Hvernig byrjaði lífið á jörðinni?
Leit mín að svari
ÉG vissi svarið strax í barnæsku. Guð skapaði alla hluti — það kenndu foreldrar mínir mér með hjálp Biblíunnar. Þegar ég óx úr grasi virti ég fyrir mér lífið í kringum mig. Það hreif mig. Hin mörgu undur náttúrunnar höfðu djúp áhrif á mig.
Ég tók eftir að sumarblómin dóu að hausti en skildu eftir fræ sem spíruðu að vori og endursköpuðu litadýrð sumarsins. Safinn seig úr trjánum niður í ræturnar að hausti en sneri svo við nokkrum mánuðum síðar til að klæða berar greinarnar fagurgrænu vorlaufi. Múrmeldýrin á engjunum hnipruðu sig saman í holum sínum og sváfu af sér veturinn en vöknuðu á ný við hlýja geisla sólarinnar að vori. Þrastarhjónin, sem áttu sér hreiður í holri járnsúlu í garðinum bak við húsið, flugu suður á bóginn að hausti en komu síðan aftur að vori á nákvæmlega sama stað til að eignast unga á nýjan leik. Ég horfði með lotningu á oddaflug gæsanna á suðurleið og hlustaði hugfanginn á linnulaust garg þeirra — og velti fyrir mér um hvað þær væru eiginlega að masa.
Því meira sem ég lærði um lífið, þeim mun ljósari varð mér stórkostleg hönnun lífveranna. Og því meiri reglufestu sem ég kom auga á, þeim mun ljósara varð mér að sá skapari hlyti að vera til sem foreldrar mínir höfðu sagt mér frá.
Enginn skapari?
En þegar ég kom í menntaskóla var mér sagt að einskis skapara væri þörf: ‚Þetta varð allt til af tilviljun. Eldingar og útfjólubláir geislar sundruðu efnasamböndum í frumstæðu andrúmslofti jarðar, og atómin sameinuðust svo aftur í æ flóknari sameindir, og loksins varð til lifandi fruma. Þegar hún fjölgaði sér urðu ýmsar tilviljanakenndar breytingar, og þúsund milljónum ára síðar var jörðin orðin þakin lífi í sínum óteljandi myndum. Maðurinn er það síðasta sem þróunin leiddi af sér.‘
Þetta lét þróunarkenninguna hljóma svo einfalda. Kannski of einfalda. Ég hélt mér fast við trú mína á sköpun en vildi þó ekki vera auðtrúa. Ég vildi vera rökvís, halda huga mínum opnum, vita sannleikann. Ég fór að lesa um náttúruvísindi og lærði margt. Augu mín opnuðust enn betur fyrir undrum náttúrunnar. Því meira sem ég lærði, þeim mun dýpri varð lotning mín. En því meiri hönnun og reglufestu sem ég sá, þeim mun öndverðari snerist hugur minn gegn því að trúa að stökkbreytingar og blind tilviljun gæti skapað það sem fluggáfaðir menn geta ekki líkt eftir á rannsóknastofum — ekki einu sinni smæsta geril og þaðan af síður blóm eða smáfugla.
Á námsárum mínum bæði í menntaskóla og háskóla las ég öll þau raunvísindi sem ég mögulega gat — efnafræði, eðlisfræði, líffræði og stærðfræði. Að loknu námi hélt ég áfram að lesa bækur og greinar eftir þróunarfræðinga. Enn þóttu mér rök þeirra ósannfærandi. Fullyrðingar þróunarfræðinganna hrutu svo lipurlega af munni þeirra, of lipurlega miðað við staðhæfingarnar sem fylgdu þeim.
Þetta var fyrir mörgum árum. Núna er árið 1987. Kannski eru fleiri sannanir og færri fullyrðingar núna. Kannski er tímabært að skoða málið aftur. Ég ákvað að beina athygli minni að einni hlið málsins — því hvernig lífið byrjaði á jörðinni. Ef þróunarkenningin getur ekki sýnt fram á hvernig fyrsta lifandi fruman varð til, hvernig getur hún þá fært sannfærandi rök fyrir því að lifandi verur samsettar úr milljörðum frumna verði til af völdum þróunar — þar með taldir þú og ég með hundrað milljón milljón frumum hvor.
