Kristni heimurinn fetar í fótspor Kanverja
TRÚ Kanverja fól í sér saurlifnað, hjúskaparbrot, kynvillu og barnamorð. Landið spjó þeim vegna alls þessa. Ísraelsmenn hermdu eftir trúariðkunum Kanverja og blönduðu svívirðilegum athöfnum hennar saman við tilbeiðsluna á Jehóva, og landið spjó þeim einnig. Núna eru til þjóðir og trúfélög sem segjast vera kristin en herma þó eftir þessu siðleysi fortíðarinnar. Saurlífi og hjúskaparbrot eru hluti dagslegs lífs. Kynvilla og dráp ófullburða barna í móðurkviði eru í algleymingi. Óvelkomnum börnum var fórnað í hundraðatali í Kanaan; núna er þeim fyrirkomið í milljónatali — 55 milljónum á ári. — Samanber 2. Mósebók 21:22, 23.
Mörg kirkjufélög hafa ekki vilja láta stimpla sig tepruleg eða gamaldags og hafa því hlaupið í takt við tíðarandann „allt er leyfilegt.“ Sum kirkjufélög hvetja jafnvel til „hættulausrar syndar“ í kynferðismálum, samanber prestinn í únitarakirkjunni sem gerði hlé á ræðu sinni til að útbýta verjum til safnaðarins.
Dálkahöfundur, sem tilheyrir biskupakirkjunni, sagði: „Biskupakirkja níunda áratugarins er guðfræðilega uppstoppunarvinnustofa. Það er hægt að treysta henni til að stoppa upp og stilla út í glugga hverjum þeim tískufyrirbærum þjóðfélagsins sem virðast nýjust af nálinni. Sum árin eru það stjórnmál, á þessu ári er það kynlíf.“ Hann nefnir námsefni til kynferðisfræðslu sem staðhæfir að „kristnir menn eru á eftir tímanum í því að vilja ekki sætta sig við kynlíf samkynhneigðra . . . og alsælu ógiftra.“ Biskup þessarar kirkju í New York telur að „ábyrgt samband samkynhneigðra muni einn góðan veðurdag hljóta viðurkenningu sem Guðs vilji.“
Roy Howard Beck, sem tengdur er trúartímaritinu United Methodist Reporter, segir í bók sinni On Thin Ice: „Sjónvarpskristniboðar, prédikarar hefðbundinna kirkna með hárri turnspíru, biskupar, kunnir leiðtogar náðargáfuhreyfinga, nafntogaðir forystumenn úr röðum leikmanna, dáðir prestar smárra kirkjufélaga, kaþólskir prestar, hvítasunnumenn, frjálslyndir, íhaldsamir — og þannig mætti lengi telja — hafa verið staðnir að verki [siðleysi]. Þetta er ekki fagur vitnisburður um hlutverk kirkjunnar í því að bæta þjóðfélagið!“ — Bls. 214.
Englandskirkja
Löggjafarþing Englandskirkju, hið almenna kirkjuþing, kom saman í nóvember árið 1987 til að ræða tillögu þess efnis að sú afstaða skyldi ítrekuð að „saurlífi, hórdómur og kynvillumök séu syndsamleg.“ Aðalritari kristilegrar hreyfingar samkynhneigðra lýsti yfir: „Ef þessi tillaga yrði samþykkt myndi það leggja kirkjuna í rúst og erkibiskupinn af Kantaraborg veit það. Við teljum að einhvers staðar á bilinu 30 til 40 af hundraði presta Englandskirkju séu samkynhneigðir.“
Fréttaritarinn Filippa Kennedy sagði í enska dagblaðinu Daily Express þann 29. október 1987: „Árás Margaretar Thatcher á kirkjuleiðtoga fyrir það að veita ekki þjóðinni fullnægjandi siðferðilega forystu mun lífga upp á það sem lítur út fyrir að ætla verða einhver fjörugusta prestaátök þessa áratugar. Því að það er ekki bara forsetisráðherrann sem álítur að biskupar almennt, og þó sér í lagi erkibiskupinn af Kantaraborg, séu hópur af tvístígandi þvaðurskjóðum.“
Tillagan var rædd þann 11. nóvember 1987. Hún reyndist einum of stór biti fyrir kirkjuþingið að kyngja og var varpað fyrir róða með lítilsigldri breytingartillögu sem hlaut yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þar varð því ekkert úr ‚einhverju fjörugustu prestaátökum þessa áratugar.‘ Þau runnu út í sandinn. Biskuparnir börðust við skuggann sinn, viku sér undan höggi, skjögruðu, slógu út í loftið og hopuðu.
