Tímasetningar Biblíunnar óvéfengjanlegar
HVAÐA áhrif hafa aldursgreiningar vísindanna á skilning okkar á Biblíunni? Það er undir viðhorfum okkar komið. Ef við höfum aðhyllst þann skilning bókstafstrúarmanna að jörðin, sólin, tunglið og stjörnurnar — ekki aðeins mannkynið — hafi allt verið skapað á aðeins sex 24 stunda dögum hljóta gögn vísindanna að koma okkur úr jafnvægi.
Ef við á hinn bóginn skiljum að dagarnir í 1. Mósebók voru löng tímabil sem skiptu þúsundum ára, og að reikistjarnan jörð var mynduð ármilljörðum þar á undan, er allt í góðu gengi.
Það stangast hins vegar á við tímatal Biblíunnar þegar mælingar á geislavirku kolefni gefa stundum til kynna að menn hafi kveikt eld, gert verkfæri og reist hús fyrir meira en 6000 árum. Hverju eigum við þá að trúa?
Allt frá sköpun Adams telur Biblían tímann ár frá ári sem tengist svo öðrum, áreiðanlegum sagnfræðiheimildum fyrir um það bil 25 öldum. Árviss ganga sólar frá sumarsólstöðum að vetrarsólstöðum og aftur til baka markaði tíðir og ár, tákn sem Guð setti á himininn í þeim tilgangi. Menn veittu athygli og skráðu árabilið frá einum merkisatburði sögunnar til annars. Skrárnar voru felldar inn í fyrstu bækur Biblíunnar og síðan geymdar sem hluti hins helga fjársjóðs Gyðinga svo lengi sem þeir voru til sem þjóð. Nákvæmni þessarar sögu á ekki sinn líka, og hún segir okkur að mannkynið hafi verið á jörðinni í aðeins um það bil 6000 ár.
Við skulum bera þessa skýru og traustu heimild saman við þá aldursgreiningarkenningu sem byggir á geislavirku kolefni. Hún er reist á forsendum sem allar hafa verið véfengdar, endurskoðaðar og breytt, og margar eru enn stórlega vafasamar. Hvernig er hægt með nokkurri alvöru að véfengja tímatal Biblíunnar á þessum forsendum?
Að hvaða niðurstöðu komumst við þá? Við höfum séð að jarðfræðingar finna kenningum sínum um sögu jarðarinnar oftast góðan stuðning með mælingum á aldri geislavirkra efna, þótt flestar aldursgreiningarnar séu hvergi nærri vissar.
Steingervingafræðingar, sem flestir eru hallir undir þróunarkenninguna sökum menntunar sinnar og samstarfsmanna, leita og leita stuðnings aldursgreininga með hjálp geislavirkra efna við þá fullyrðingu sína að steingervingar hinna svonefndu apamanna séu margra milljón ára gamlir. En þeim sækist leitin seint og illa.
Í annan stað ganga jarðfræðiklukkurnar, sem byggjast á úrani og kalíum, svo hægt að þær koma ekki að gagni. Í hinn stað gengur kolefnisklukkan þokkalega rétt fáeinar árþúsundir aftur í tímann, en verður umvafin svo margslungnum vandamálum þegar fjær nútímanum dregur að vonlaust er að treysta henni. Allt um það fellur yfirgnæfandi meirihluti kolefnismælinganna innan þeirra 6000 ára sem Biblían afmarkar. Þær fáeinu aldursgreiningar, sem gefa til kynna hærri aldur og þróunarfræðingar halda dauðahaldi í, eru allar vafasamar.
Aðrar aðferðir vísindanna til aldursgreininga, með mælingar á ljósvirknibreytingu amínósýra fremstar í flokki til árása á sögu Biblíunnar af sköpun mannsins, hafa brugðist þróunarfræðingum hrapallega.
Við getum með trúartrausti haldið fram þessari staðreynd: Aldursgreiningar vísindanna fá ekki véfengt tímatal Biblíunnar.