Ég valdi til rannsóknar nýlegar bækur skrifaðar af mjög virtum vísindamönnum — sem allir voru þróunarsinnar. Ég ákvað að taka þær sömu tökum og Jesús tók áhangendur falskra trúarbragða: „Af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ (Matteus 12:37) Ég takmarkaði rannsókn mína við meginskref þróunarkenningarinnar á leið sinni til lífsins: (1) frumandrúmsloftið, (2) hina lífrænu frumsúpu, (3) prótínin, (4) núkleótíðin, (5) kjarnsýrurnar (DNA) og (6) frumuhimnuna.
Hugmyndir um frumandrúmsloftið
Fyrsta skilyrðið fyrir tilurð lífs af völdum þróunar er andrúmsloft þannig saman sett að í því myndist fyrir áhrif útfjólublárra geisla eða annarra orkugjafa einfaldar sameindir sem eru nauðsynlegar lífi. Árið 1953 skýrði Stanley Miller frá slíkri tilraun. Hann valdi sér vetnisauðugt „frumandrúmsloft,“ sendi rafneista í gegnum það og við það urðu til tvær einfaldar amínósýrur af þeim 20 sem þarf til að mynda prótín.1 Enginn veit þó hvernig frumandrúmsloft jarðar var samsett.2 Hvers vegna valdi Miller þessa samsetningu? Hann viðurkenndi að hann hefði valið hana vegna þess að hún væri sú eina sem „nýmyndun efna, er skipti máli í líffræði, ætti sér stað í.“3
Ég uppgötvaði að tilraunum er oft hagrætt til að gefa þá niðurstöðu sem óskað er. Margir vísindamenn viðurkenna að sá sem gerir tilraunirnar geti ‚hagrætt niðurstöðunum verulega‘ og að ‚hann geti í huga sér verið fyrirfram ákveðinn um niðurstöðu tilraunarinnar.‘4 Loftblanda Millers var notuð í flestum tilraunum gerðum eftir hans, ekki af því að hún væri rökrétt eða jafnvel líkleg heldur vegna þess að hún „hentaði vel til þróunartilrauna“ og „velheppnaðar tilraunir á rannsóknastofum mæltu með henni.“5
Þrátt fyrir það fögnuðu þróunarsinnar uppgötvun Millers sem miklu afreki. Margar tilraunir fylgdu í kjölfarið og notaðir voru ýmsir orkugjafar og ólík hráefni. Með miklum brögðum og tilfæringum, og með því að loka augunum fyrir þeim skilyrðum sem ríkja í náttúrlegu umhverfi, tókst vísindamönnum að framkalla á tilraunastofu fleiri lífræn efni sem eru undirstaða lífs. Þeir gerðu úlfalda úr mýflugu Millers. Tilraun hans opnaði möguleikann á að til hefði orðið í höfunum „lífræn frumsúpa“ þar sem safnast hefðu upp byggingareindir lífsins. En er það trúlegt?
Lífræna frumsúpan er heilaspuni
„Mýfluga“ Millers var ekki lífvænleg og því var ekki við að búast að „úlfaldinn“ yrði gæfulegur. Með rafneista klauf Miller hin einföldu efnasambönd í loftblöndu sinni til að amínósýrur gætu myndast. En þessi sami rafneisti hefði á enn skemmri tíma sundrað amínósýrunum hefði Miller ekki ‚stýrt‘ tilrauninni með vissum hætti! Hann bjó tilraunatæki sitt eins konar gildru til að forða amínósýrunum frá rafneistanum jafnskjótt og þær mynduðust. Vísindamennirnir fullyrða hins vegar að amínósýrurnar hafi sloppið undan eldingunum eða útfjólubláu geislunum með því að steypa sér í hafið. Með þeim rökum vilja þróunarfræðingar bjarga frumsúpunni.
