Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g87 8.7. bls. 12-14
  • Mállausir steinar mæla

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mállausir steinar mæla
  • Vaknið! – 1987
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Aðalmusterið
  • Uppgröfturinn heimsóttur
  • Blóðþyrst trú
  • Samanburður — fornt og nýtt
  • Astekar aðlaga sig nýrri trú
  • Ósvikið frelsi — hver veitir það?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
  • Losnað úr ánauð falskra trúarbragða
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1992
Vaknið! – 1987
g87 8.7. bls. 12-14

Mállausir steinar mæla

Eftir fréttaritara „Vaknið!“ í Mexíkó

ÞANN 21. febrúar 1978 komu verkamenn frá rafmagnsveitu Mexíkóborgar niður á höggmynd úr steini þegar þeir voru að grafa skurð í miðborginni. Það var upphaf einhvers merkasta fornleifafundar í sögu Mexíkó.

Höggmyndin fannst á stað þar sem aðalmusteri Astekaborgarinnar Tenochtitlán stóð. Musterisrústirnar hafa nú verið grafnar upp og standa opnar gestum til skoðunar. Sumir þessara gesta eru fyrst og fremst forvitnir en öðrum leikur hugur á hvað þessar rústir geta sagt okkur um Astekana, þá sem grundvölluðu hið forna veldi Mexíkana. Þessir mállausu steinar hafa merka sögu að segja.

Aðalmusterið

Skammt frá uppgreftinum er neðanjarðarjárnbrautarstöðin Zocalo. Þar getur að líta líkan af aðalmusterinu eins og það er haldið hafa verið. Það var pýramídalaga og tvær turnlaga byggingar ofan á því. Í kringum þessa aðalmiðstöð guðsdýrkunar Asteka stóðu önnur musteri á torgi sem var miðpunktur borgarinnar. Þar stóðu helstu skurðgoð Asteka, stríðsguðinn Huitzilopochtli, og Tláloc, regnguðinn.

Þegar Spánverjar komu var Tenochtilán eyja í dal sem var fullur af vötnum. Samsíða strætunum lágu skurðir sem notaðir voru til flutninga með litlum bátum, nefndir chalupas. Salvador Toscano lýsir borginni svo í bók sinni Cuauhtemoc: „Torgið mikla, þar sem aðalmusterið stóð, var miðpunktur eyjarinnar, og Cortes bætir við að ‚mannlegt mál fái ekki lýst mikilfengleik þess og fegurð, svo miklu að byggja mátti bústaði fyrir 500 manns innan marka þess. Á torginu stóðu nokkrir pýramídar helgaðir guðsdýrkun, þar var svæði til boltaleikja, bústaðir presta, hauskúpupallar (tzompantlis) og musteri úr tilhöggnum steini og ilmandi sedrusviði. Utan alls þessa var aðalmusterispýramídinn helgaður sólguðinum, Huitzilopochthi, 30 metra hár, með 116 þrepum upp á toppinn og gnæfði það yfir eyjuna.‘“

Uppgröfturinn heimsóttur

Með þessar upplýsingar að bakhjarli skulum við ganga að handriðinu sem leiðir okkur niður til rústanna, svo að við getum séð svæðið í heild sinni. Hvað ber fyrir augu? Í fyrstu rústir einar! Rústirnar hafa verið látnar standa í þeirri mynd sem þær fundust og aðeins lítið verið endurbyggt. Nánari athugun leiðir hins vegar margt athyglisvert í ljós.

Á svæðinu miðju getur að líta þá staði þar sem Huitzilopochtli og Tláloc voru dýrkaðir. Byggingin, sem Cortes lýsti, var þó langtum stærri en það sem við sjáum. Spánverjar vildu uppræta menningu Asteka og þó sér í lagi það sem þeir álitu blóðþyrsta trú. Eftir að þeir unnu borgina árið 1521 lögðu þeir því musterin í rúst hvert af öðru þar til ekki stóð steinn yfir steini. Síðan reistu þeir eigin byggingar á staðnum.

Það sem Spánverjar vissu ekki var að musterið, sem þeir eyðilögðu, var aðeins hið nýjasta af mörgum sem þar höfðu staðið. Hin upphaflega bygging hafði verið stækkuð sjö sinnum og við hverja stækkun grófst undir sú bygging sem fyrir var. Hlutar elstu musteranna sluppu því við eyðileggingu Spánverja. Þeir tveir tilbeiðslustaðir, sem við sjáum hér, eru hluti annarrar stækkunar musterisins.

