með vísun í Biblíuna? Myndu þau verja afstöðu sína til blóðsins með hugrekki ef læknir héldi því fram að líf þeirra væri í húfi? Myndu þau gera það jafnvel þótt þið væruð ekki nærstödd? Nú er það svo að „tími og tilviljun“ mætir okkur öllum. Hvernig getið þið búið börnin ykkar undir að það reyni óvænt á hollustu þeirra og ráðvendni? — Préd. 9:11; Ef. 6:4.
4, 5. (a) Hvaða ábyrgð hvílir á foreldrum og hvernig geta þeir rækt hana? (b) Hvaða hjálpargögn geta foreldrar notfært sér?
4 Hvað getið þið foreldrar gert? Það er hlutverk ykkar að kenna börnunum hver sé afstaða Guðs til blóðsins. (2. Tím. 3:14, 15) Greinargóða skýringu er að finna á bls. 70-74 í bókinni Reasoning from the Scripures (Rökræðubókinni). Farið vandlega yfir efnið með fjölskyldunni. Notið kaflann „If Someone Says — “ á bls. 74-76 og látið börnin æfa sig að svara fyrir sig þannig að þau fái reynslu í því að lýsa hverju þau trúa og hvers vegna. (1. Pét. 3:15) Af öðru fræðsluefni um læknismeðferð án blóðgjafa má nefna bæklinginn How Can Blood Save Your Life? og Varðturninn 1. ágúst 2004, bls. 18-23. Auk þess eigum við myndböndin Transfusion-Alternative Health Care — Meeting Patient Needs and Rights og No Blood — Medicine Meets the Challenge. Hvort tveggja er fáanlegt núna á DVD-diski sem nefnist Transfusion Alternatives — Documentary Series en þar er fjallað ítarlega um það að læknismeðferð án blóðgjafar sé bæði skynsamleg og áhrifarík. Hefur fjölskyldan horft á þetta efni nýlega og rætt saman um það?
5 Hjálpið börnunum að sannfærast um hver sé hinn ‚góði, fagri og fullkomni vilji Guðs‘ um blóðið. Þá geta þau tekið skýra og eindregna afstöðu sem Jehóva blessar. — Rómv. 12:2.