En af ýmsum ástæðum hafa þeir ekki erindi sem erfiði. Amínósýrur eru óstöðugar í vatni og hefðu í frumhafinu aðeins verið til í óverulegu magni. Ef lífræna frumsúpan hefði einhvern tíma verið til hefðu sum af efnasamböndunum í henni fest í setlögum, en þrátt fyrir tveggja áratuga leit „hafa enn ekki fundist nokkur merki lífrænnar frumsúpu í elstu berglögum.“ Samt sem áður „ræður tilvist lífrænnar frumsúpu úrslitum.“ „Það er því . . . áfall að gera sér ljóst að alls engin óyggjandi sönnun sé fyrir því að hún hafi verið til.“6
Líkurnar á að prótín myndist
En gerum ráð fyrir að frumsúpan hafi verið til þótt náttúran mæli gegn því. Í frumsúpunni hefðu verið milljónir amínósýrusameinda af hundruðum ólíkra tegunda, nokkurn veginn helmingur þeirra vinstri handar og helmingurinn hægri handar. Myndu amínósýrurnar þá bindast í langar keðjur til að mynda prótín? Myndi tilviljun ein velja af þessum hundruðum tegunda aðeins 20 sem þarf til að mynda prótín? Og myndi tilviljun velja af þessum 20 tegundum aðeins vinstri handar myndina sem er að finna í lifandi verum? Myndi hún síðan raða þeim upp í rétta röð og nákvæmlega rétta lögun eins og þarf fyrir hvert einstakt prótín?7 Aðeins vegna kraftaverks!
Í dæmigerðu prótíni eru um hundrað amínósýrusameindir og mörg þúsund atóm. Lifandi fruma notar um 200.000 prótín við þá starfsemi sem er lífi samfara. Tvö þúsund þeirra eru ensím en það eru sérstök prótín sem fruman getur ekki verið án. Hverjar eru líkurnar á að þessi ensím hafi myndast af tilviljun í súpunni — ef súpan hefði verið til? Líkurnar eru einn á móti 1040.000. Þetta er talan 1 með 40.000 núllum á eftir. Væri hún skrifuð út í fullri lengd myndi hún fylla 14 síður í þessu tímariti. Lýst með öðru móti eru líkurnar þær sömu og að kasta teningi 50.000 sinnum og fá alltaf upp sex. Og hér erum við að tala um aðeins 2000 af þeim 200.000 prótínum sem lifandi fruma þarf.8 Að fá þau öll jafnast á við að fá upp 6 á teningnum 5 milljón sinnum í röð til viðbótar!
Þegar hér var komið sögu fannst mér sem ég væri að reyna að keyra dauðan hest úr sporunum. Ég hélt þó áfram. Ef ég gengi út frá því að súpan gæfi okkur prótínin, þegar allt kæmi til alls, hvað þá um núkleótíðin? Leslie Orgel við Salk-stofnunina í Kaliforníu hefur sagt að núkleótíðin séu „eitthvert stærsta vandamálið í nýmyndun efna áður en líf varð til.“9 Þau eru skilyrði fyrir því að kjarnsýrurnar (DNA og RNA) geti myndast, einnig nefnt nær óyfirstíganlegur þröskuldur. Reyndar er hvorki hægt að setja saman prótínin án fulltingis kjarnsýranna, né kjarnsýrurnar án prótínanna.10 Hér hefur gamla ráðgátan skotið upp kollinum á ný í klæðum efnafræðinnar: Hvort kom á undan, hænan eða eggið?
En við skulum smeygja okkur fram hjá þessari ráðgátu og leyfa þróunarsinnanum Robert Shapiro, sem er prófessor í efnafræði við New York-háskóla og sérfræðingur í kjarnsýrurannsóknum, að tjá sig um líkurnar á að núkleótíð og kjarnsýrur hafi myndast af tilviljun í því umhverfi sem ætlað er að ríkt hafi á jörðinni:
„Þegar tvær amínósýrur bindast verður til vatnssameind. Tvær vatnssameindir verða til þegar núkleótíð myndast úr efnisþáttum sínum, og enn meira vatn losnar úr læðingi þegar núkleótíðin bindast til að mynda kjarnsýrur. Því miður jafngildir myndun vatns í umhverfi, sem er þegar fullt af vatni, því að flytja sand til Sahara. Það er óhagstætt og orkukrefjandi. Slík efnahvörf gerast ekki greiðlega af sjálfu sér. Satt að segja eru það hin gagnstæðu efnahvörf sem gerast sjálfkrafa. Vatn ræðst gjarnan á stórar lífefnasameindir. Það limar núkleótíðin hvert frá öðru, klippir á sykur-fosfatböndin og slítur basa frá sykrum.“11
Síðasta atriðið af þeim sex, sem ég nefndi í upphafi, er frumuhimnan. Án hennar er fruman ekki til. Hún þarf hjúp til verndar fyrir vatni, og fituefnin í frumuhimnunni hrinda frá henni vatni.12 En til að mynda frumuhimnuna þarf „prótínsmiðju“ og hún getur starfað því aðeins að frumuhimna haldi henni saman.13 Við erum enn komnir í hring og aftur blasir við ráðgátan um hænuna og eggið!
