Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.7. bls. 19-22
  • Orsakir mengunarinnar leitaðar uppi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Orsakir mengunarinnar leitaðar uppi
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Allt er í vexti“
  • Ónóg þekking
  • Mannleg mistök og takmörk
  • Enn alvarlegri annmarkar
  • Banvæn uppskera mengunarinnar
    Vaknið! – 1988
  • Mengunin stöðvuð fyrir fullt og allt!
    Vaknið! – 1988
  • Hvernig hefur okkur gengið að bjarga jörðinni?
    Vaknið! – 2004
Vaknið! – 1988
g88 8.7. bls. 19-22

Orsakir mengunarinnar leitaðar uppi

VÍST eiga mörg okkar sjónvarpstæki, örbylgjuofna og einkatölvur. En hvar er ferska loftið, hreina fæðan og ómengaða vatnið sem við teljum okkar eiga rétt á? Hvers vegna virðist sú tækni, sem gat komið mönnum til tunglsins, vera ófær um að fullnægja þessum frumþörfum okkar? Hvers vegna ber æ meira á hinum banvænu áhrifum mengunarinnar?

„Allt er í vexti“

Prófessor Kurt Hamerak heldur því fram í þýsku vísindatímariti að „öll umhverfisvandamál orsakist í reynd af vexti, ekki síst hinni óvæntu og öru fólksfjölgun.“ Íbúatala heims hefur meira en tvöfaldast frá 1950. Auk þess búum við í því sem kallað er í riti frá Sameinuðu þjóðunum „heimur skyndilegs þéttbýlisvaxtar.“ Ætlað er að árið 2000 muni þrír fjórðu íbúa iðnríkja heims búa í borgum. Eftir því sem menn búa þéttar eykst mengunarhættan.

Þegar þeim fjölgar sem heimta varning er aukin þekking og tækni gerir mögulegan, þá eykst einnig iðnaðarframleiðsla og verslun. Það kallar á ný iðjuver og efnaverksmiður — nýja mengunarvalda. Þær þurfa á orku að halda þannig að reisa þarf ný raforkuver. Um það bil 400 þessara orkuvera í heiminum eru kjarnorkuver.

Frístundum fólks fer einnig fjölgandi. Það gefur því fleiri tækifæri til að herja á sveitir og óbyggðir sem oft hefur í för með sér aukna mengun lofts, láðs og lagar og stofnar jurta- og dýralífi í aukna hættu.

Í stað þess að stemma stigu við mengun hefur nútímasiðmenning í rauninni stuðlað að henni með því að ala á efnishyggju sem er blandin blessun þegar best lætur. Margt málsmetandi manna varar nú við því að óheftur vöxtur eigi eftir að hafa hinar alvarlegustu afleiðingar. G. R. Taylor segir í bók sinni The Doomsday Book: „Fram til þessa hefur svo virst sem efnishyggjuviðhorfið . . . hljóti að hrósa sigri. Nú eru skyndilega farin að sjást þess merki að það geti ekki hrósað sigri.“

Já, „allt er í vexti,“ segir prófessor Hamerak, „þar á meðal vandamálin.“ En það eru aðrar og veigameiri ástæður fyrir því að illa gengur í baráttunni við mengun.

Ónóg þekking

Til dæmis er „nánast ekkert vitað um samspil nokkurra mismunandi mengunarefna innan sama kerfis,“ að því er segir í The Doomsday Book. Það er einnig óvíst hve mikið magn eiturefna eða geislunar maður þolir áður en þau taka að hafa skaðleg áhrif. Eiturefnafræðingurinn L. Horst Grimme við háskólann í Bremen í Vestur-Þýskalandi heldur því fram að „ekki sé hægt að mæla áhættuna af framleiðslu, notkun og dreifingu mengunarefna.“ Hann telur enga leið að meta við hvaða stig ákveðið mengunarefni fari yfir þröskuldinn milli hins skaðlausa og hins skaðlega. „Í mörgum tilvikum vita sérfræðingar einfaldlega ekki nógu mikið til að geta ákvarðað hver séu viðunandi mengunarmörk,“ segir hann. Þar við bætist að rannsóknir eru svo skammt á veg komnar að enginn veit einu sinni í raun hver eru langtímaáhrif þeirrar mengunar sem telst undir ‚viðunandi mengunarmörkum.‘

