Ungt fólk spyr . . .
Hvernig get ég forðast ástarsorg?
HAFT er eftir sálkönnuðinum Erich Fromm: „Það er tæpast til nokkurt fyrirtæki sem menn binda jafnháleitar vonir og væntingar við í upphafi og ástin en bregst þeim jafnoft.“
Þegar slitnar upp úr rómantísku sambandi pilts og stúlku eru afleiðingarnar oft kvöl og sársauki. Og það eru hryggileg lífssannindi að eina örugga leiðin til að verða ekki fyrir ástarsorg er sú að gæta þess að verða ekki ástfanginn. Í huga kristins manns eru stefnumót að vísu alvörumál, leið til að velja sér heppilegan lífsförunaut. Slík kynni eru þó í eðli sínu hálfgerð happa-glappa aðferð. Þess vegna er ekki óalgengt að tveir einstaklingar byrji að hittast af góðum og göfugum ásetningi — en komist svo að raun um að þeir myndu ekki eiga vel saman sem hjón.
Ástföngnum unglingum er hætta búin
Sennilega er engum jafnmikil hætta búin í ástamálum og unglingum. Á ‚blómaskeiði æskunnar‘ ná ástríður holdsins hámarki. (1. Korintubréf 7:36, NW) Dr. Ari Kiev segir: „Hjá flestum unglingum spillir ruglingsleg kynhvöt . . . sambandinu við hitt kynið.“ Það er því ekkert undarlegt að unglingar skuli oft og auðveldlega verða ‚ástfangnir.‘ Ung kona að nafni Barbara segir: „Ég hitti þennan náunga. Við skrifuðumst á í um það bil ár. Þá sagði hann í einu bréfa sinna að hann elskaði mig. Ég sagði við sjálfa mig: ‚Við höfðum aðeins hist einu sinni. Hvernig í ósköpunum getur hann sagt svona?‘“
En jafnvel þegar piltur og stúlka á táningaaldri reyna að hemja ástríður sínar og rækta samband sitt á þeim grunni að þau eigi vel saman eru líkurnar litlar á að þau haldi áfram að eiga saman! Hvers vegna? Vegna þess að persónuleiki unglinga er í stöðugri breytingu. Þeir eru að uppgötva sjálfa sig, hverju þeim geðjast að og hvernig þeir vilja verja lífi sínu. Það sem þeim finnst mikilvægt í dag skiptir þá litlu á morgun. Ástarhrifning unglinga er því oft dauðadæmd og leiðir sjaldan til hjónabands.
Biblían mælir með að fólk gangi ekki í hjónaband fyrr en það sé „af blómaskeiði æskunnar.“ (1. Korintubréf 7:36, Ísl bi. 1912) Sé þessu viturlega ráði fylgt byrjar fólk ekki að draga sig saman meðan það enn er mjög ungt. Það er kannski ekki auðvelt en víst er að ‚þú hrindir gremju burt frá hjarta þínu og lætur eigi böl koma nærri líkama þínum‘ ef þú byrjar ekki að draga þig eftir einhverjum fyrr en þú ert orðinn nógu gamall til að ganga í hjónaband. — Prédikarinn 11:10.
Kapp er best með forsjá
Enginn er þó ónæmur fyrir ástarsorg þótt unglingsárin séu hjá. Í bók sinni Love Lives segir Carol Botwin nákvæmlega til um hvers vegna jafnvel fullorðnir verða stundum fyrir ástarsorg: „Þeir flýta sér allt of mikið . . . Þeir vilja skuldbinda sig allt of fljótt.“ Gefir þú einhverjum sem þú tæplega þekkir hjarta þitt er nánast víst að þú verðir fyrir ástarsorg.
„Þér horfið á hið ytra,“ sagði Páll postuli kristnum mönnum í Korintu. (2. Korintubréf 10:7) Gerðu ekki þau mistök með því að verða ástfanginn af ytra útliti einu saman. Reyndu fyrst að komast að raun um hvers konar persóna einstaklingurinn er. Ef aðstæður leyfa ekki að þú kynnist úr öruggri fjarlægð þeim sem þú hefur áhuga á gætir þú hugsanlega kannað með varfærni hvers konar orðstír hann hefur.
Biblían segir að verk vænnar eiginkonu skuli „lofa hana í borgarhliðunum.“ (Orðskviðirnir 31:31) Þú getur vænst þess að góður kristinn maður eða kona hafi góðan orðstír. Gættu þín ef í ljós kemur að hann hefur á sér vafasamt mannorð — er ef til vill kunnur fyrir að byrja að draga sig eftir einhverjum en hopar svo þegar alvara færist í leikinn. Ef hann hefur slíkt mannorð má vera að þínar tilfinningar verða fótum troðnar næst.
Að tala sannleikann
Jafnvel þegar einhver virðist hafa gott mannorð og þið hafið gagnkvæman áhuga hvort á öðru er enn of snemmt að byrja að skipuleggja brúðkaupið. Nánari athugun á þessum einstaklingi gæti leitt í ljós alvarlegan skapgerðargalla eða andlegan veikleika. Hvernig getur þú þá kynnst því hvaða mann hann hefur raunverulega að geyma? Þótt ekkert sé athugavert við sameiginlega afþreyingu af einhverju tagi þjónar samdráttartíminn tilgangi sínum best ef einnig fara fram alvarleg skoðanaskipti ykkar í milli. — Samanber Orðskviðina 15:22.