Sameindalíffræðin hringir til útfarar
Sá var draumur þróunarfræðinga að geta sýnt fram á að fyrsta lifandi fruman hafi verið afareinföld að gerð. Sameindalíffræðin hefur breytt þeim draumi í martröð. Michael Denton, sérfræðingur í sameindalíffræði, hefur hringt til útfarar yfir þessum draumi:
„Sameindalíffræðin hefur sýnt fram á að jafnvel þær einföldustu af öllum lífverum jarðarinnar, gerilfrumurnar, eru afarflóknar að gerð. Þótt smæsta gerilfruman sé ótrúlega smá og vegi innan við 10-12 grömm er hver fyrir sig ósvikin, örsmásæ verksmiðja með mörg þúsund, frábærlega gerðum og flóknum sameindavélum sem samanlagt eru gerðar úr 100.000 milljón atómum, langtum flóknari en nokkur vél gerð af mannahöndum og án nokkurrar hliðstæðu í heimi lífvana efna.
Sameindalíffræðin hefur einnig sýnt fram á að í meginatriðum er fruman eins að gerð í öllum lifandi verum á jörðinni, allt frá gerlum til spendýra. Í öllum lífverum gegna DNA, miðlandi RNA og prótín sams konar hlutverki. Erfðalykillinn er nánast eins í öllum frumum. Stærð, byggingarlag og einstakir hlutar prótínsmiðjunnar eru nánast eins í öllum frumum. Hvað lífefnafræðilega gerð frumunnar áhrærir er því ekki hægt að líta á nokkra lífveru sem frumstæða eða eldri miðað við aðra lífveru, og ekki er hægt á grunni reynsluvísinda að finna minnstu vísbendingu um þróunarröð meðal allra hinna gífurlega margbreyttu frumna á jörðinni.“14
Það kemur því ekki á óvart að Harold Morowitz, eðlisfræðingur við Yale-háskóla, skuli hafa reiknað út að líkurnar á að einfaldasti, núlifandi gerill hafi myndast af tilviljun sé einn á móti einum með 100.000.000.000 núllum á eftir. „Talan er svo stór,“ segir Shapiro, „að væri hún skrifuð út með venjulegum hætti myndi hún fylla nokkur hundruð þúsund bækur.“ Hann sakar vísindamenn, sem aðhyllast hugmyndir um efnafræðilega þróun lífsins, um að skeyta ekki um hin sívaxandi sönnunargögn og að „hafa kosið að skoða [kenninguna] sem óvéfengjanlegan sannleika, og þar með varðveita hana sem helgan dóm.“15
Sérfræðingur í frumulíffræði segir að fyrir milljónum ára hafi „ein einstök fruma getað framleitt vopn, veitt sér til matar, melt fæðuna, losnað við úrgangsefni, hreyft sig stað úr stað, reist hús og stundað venjulegt eða óvenjulegt kynlíf. Þessar verur eru enn til. Frumverurnar — heilar og sjálfstæðar lífverur sem eru þó aðeins ein fruma gædd margvíslegum hæfileikum, en án vefja, líffæra, hjarta og huga — hafa í raun allt sem við höfum.“ Hann talar um að ein fruma stýri samtímis þeim mörg hundruð þúsund efnahvörfum sem lífið er fólgið í.“16
Hvílík ótrúleg efnavirkni inni í örsmárri frumu — án nokkurra árekstra! Augljóst er að það meistaraverk sem fruman er hlýtur að eiga sér að baki snjallan hönnuð sem stendur okkur langtum framar að vitsmunum. Í einni DNA-sameind, „sem vegur aðeins nokkra þúsundmilljónustu hluta úr grammi,“ er geymt nægilegt upplýsingamagn „til að lýsa lífveru jafnflókinni og manni.“17 Upplýsingamagnið í einni frumu myndi, ef það væri skrifað á blað, fylla þúsund 600 blaðsíðna bækur.“18 Lífið á jörðinni hlýtur að eiga uppruna sinn í snilligáfu sem er skilningi okkar ofvaxin.