Ákvörðun hins almenna kirkjuþings var þessi: Ímynd hins fullkomna eru kynmök í traustu hjónabandi; saurlífi og hórdómur eru syndir gegn ímynd hins fullkomna; kynvillumök vantar nokkuð á að vera ímynd hins fullkomna og allir kristnir menn eiga að vera til fyrirmyndar á öllum sviðum siðferðismála, þeirra á meðal í kynlífi. Kynvillumök voru flokkuð sem saklausari en saurlífi og hórdómur — hið síðarnefnda synd gegn ímynd hins fullkomna, en kynvillu vantaði aðeins nokkuð á að vera ímynd hins fullkomna. Saurlífismönnum skal ekki vikið úr kirkjunni. Hórdómsmönnum skal ekki vísað frá. Kynvilltir prestar hvítþvegnir.
Lúður kirkjuþingsins hafði gefið frá sér óskilmerkilegt hljóð og upprunaleg tillaga sóknarprestsins Tony Hightons fór í vaskinn. (1. Korintubréf 14:8) Þótt undarlegt kunni að virðast greiddi hann þó atkvæði með hinni kraftlausu útgáfu og var „mjög, mjög ánægður með árangurinn. Það eru vandskilin viðbrögð með tilliti til þess sem hann hafði látið sér um munn fara nokkru áður. „Ef kirkjan kemur ekki reglu á heimili sitt,“ sagði hann ógnandi, „þá mun Guð dæma það.“
Á þinginu hafði Highton lagt fram skjalfestar sannanir gegn kynvilltum klerkum sem ollu nokkrum æsingi. Einn var fundinn sekur um kynferðislega misnotkun barna en einungis fluttur í aðra sókn. Annar prestur, fundinn sekur um gróflega ósæmilega hegðun á almenningssalerni, var fluttur í annað biskupsdæmi þar sem hann var fundinn sekur um annað áþekkt brot — en þó ekki sviptur hempunni. Highton skýrði frá því að kynvilltir prestar Englandskirkju í Lundúnum hafi starfrækt bóksölu í kirkjunni til „að selja rit sem talin voru hvetja til kynvillu og fjöllyndis, kynvilluvændis og alls kyns kynvilluathafna.“ Ein bók í bóksölunni er sögð hafa sýnt „fimm ára stúlku í rúminu með föður sínum og ástmanni hans.“
Hvernig í ósköpunum gat Highton verið „mjög, mjög ánægður“ úr því að sönnunargögnin, sem hann lagði fram, voru virt að vettugi? Vafalaust vegna þess að prestar ensku kirkjunnar eru blíðar sálir sem auðvelt er að gera til geðs. Eins og sagði í frétt einni: „Það verður að játa að engu af þessum hneykslismálum hefur verið tekið með þrumugný heldur því blíða úðaregni sem anglíkanar sérhæfa sig í.“
Kynvilltir klerkar voru skiljanlega hinir ánægðustu. „Kirkjuþingið hefur greinilega veitt samfélagi samkynhneigðra hlutdeild í lífi og starfi kirkjunnar,“ sögðu þeir. Þegar allt kom til alls hafði erkibiskupinn af Kantaraborg „haldið því fram að kirkjan ætti ekki að fordæma agaða og ábyrga samkynhneigða einstaklinga.“ Hann hafði sagt: „Ég held því fram að sá sem er samkynhneigður af náttúrunnar hendi sé fullgild mannvera.“
„Samkynhneigður af náttúrunnar hendi,“ sagði erkibiskupinn af Kantaraborg. Eru kynvillingar þá dæmdir til að vera slíkir vegna erfða? Sumir halda því fram og segja að kynvilla sé „sálfræðilegt frumeinkenni sem er komið á undan sérhverju siðferðilegu vali.“ Að sögn Lundúnablaðsins The Times vísuðu þeir á bug afstöðu Páls postula, sem undir innblæstri fordæmdi kynvillu, og sögðu hann „hálfteprulegan.“