Blóðþyrst trú

Það var á þessum tilbeiðslustöðum sem mannafórnir fóru fram, og þessar fórnir hafa gefið Astekatrúnni þann stimpil að hún hafi verið blóðþyrst mjög. En þegar við berum þessa trú saman við trúarbrögð okkar tíma er vert að gefa gaum því sem Dominique Verut sagði: „Menning Asteka er tengd hryllilegum mannafórnum sem orðnar voru eins og föst stofnun, menningarfyrirbæri sem átt hefur sér marga verjendur en vekur þó viðbjóð óvina sinna sem gleyma hinum heilaga rannsóknarrétti og nasismanum.“

Tæpast fer þó hjá því að hrollur fari um menn þegar þeir standa við fórnarsteininn fyrir framan bænasal Huitzilopochtli. Fórnarlambið var lagt á bakið á flatan steininn og hjartað síðan rifið úr því svo mætti færa það guðunum.

Annar steinn, stytta gyðjunnar Coyolxauhqui, dregur fram í dagsljósið aðra hlið á guðsdýrkun Asteka. Coyolxauhqui var sögð vera systir Huitzilopochtlis sem hann drap og limaði í sundur. Flöt höggmynd hennar sýnir hana sundurlimaða með höfuðið skorið frá búknum. Astekum þótti greinilega ekkert athugavert við að tilbiðja sundurlimaða gyðju.

Samanburður — fornt og nýtt

Lesendum Biblíunnar er ljóst að mannafórnir voru oft stundaðar í tengslum við falska guðsdýrkun. Kanverjar, og stundum jafnvel trúvilltir Ísraelsmenn, færðu heiðnum guðum börn sín að fórn. (2. Konungabók 23:10; Jeremía 32:35) Astekar lögðu líka stund á barnafórnir. Við lesum um það í bókinni El Templo Mayor: „Líkamsleifar fórnfærðra barna fundust í einni þessara [gryfja] ásamt myndum af regnguðinum. Var þetta sérstök fórn af völdum hungursneyðar?“

Á bls. 219 í sömu bók segir: „Fray Juan de Torquemada segir okkur sitthvað um þetta í bókinni Monarchia Indiana (Einræði Indíána): ‚Börnin voru færð á fórnarstaðinn ríkmannlega klædd á færanlegum palli eða börum sem voru ríkulega skreyttar blómum eða fjöðrum. Þær voru síðan bornar á öxlum presta og musterisþjóna. Aðrir gengu á undan þeim, léku á hljóðfæri, sungu og dönsuðu. Þannig var farið með þau á staðinn þar sem þeim var fórnað og þau borin fram fyrir djöflaguðinn.‘“

Sem frekari vísbendingu um það hvað sé líkt með trú Asteka og trúarbrögðum gamla heimsins er bent á að guðinn Tláloc hafi líka verið frjósemisguð. Eitt af aðalölturunum var helgað honum. Í musterinu er líka mynd af tveim stórum snákum sem einnig eru frjósemistákn. Mörg af heiðnum trúarbrögðum gamla heimsins áttu sér líka frjósemisguð, og höggormurinn var algengt trúartákn. Athygli vekur að Huitzilopochtli var sagður fæddur af Coatlicue, og þessi móðurgyðja var síðar kölluð „móðir allra guða.“

Astekar aðlaga sig nýrri trú

Spánverjar lögðu sig mjög fram og svifust einskis til að uppræta trú Asteka úr Mexíkó. Oft reistu þeir sínar eigin kirkjur ofan á musterum Asteka og notuðu steina úr eldri byggingum í sínar. Jafnvel hlutar af skurðgoðum Asteka voru notaðir sem byggingarefni.

En það var ekki erfitt fyrir Asteka að samlaga sig hinni nýju trú, kaþólsku trúnni. Í stað skurðgoða úr steini komu skurðgoð úr tré og leir. Þessi nýju skurðgoð líktust meira mönnum en þau sem fyrir voru, en þau voru eftir sem áður skurðgoð. Og margar hinna fornu trúarhugmynda fylgdu áfram mexíkanskri menningu. Til dæmis voru enn viðhafðir ýmsir trúarsiðir tengdir hinum dánu í byrjun nóvember ár hvert. Og áhangendur hinna nýju trúarbragða trúðu á ódauðleika sálarinnar eins og íbúar Mexíkó höfðu gert til forna. Það var því margt líkt með þeirri trú, sem Cortes kom á framfæri, og hinni sem hann var að reyna að útrýma.

Hinar mállausu rústir aðalmusterisins, sem nú standa gestum opnar, draga fram lifandi mynd af heimsveldi og siðmenningu sem er að eilífu liðin undir lok. Þær minna okkur á grimma trúarsiði, guði sem ekki eru lengur tilbeðnir og trúariðkanir sem enn eru viðhafðar, þótt undir nýju nafni sé og í nafni annarrar trúar. Og þær minna okkur á athyglisverða samsvörun milli falstrúarbragða gamla heimsins og nýja heimsins.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Gyðjan Coatlicue

[Rétthafi]

Mannfræði- og sagnfræðistofnunin í Mexíkó

[Mynd á blaðsíðu 13]

Gyðjan Coyolxauhqui

[Rétthafi]

Mannfræði- og sagnfræðistofnunin í Mexíkó

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila