Spurningakassinn
◼ Hver á að kynna upphafssönginn í Boðunarskólanum, á þjónustusamkomunni, fyrir opinbera fyrirlesturinn og á undan Varðturnsnáminu?
Í námsskrá Boðunarskólans, sem er birt í Ríkisþjónustunni í október á hverju ári, er að finna hvaða söng á að syngja í upphafi skólans í hverri viku. Upphafs- og lokasöngvar fyrir þjónustusamkomuna eru tilgreindir á bls. 2 í Ríkisþjónustunni. Eins er tekið fram á bls. 2 í Varðturninum hvaða söngva á að syngja fyrir og eftir Varðturnsnámið. Söngvarnir eru valdir með það fyrir augum að þeir séu hluti af heildardagskránni og því ætti bróðirinn, sem hefur umsjón með hverjum hluta, að kynna söngvana en ekki bróðirinn sem er að ljúka dagskránni á undan.
Tökum dæmi. Skólahirðirinn býður áheyrendur velkomna í Boðunarskólann, kynnir fyrsta sönginn og hefur síðan umsjón með skólanum. Þegar honum er lokið býður hann fyrsta ræðumanni þjónustusamkomunnar upp á svið. Sá bróðir á að kynna sönginn sem markar upphaf þjónustusamkomunnar.
Eins er það með opinbera fyrirlesturinn. Sá sem er kynnir byrjar samkomuna á því að bjóða alla viðstadda velkomna og kynnir síðan sönginn sem ræðumaðurinn hefur valið. Kynnirinn (eða annar hæfur bróðir) fer svo með bæn. Eftir það kynnir hann ræðumanninn og heiti ræðunnar. Að henni lokinni þakkar hann fyrir fræðandi erindi án þess þó að draga saman efni ræðunnar á ný. Hann tilkynnir hvaða ræða verður flutt í næstu viku og hvetur alla til að vera viðstadda Varðturnsnámið. Það er ekki nauðsynlegt að biðja viðstadda að senda kveðjur með ræðumanninum til heimasafnaðar hans. Því næst býður hann Varðturnsnámstjóranum upp á svið.
Varðturnsnámstjórinn kynnir sönginn fyrir Varðturnsnámið. Hann stýrir náminu í samræmi við þær leiðbeiningar sem hafa verið gefnar og tilkynnir loks lokasönginn. Yfirleitt biður hann ræðumanninn um að ljúka samkomunni með bæn.
Ef við fylgjum þessum leiðbeiningum getum við treyst því að samkomurnar fari eins fram alls staðar.