Niðurstaða mín er þessi: Án réttrar efnablöndu í andrúmsloftinu var engin lífræn frumsúpa. Án lífrænnar frumsúpu voru engar amínósýrur. Án amínósýranna voru engin prótín. Án prótína voru engin núkleótíð. Án núkleótíða var engin kjarnsýra. Án kjarnsýru gat engin fruma fjölgað sér. Án frumuhimnu var engin lifandi fruma til. Án vitsmuna til að stýra, stjórna og hanna var ekkert líf á jörðinni.
En vísindamenn hafa gert þeim sem trúa á sköpun mikið gagn. Uppgötvanir þeirra varðandi lífið hafa styrkt mjög trú mína á sköpun. Nú les ég með enn dýpri skilningi orð Rómverjabréfsins 1:20, 21, 28: „Hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar . . . hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri. . . . Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt.“
Leit mín sannfærði mig um að það sem foreldrar mínir kenndu mér er satt: Jehóva Guð einn er „uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) — Eftir greinarhöfund á ritstjórnarskrifstofum Vaknið!
Tilvitnanir:
1. Origins: A Skeptic’s Guide to the Creation of Life on Earth, eftir Robert Shapiro, 1986, bls. 105; Life Itself, eftir Francis Crick, 1981, bls. 77.
2. Origins: A Skeptic’s Guide, bls. 96-7.
3. The Origins of Life on the Earth, eftir Stanley L. Miller and Leslie E. Orgel, 1974, bls. 33.
4. Origins: A Skeptic’s Guide, bls. 103.
5. Technology Review, April 1981, R. C. Cowen, bls. 8; Science 210, R. A. Kerr, 1980, bls. 42. (Báðar tilvitnanir teknar úr The Mystery of Life’s Origin: Reassessing Current Theories, 1984, bls. 76.)
6. Evolution: A Theory in Crisis, eftir Michael Denton, 1985, bls. 260-1, 263; Origins: A Skeptic’s Guide, bls. 112-13.
7. Evolution: A Theory in Crisis, bls. 234-8.
8. The Intelligent Universe, eftir Fred Hoyle, 1983, bls. 12-17.
9. Origins: A Skeptic’s Guide, bls. 188.
10. Evolution: A Theory in Crisis, bls. 238; Origins: A Skeptic’s Guide, bls. 134, 138.
11. Origins: A Skeptic’s Guide, bls. 173-4.
12. Sama, bls. 65.
13. Evolution: A Theory in Crisis, bls. 268-9.
14. Sama, bls. 250.
15. Origins: A Skeptic’s Guide, bls. 32, 49, 128.
16. The Center of Life, eftir L. L. Larison Cudmore, 1977, bls. 5, 13-14.
17. Evolution: A Theory in Crisis, bls. 334.
18. National Geographic, september 1976, bls. 357.
[Rammi á blaðsíðu 7]
Hvort kom á undan?
Eggið kemur úr hænu en hænan kemur úr eggi.
Prótín myndast ekki án kjarnsýra en kjarnsýrur geta ekki myndast án prótína.
Frumuhimna getur ekki myndast án prótínsmiðju, en hún getur ekki orðið til án frumuhimnu.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Hundruð þúsundir efnahvarfa eiga sér stað samtímis í sérhverri lifandi frumu — árekstralaust!
[Mynd á blaðsíðu 9]
Upplýsingarnar, geymdar í einni frumu, myndu fylla þúsund 600 blaðsíðna bækur.