Sir Immanuel Jakobovits, aðalrabbíni, dró í efa að færðar hefðu verið sönnur á „slíka náttúrlega samkynhneigð“ og sagði: „Það er komið út á hálan ís þegar farið er að tala um náttúrlega hneigð, og það gæti leitt til þess að öll siðgæðisregla hryndi . . . Við getum ekki sætt okkur við það í neinu þjóðfélagi að náttúrleg löngun ein sér nægi til þess að maður sé sýkn saka. Við verðum að vera herrar náttúrunnar, ekki fórnarlömb.“
Erkibiskupinn af Kantaraborg afbakaði orð Jesú og umsneri uns þau gáfu í skyn að kynvilltir ættu heima í kristinni kirkju. Hann sagði: „Í hinni jarðnesku tjaldbúð kirkju Krists eru margar vistarverur, og þær eru allar gerðar úr gleri.“ (Samanber Jóhannes 14:2.) Hann var með öðrum orðum að segja: ‚Kastaðu ekki steinum að öðrum, ekki einu sinni kynvilltum, því að það er líka vistarvera handa þeim í kirkju Krists.‘
Biskupinn af Chester, Michael Baughen, hélt því fram að „gríska Nýjatestamentisins réttlæti að ítrekuð sé kennisetning ensku kirkjunnar þess efnis að sýna skuli samkynhneigðum ‚ást, hryggð, tilfinninganæmi og skilning,‘“ að kynvilla sé í Ritningunni átalin aðeins sem „spor af réttri braut.“ Það sem Ritningin segir í reynd er að kynvillingar muni ekki erfa Guðsríki og séu „dauðasekir“ nema þeir breyti háttarlagi sínu. — Rómverjabréfið 1:27, 32; 1. Korintubréf 6:9-11.
Svo aftur sé vitnað í dagblaðið The Times sannaði kirkjuþingið „þá margþvældu ásökun að Englandskirkja trúi engu og leyfi allt“ og staðfesti „eltingaleik sinn við hvikula tísku — hún gleypir eins og guðspjall sérhvert nýtt, frjálslynt tískufyrirbæri.“ Undir fyrirsögninni „óheillaverk kirkjunnar“ sagði Liverpool Daily Post: „Leiðtogar Englandskirkju virðast í vaxandi mæli ófærir um að láta glymja hátt og skýrt hvað þeir telji rétt og rangt.“ Eins og The Economist sagði með nokkurri kaldhæðni: „Englandskirkja er andvíg kynvillu, en ekki mjög mikið.“
Undir fyrirsögninni „Ofsareiði yfir afstöðu kirkjuþings til kynvilltra“ vitnaði Daily Post í fjölmarga þingmenn íhaldsflokksins. Einn þeirra kallaði ákvörðun kirkjuþings „skammarlega og huglausa.“ Annar sagði: „Ég óttast að kynvilla hafi nú náð öruggri fótfestu meðal prestastéttar Englandskirkju og innan Englandskirkju sjálfrar.“ Sá þriðji mælti: „Þessi atkvæðagreiðsla — ég kysi heldur að kalla hana smánarlegt óheillaverk — stofnar börnum í hættu. Fjöldi kynvillinga, sem tekst ekki að finna sér bólfélaga, tekur að sækja á krakka, og börn og unglingar sem sækja kirkju eru svo varnarlausir. . . . Með berum orðum sagt hefur kirkjunni mistekist að uppræta siðspillingu innan eigin vébanda.“
Rómversk-kaþólska kirkjan
Kaþólska kirkjan lætur umbúðalaust í ljós vanþóknun sína á kynvillu og kallar hana grófa synd. En í reynd heldur kirkjan hlífiskildi yfir sekum prestum og gerir þeim jafnvel kleift að halda áfram siðspillingu sinni. Víst talaði Jóhannes Páll páfi II hlýlega til kynvilltra er hann lýsti yfir: „Þeir eiga sér rúm í hjarta kirkjunnar.“
