Kenndu öðrum að elska Jehóva
1. Hvað verður til þess að sumir laðast að Jehóva?
1 Manstu eftir fyrsta skiptinu sem þú heyrðir minnst á Jehóva? Hvað varð til þess að þú laðaðist að honum? Margt hjartahreint fólk mun segja þér að það hafi laðast að skaparanum þegar það kynntist óviðjafnanlegum eiginleikum hans, sérstaklega miskunnsemi hans og kærleika. — 1. Jóh. 4:8.
2, 3. Hvernig getum við notað bókina Hvað kennir Biblían? til að hjálpa biblíunemendum að rækta kærleika sinn til Jehóva?
2 „Þessi er Guð vor“: Bókin Hvað kennir Biblían? undirstrikar kærleika Jehóva og þörfina á persónulegu sambandi við hann. Hvernig getum við notað þetta rit til að kenna öðrum að rækta kærleika sinn til Guðs? Þegar við einbeitum okkur að nýju atriði gætum við spurt spurninga sem vekja viðkomanda til umhugsunar, eins og: „Hvað segir þetta okkur um Jehóva?“ eða: „Hvernig gefur þetta til kynna að Jehóva sé besti faðir sem hugsast getur?“ Slík kennsla getur orðið til þess að nemandinn eignist ævilangt samband við Jehóva.
3 Þegar við sýnum biblíunemendunum fram á hve sérstakt það er að öðlast þekkingu á hinum eina sanna Guði munu þeir taka undir orð Jesaja: „Þessi er Guð vor.“ (Jes. 25:9) Þegar við útskýrum orð Guðs þurfum við að leggja áherslu á hvernig fyrirætlun Jehóva um himneska stjórn í höndum Jesú Krists rætist og verður mannkyninu til blessunar. — Jes. 9:6, 7.
4, 5. Hvað felst í því að elska Jehóva?
4 Hvernig kærleikur til Jehóva birtist: Við vitum að það að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu og huga felur ekki eingöngu í sér að hafa sterkar tilfinningar til hans. Við verðum líka að tileinka okkur boðorð hans og lifa eftir þeim. (Sálm. 97:10) Kærleikur til Guðs kemur fram í því að hlýða öllum boðum hans og „lifa heilögu og guðrækilegu lífi“, jafnvel andspænis ofsóknum og andstöðu. — 2. Pét. 3:11; 2. Jóh. 6.
5 Okkur líður vel ef við gerum vilja Guðs af því að við elskum hann. (Sálm. 40:9) Biblíunemandinn verður að gera sér ljóst að öll boðorð Guðs eru sett þjónum hans til eilífra heilla. (5. Mós. 10:12, 13) Við sýnum djúpa virðingu fyrir öllum verkum hans með því að lifa í samræmi við leiðsögn hans. Hjálpaðu nemandanum að skilja að þeim sem gengur á réttlátum vegum Jehóva er hlíft við miklum sársauka og hugarangri.
6. Hvaða blessun hlýtur sá sem elskar Jehóva?
6 Blessun fyrir þá sem elska Guð: Jehóva er annt um auðmjúkt fólk sem elskar hann og hann opinberar því „djúpin í Guði“. (1. Kor. 2:9, 10) Þegar það þekkir fyrirætlanir Jehóva hefur það skýra framtíðarsýn og örugga von. (Jer. 29:11) Þeir sem elska Jehóva njóta einstakrar gæsku hans. (2. Mós. 20:6) Þeir eiga von um eilíft líf vegna þess að Guð elskar þá. — Jóh. 3:16.
7. Hvernig finnst þér að kenna öðrum að elska Jehóva?
7 Því nánar sem við kynnumst himneskum föður okkar því meira eigum við til að deila með öðrum. (Matt. 13:52) Það er ómetanlegur heiður að kenna öðrum að elska Jehóva, sérstaklega börnunum okkar. (5. Mós. 6:5-7) Höldum áfram, ásamt biblíunemendum okkar, að lofa hina ‚miklu gæsku‘ Jehóva sem við njótum. — Sálm. 145:7.