Líkjum eftir Kristi í boðunarstarfinu
1 Jesús lét okkur eftir fyrirmynd sem við ættum að fylgja í boðunarstarfinu. Kærleikur hans til Guðs og manna birtist á ýmsa vegu við mismunandi tækifæri. Hann kenndi auðmjúku fólki sannleikann og gerði sjúkum og undirokuðum gott. — Matt. 9:35.
2 Fordæmi og kennsla Jesú: Jesús lét ekki berast afleiðis með því að blanda sér í stjórnmál eða taka þátt í þjóðfélagsumbótum. Hann lét góðgerðarmál heldur ekki tefja sig eða skyggja á aðalverkefni sitt. (Lúk. 8:1) Hann einbeitti sér að því að boða fagnaðarerindið um Guðsríki sem einu varanlegu lausnina á vandamálum manna. Jesús hafði mikilvægt verk að vinna en takmarkaðan tíma. Þegar íbúar Kapernaum vildu fá hann til að vera um kyrrt sagði hann við lærisveina sína: „Vér skulum fara annað, . . . svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn.“ — Mark. 1:38.
3 Eftir að Jesú hafði þjálfað lærisveinana sendi hann þá út og sagði við þá: „Farið og prédikið: ‚Himnaríki er í nánd.‘“ (Matt. 10:7) Hann kenndi fylgjendum sínum að allt sem snerti Guðsríki ætti að hafa forgang í lífinu. (Matt. 6:33) Lokaorð Jesú við lærisveinana, áður en hann steig til himna, sýndu greinilega hvað þeir áttu að gera. Hann sagði: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ — Matt. 28:19.
4 Mikilvægi Guðsríkis: Guðsríki var aðalumræðuefni Jesú og hann hvatti lærisveinana til að fylgja fordæmi sínu. Viðleitni manna til að leysa vandamál mannkynsins skilar engum árangri. (Jer. 10:23) Það eina sem helgar nafn Guðs og veitir mönnum varanlega lausn er Guðsríki. (Matt. 6:9, 10) Þegar fólkið sem ‚andvarpar og kveinar yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru‘ er frætt um Guðsríki getur það lifað hamingjuríku og farsælu lífi núna og haft örugga framtíðarvon. — Esek. 9:4.
5 Jesús gegnir áfram veigamiklu hlutverki í boðun fagnaðarerindisins og fullvissar okkur um stuðning sinn. (Matt. 28:20) Að hve miklu leyti fylgjum við fyrirmyndinni sem hann setti í boðunarstarfinu? (1. Pét. 2:21) Nú á þessum þýðingamiklu síðustu dögum skulum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að fylgja fordæmi hans í boðunarstarfinu.