Þá eru mikil vandkvæði á því að losna við eitruð úrgangsefni svo að hætta stafi ekki af þeim. Það er ekkert lítið vandamál því að hættuleg úrgangsefni, sem til verða aðeins í Vestur-Evrópu, skipta milljónum tonna ár hvert. (Sjá kort.) Algengast er að losna við úrgangsefni á sex mismunandi vegu: (1) sökkva þeim í sæ; (2) grafa í jörð; (3) setja í langtímageymslu; (4) meðhöndla með eðlisfræðilegum, efnafræðilegum eða líffræðilegum aðferðum; (5) brenna á landi eða sjó og (6) endurnýta og endurvinna. Engin þessara aðferða er fullkomlega viðunandi eða nægilega trygg.

Mannleg mistök og takmörk

Á stormasamri nóttu í marsmánuði árið 1978 bilaði stýrisbúnaður risaolíuskipsins Amoco Cadiz með þeim afleiðingum að það strandaði við Bretagne í Frakklandi. Yfir 200.000 tonn af óhreinsaðri olíu fóru í sjóinn, drápu um 10.000 fugla, spilltu ostruveiðum, menguðu hátt í 200 kílómetra strandlengju og skildu eftir risastóran olíuflekk á sjónum. Kæruleysi var um að kenna.

Enn hrikalegra atvik — annað dæmi um mannleg mistök — átti sér stað í aprílmánuði 1986. Alvarlegt slys í kjarnakljúf í Chernóbýl í Sovétríkjunum varð 30 manns að bana, stofnaði ótöldum þúsundum í lífshættu og olli því að flytja þurfti 135.000 Sovétborgara frá heimkynnum sínum. Tímaritið Wall Street Journal segir: „Margir vísindamenn segja að langtímaáhrif geislunarinnar, sem Sovétmenn og Evrópubúar urðu fyrir eftir kjarnorkuslysið, verði óþekkt í mörg ár. . . . [Þeir] búast við að hvítblæði og krabbamein í lungum, brjósti og skjaldkirtli færist í aukana.“ Að sögn sovéska dagblaðsins Pravda mátti rekja slysið til „ábyrgðarleysis, stórkostlegrar vanrækslu og agaleysis.“

Áþekk atvik hafa átt sér stað áður. Der Spiegel segir að „nokkrum sinnum hafi munað aðeins hársbreidd að mannkynið yrði fyrir stórslysi.“ Tímaritið segist hafa fengið aðgang að 48 af liðlega 250 skýrslum hjá Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni um óhöpp í kjarnorkuverum víða um heim, svo sem í Argentínu, Búlgaríu og Pakistan. Mörg þeirra mátti rekja til mannlegra mistaka, meðal annars takmarkaða bráðnun kjarnakleyfs efnis í kjarnorkuveri á Þriggja mílna eyju í Bandaríkjunum í marsmánuði 1979.

Mönnum er ekki aðeins hætt við mistökum heldur ráða þeir ósköp litlu um gang náttúruaflanna. Þar eð vindar blása að jafnaði frá vestri til austurs í Mið-Evrópu þurfa Vestur-Þjóðverjar að gera sér að góðu mengað loft sem berst til þeirra frá Englandi, en Austur-Þýskaland og Tekkóslóvakía bera hitann og þungann af menguðu lofti frá Vestur-Þýskalandi. En vindarnir geta verið hverflyndir. Þegar kjarnorkuslysið varð í Chernóbýl breyttist vindáttin með þeim afleiðingum að Pólland, Eystrasaltslöndin og Skandinavía — að ekki sé minnst á Sovétríkin sjálf — urðu fyrir meiri mengun af geislavirku ryki en aðrir hlutar Evrópu.