Hver eru markmið þín? Áhugamál? Hvert er viðhorf þitt til barneigna? Til þess að gera áætlanir um nýtingu tekna og fjármuna? Það er afarmikilvægt að þið ‚talið sannleikann hvort við annað‘ en hagræðið honum ekki af ótta við að missa þennan einstakling. (Efesusbréfið 4:25) Fyrr eða síðar kemur hvort sem er fram í dagsljósið hvaða mann þú hefur að geyma. Það er betra að þú látir hinn aðilann vita hver þú ert og hvað þú vilt fá út úr lífinu heldur en að stofna til sambands sem allar líkur eru á að endi með vonbrigðum — eða ömurlegu hjónabandi.
En hvað getur þú gert ef hinn aðilinn er með uppgerð í þeim tilgangi að halda sambandinu gangandi? Biblían aðvarar: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ (Orðskviðirnir 14:15) Ekki ber svo að skilja að þú eigir að vera óhóflega tortrygginn, en það er einungis skynsamlegt að reyna að ganga sjálfur úr skugga um hvort hátterni þessa einstaklings talar jafnháum rómi og orð hans.
Strax í upphafi ætti að kanna hvaða afstöðu hinn aðilinn hefur til mikilvægra mála — ekki draga það þar til síðar þegar tilfinningar ykkar beggja eru farnar að hafa of mikil áhrif. Steve var til dæmis að leita að konu er hefði jafnmikinn áhuga og hann á hinni kristnu þjónustu. Fljótlega kynntist hann stúlku sem honum þótti mjög aðlaðandi. Hann segir síðar: „En þá uppgötvaði ég að hún hafði engin sérstök markmið og var ekki mjög virk sem kristin kona.“ Steve gerði það sem viturlegt var og lét samband þeirra ekki ná lengra.
Of náin kynni
Með þessu er vakin athygli á annarri mikilvægri leið til að umflýja ástarsorg. Judy lýsir henni þannig: „Ég hef lært af fyrri reynslu að það er ekkert auðveldara en að láta tilfinningarnar ná tökum á sér. Stundum leyfir fólk hinum aðilanum að komast of nærri sér með þeim afleiðingum að jafnvel þegar það kemst að raun um að það elskar ekki hvort annað ber það slíkar tilfinningar í garð hins að það er hrætt við að særa hann.“
Stúlkan Súlamít á biblíutímanum gerði sér sýnilega vel grein fyrir því afli sem óbeisluð ástarhrifning býr yfir. Þegar hinn voldugi Salómon konungur fór að biðla til hennar sagði hún því stúlkunum, sem voru lagskonur hennar, að ‚vekja ekki elskuna fyrr en hún sjálf vildi.‘ (Ljóðaljóðin 2:7) Á sama hátt kann að vera hyggilegt fyrir þig að taka tilfinningar þínar föstum tökum á meðan þú ert að byrja að kynnast einhverjum.
Í því hlýtur að felast að forðast ótímabæra eða óviðeigandi ástarjátningu. Hér á við þessi meginregla: „Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki?“ (Orðskviðirnir 6:27) Að kyssast eða haldast í hendur snemma á kynningartímanum er gagnverkandi. Slíkar athafnir geta ekki aðeins vakið upp siðlausar langanir heldur einnig bælt niður góða dómgreind og hlutlæg viðhorf. Það er nánast ógerlegt að leggja hlutlægt mat á einstakling sem hefur vakið ástríður þínar. Auk þess er einfaldlega sársaukafyllra að slíta sambandinu, ef það sýnir sig ekki vera heppilegt, eftir alvarlega ástarjátningu í orði eða athöfnum.
Þegar Judy loks byrjaði að eiga stefnumót við ungan mann gætti hún þess vendilega að láta samband þeirra þroskast smátt og smátt og sá um að kynni þeirra yrðu ekki of náin fyrr en hún væri orðin tiltölulega örugg um að þetta væri maðurinn sem hún vildi giftast. „Þá vissi ég að mér væri óhætt að láta tilfinningar mínar til hans vaxa,“ segir hún.
Samdráttur tveggja einstaklinga getur boðið upp á annaðhvort hamingju eða óhamingju. Hvort verður veltur að miklu leyti á því hvernig þú lætur sambandið vaxa. Að vísu er engin leið til að tryggja að samband tveggja einstaklinga heppnist vel. Og jafnvel þótt allrar varúðar sé gætt er alltaf einhver hætta á ástarsorg. En ef þú byrjar ekki að eiga stefnumót við einhvern af hinu kyninu fyrr en þú ert tilbúinn að ganga í hjónaband, hefur stjórn á tilfinningum þínum og sýnir tilhlýðilega varúð, getur þú dregið stórlega úr hættunni á ástarsorg og aukið verulega líkurnar á að tilhugalífinu ljúki með farsælu hjónabandi.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Ástarhrifning unglinga leiðir sjaldan til hjónabands en oft til ástarsorgar.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Kynnstu hinum einstaklingnum vel áður en tilfinningarnar til hans verða of sterkar.