Frá lesendum
Aldursgreiningar
Ég vil þakka ykkur fyrir greinina um „Aldursákvarðanir forsögulegra menja með aðferðum vísindanna.“ (Október-desember 1986) Hún hefur hjálpað mér verulega að taka andlegum framförum. Ég verð að viðurkenna að aldursákvarðanir fornra menja komu mér til að efast um sumar af tímasetningum Biblíunnar. Ég er þakklátur fyrir hjálp ykkar.
M. M., Ítalíu
Stjörnuspár — gagnlegar eða skaðlegar? (g86 22/8 bls. 28)
Ég mótmæli þeirri fáfræði sem grein ykkar, „Stjörnuspár — gagnlegar eða skaðlegar?“ (janúar-mars 1987) ber vott um. Tunglið getur togað í hin miklu höf en við mennirnir, sem köllumst vitibornir, viljum ekki viðurkenna að það geti haft einhver áhrif á okkur líka. Stjörnuspáfræðingar, sem taka starf sitt alvarlega, segja ekki að þeir geti lesið framtíðina með því að horfa á himintunglin. Þeir álíta að stjörnurnar geti hjálpað okkur að vita af því hvenær tímabært sé að sýna varkárni og láta af neikvæðri hegðun, svo dæmi séu nefnd. Uppbyggileg notkun stjörnuspáfræðinnar hjálpar okkur að horfast í augu við og breyta vísvitandi hinum erfiðu eða neikvæðum hliðum í eðli okkar.
A. C., Ástralíu
Þótt viðurkennt sé að aðdráttarafl tungls, sem er fremur nálægt jörð, hafi áhrif á höfin, styður það alls ekki þá hugmynd að stjörnurnar, sem eru í margra ljósára fjarlægð, hafi nokkur áhrif á hegðun manna. Það er orð Guðs sem er hið sanna ljós okkur til leiðsagnar. (Sálmur 119:105) Það er ‚öll ritning innblásin af Guði sem er nytsöm til fræðslu til að guðsmaðurinn sé hæfur til sérhvers góðs verks.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Það er orð Guðs og heilagur andi hans sem getur greint hugsanir og hugrenningar hjartans. (Rómverjabréfið 8:26, 27; 1. Korintubréf 2:10-13; Hebreabréfið 4:12, 13) Það er nákvæm þekking á orði Guðs sem hjálpar okkur að íklæðast nýjum persónuleika í samræmi við mynd Guðs. (Kólossubréfið 3:9, 10) Að rýna í stjörnurnar sér til leiðsagnar, hvort heldur til að fá vitneskju um framtíðina eða bæta eðli sitt, stríðir gegn orði Guðs. (Jesaja 47:12-15) Sjá, Vaknið! í október-desember 1986 þar sem fjallað er um hvort framtíðin sé skrifuð í stjörnurnar. — Útg.
Ófædd börn (g86 22/10 bls. 28)
Ég er nýbúin að lesa „Bréf frá móður ófædds barns“ (Október-desember 1986) og það kom miklu róti á tilfinningar mínar, vegna þess að ég er líka móðir ófædds barns. Ég á þrjú falleg börn og þegar ég virði þau fyrir mér skil ég ekki hvernig ég gat framið svona óhæfu. Þótt ég væri ekki í sannleikanum, þegar ég lét eyða fóstri, fann ég samt til sektar. Núna, eftir að ég hef kynnst okkar stórkostlega skapara, Jehóva, er það mér enn meiri kvöl að ég skuli hafa gert einni af sköpunarverum hans þetta. Ég vil líka ítreka það sem móðirinn sagði í bréfinu. Ef einhver er einhvers staðar að íhuga fóstureyðingu, þá á hann að hætta við. Minningin ásækir mann það sem eftir er ævinnar. Leitaðu Jehóva og réttlátra vega hans og treystu að hann hjálpi þér. Gerðu ekki sömu mistökin og við höfum gert.
Önnur sorgmædd móðir, Bandaríkjunum.