Enn alvarlegri annmarkar

Oft vantar á heiðarleika og hlutlægni þegar lagt er mat á staðreyndir er snerta mengun. Umhverfisverndarsinnum hættir til að ýkja hin neikvæðu viðhorf til stuðnings máli sínu en andstæðingum þeirra að gera sem mest úr hinum jákvæðu. Til dæmis segir heimildarmaður um mengun í ám: „Verulegur hluti Saxelfar, sem taldist mjög fiskauðug meðal evrópskra áa um aldamót, hefur nú lengi verið líffræðilega dauður.“ Hinu sama hefur verið haldið fram um Rín, einkanlega eftir slysið í Sandoz. Talsmaður efnaiðnaðarins heldur því hins vegar fram að „jafnvel eftir eldsvoðann í Sandoz sé Rín betur á sig komin en hún var fyrir áratug.“

Strangt til tekið kann það að vera rétt, vegna þess að margt benti til þess árið 1983 að lög um mengunarvarnir væru tekin að skila árangri og Rín farin að ná sér merkjanlega á strik. Og tímaritið National Geographic segir um Thames-ána á Bretlandseyjum: „Á síðastliðnum 30 árum hefur mengun minnkað um 90 af hundraði.“ Þessi árangur hefur náðst aðeins með samstilltu átaki. Að sögn blaðamannsins Thomas Netter vantar það í fjölmörgum löndum því að „umhverfisslys er enn þá skoðað mjög víða sem vandamál einhvers annars.“

Vafalaust er þetta ein ástæðan fyrir því að stjórnir landa eiga í svo miklum erfiðleikum með að sameinast um alþjóðareglur gegn mengun og eftirlit með henni. Um langt árabil hvorki gekk né rak hjá Kanadamönnum og Bandaríkjamönnum að komast að samkomulagi um baráttu gegn súru regni. Loksins varð þeim nokkuð ágengt árið 1986. Fram að þeim tíma var „sýruregnið dautt í vötnunum alveg eins og fiskurinn,“ eins og kanadískur embættismaður komst að orði. Og þótt 31 ríki hafi árið 1987 gert samkomulag um að draga um helming úr framleiðslu og notkun úðabrúsa, sem virðast vera að eyðileggja ósonlagið um jörðu, verður því marki ekki náð fyrr en um aldamót. Efnahagsbandalag Evrópu valdi árið 1987 sem „umhverfisár“ í því skyni að stuðla að meiri samvinnu á alþjóðavettvangi.

Lítill árangur mun þó nást svo lengi sem ágjarnir menn halda vitandi vits áfram að menga umhverfi sitt með gróðasjónarmið að leiðarljósi eða eigingirni kemur mönnum til að gera það í þægindaskyni. Eigi árangur að nást verður hann að byggjast á umhyggju manna fyrir velferð hvers annars og vilja til að axla persónulega ábyrgð. „Mengunarvarnir byrja á heimilinu — það er ég sannfærður um,“ segir þýski umhverfismálaráðherrann Klaus Töpfer. Sérhver samfélagsþegn verður að leggja sitt af mörkum. Litli maðurinn getur sjálfréttvís bent ásakandi á stóra manninn — efnaverksmiðjur og iðjuver — en er litli maðurinn nokkru betri ef hann skilur eftir rusl á víð og dreif með eigin höndum?

Biblían sagði fyrir að „á síðustu dögum“ myndu menn verða „sérgóðir, fégjarnir, . . . ósáttfúsir . . . ekki elskandi það sem gott er.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Með því að þetta eru þeir eiginleikar sem stuðla að mengun kann framtíðin að virðast fremur skuggaleg. Við höfum þó ástæðu til að trúa að þeim hindrunum, sem standa í vegi fyrir mengunarlausum heimi, verði rutt úr vegi — og það bráðlega!

[Rammi á blaðsíðu 20]

Hindranir í baráttu mannsins gegn mengun

◼ Stjórnlaus vöxtur

◼ Þekkingarskortur

◼ Mannleg mistök

◼ Óviðráðanleg náttúruöfl

◼ Eigingirni og skeytingarleysi fyrir velferð annarra

[Kort/Mynd á blaðsíðu 21]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

Áætluð ársframleiðsla eitraðra úrgangsefna í tonnum

Finnland 87.000

Noregur 120.000

Svíþjóð 550.000

Holland 280.000

Bretland 1.500.000

Vestur-Þýskaland 4.892.000

Sviss 100.000

Frakkland 2.000.000

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila