Hughreystum niðurdregna
1 Aldrei fyrr í mannkynssögunni hefur verið eins mikil þörf á því að hughreysta aðra. Við fylgjum konungi okkar Jesú Kristi og leitumst við að „græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta“. — Jes. 61:1.
2 Árangursrík leið: Til að hughreysta fólk ættum við að kynna boðskapinn á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þegar við ræðum við fólk ættum við ekki að tala of lengi um illskuna í heiminum og falskenningar. Við ættum öllu heldur að beina athyglinni að sannleika Biblíunnar og fyrirheitum Guðs sem hughreysta og veita bjarta framtíðarvon. Þetta þýðir samt ekki að við megum ekki tala um Harmagedón. Verkefni okkar felst í því að „boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors“ og „vara hinn óguðlega við óguðlegri breytni hans“. En þegar við vörum fólk við Harmagedón og lýsum eyðileggingunni, sem kemur í kjölfarið, má það ekki varpa skugga á fagnaðarerindið um ríkið. — Jes. 61:2; Esek. 3:18; Matt. 24:14.
3 Hús úr húsi: Við hittum oft fólk sem er niðurdregið sökum veikinda, ástvinamissis, óréttlætis eða fjárhagserfiðleika. Við líkjum eftir Kristi og ‚kennum í brjósti um fólk‘ sem við hittum í boðunarstarfinu og sýnum því samúð. (Lúk. 7:13; Rómv. 12:15) Þótt við lesum einn eða tvo viðeigandi ritningarstaði verðum við að vera ‚fljót til að heyra‘ og gefa viðmælandanum færi á að tjá sig. (Jak. 1:19) Eftir að hafa hlustað á hann erum við betur í stakk búin til að hughreysta hann.
4 Á viðeigandi tímapunkti í samtalinu gætum við sagt: „Mig langar til að lesa fyrir þig uppörvandi orð úr Biblíunni.“ Sýnum góða dómgreind og reynum ekki að afsanna allar ranghugmyndir sem viðkomandi kann að láta í ljós. Við ættum öllu heldur að einbeita okkur að því að nota Biblíuna til að hvetja og hughreysta. Hægt væri að gefa húsráðanda smáritið Hughreysting fyrir niðurdregna og ræða um efni þess. Þeir sem tala erlent tungumál gætu nýtt sér Rökræðubókina og flett upp á blaðsíðu 117-121 undir yfirskriftinni „Encouragement“ (hughreysting).
5 Verum vakandi fyrir tækifærum til að hughreysta aðra: Þekkirðu nágranna, vinnufélaga, skólafélaga eða ættingja sem þarfnast hughreystingar? Gætirðu kannski litið við hjá honum til að sýna honum hughreystandi orð úr Biblíunni? Þar sem þú veist af hverju hann er niðurdreginn geturðu verið búinn að undirbúa þig fyrir samtalið. Margir hafa skrifað bréf eða notað símann. Sannur náungakærleikur ætti að knýja okkur til að sýna öðrum samúð og hughreysta niðurdregna með hjálp Biblíunnar. — Lúk. 10:25-37.
6 Já, okkur hefur verið falið að hugga syrgjendur, uppörva niðurdregna og hjálpa fólki að eignast bjarta framtíðarvon. Alls staðar í heiminum þarfnast fólk slíkrar huggunar. Með því að tala um allt hið góða sem Guð hefur heitið okkur veitum við hjartahreinum hughreystingu og von. Við skulum aldrei gleyma að það er mikil þörf á því að „græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta“.