Óháð kaþólskt dagblað, National Catholic Reporter, sagði þann 27. febrúar 1987 að kynvilltir klerkar áætluðu að helmingur kaþólskra presta í Bandaríkjunum væri kynvilltur. Sú tala er umdeild. Sálfræðingur segir 20 prósent hinna 57.000 kaþólskra presta í Bandaríkjunum vera kynvillta, og byggir þá tölu á 1500 viðtölum, en nýlegri fregnir eru á þá lund að „aðrir læknar telji 40 af hundraði vera nærri lagi.“
Fyrir meira en ári fluttu bandarísk dagblöð um landið þvert og endilangt fréttir af kynferðislegri misnotkun kaþólskra presta á börnum. Eftirfarandi frétt úr Mercury News í San Jose í Kaliforníu þann 30. desember 1987 er dæmigerð:
„Samtímis og þjóðin er sér mjög meðvitandi um kynferðislega misnotkun barna vitna réttarskjöl, kirkjulegar heimildir, borgaraleg yfirvöld og fórnarlömbin sjálf um að kaþólska kirkjan í Bandaríkjunum heldur áfram að láta sem hún sjái ekki og hylma yfir með prestum sem misnota börn kynferðislega.
Embættismenn kirkjunnar halda því fast fram að alkunnugt mál í Louisiana, þar sem prestur misnotaði kynferðislega að minnsta kosti 35 drengi, hafi kennt þeim að taka vandamálið föstum tökum. Þriggja mánaða athugun á vegum Mercury News leiðir í ljós að í meira en 25 biskupsdæmum um landið þvert og endilangt hafa kirkjuleg yfirvöld látið undir höfuð leggjast að tilkynna yfirvöldum slík atvik, hafa flutt presta seka um kynferðislega misnotkun í aðrar sóknir, skellt skollaeyrunum við kvörtunum foreldra og haft að engu þann skaða sem fórnarlömbin, börnin, kunna að hljóta af. . . . Fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra hafa nú þegar verið greiddar milljónir dollara í skaðabætur, og í skýrslu frá kirkjunni árið 1986 er áætlað að skaðabótaskylda kirkjunnar gæti farið upp í einn milljarð dollara á næsta áratug.“
Hið ‚alkunna mál í Louisiana árið 1985,‘ sem nefnt var í frétt Mercury News, varðaði prest að nafni Gilbert Gauthe. „Fórnarlömb hans hafa fengið 12 milljónir dollara.“ Kynvilla Gauthes var þekkt í fjöldamörg ár en ‚biskupsdæmið tók á vandamálinu með því að flytja hann að minnsta kosti þrívegis milli sókna.‘ Í einu tilviki „báru foreldrar vitni um að Gauthe hafi misnotað kynferðislega sjö ára son þeirra frá fyrsta degi hans sem altarisdrengur og í heilt ár eftir það, uns presturinn var fluttur.“
Fréttin gat einnig um „þann skaða sem börnin verða fyrir.“ Stundum er skaðinn óbætanlegur. Tólf ára drengur svipti sig lífi og lét eftir sig bréf þar sem hann sagði að ‚það væri ekki þess virði að lifa‘ eftir að „fransiskumunkur hafi í reynd gert hann að kynþræli sínum.“ Annar drengur, sem prestur misnotaði kynferðislega, hengdi sig eftir að hafa sagt bróður sínum: „Segðu föður S.— að ég fyrirgefi honum.“
Oftast eru það drengir sem eru misnotaðir kynferðislega en stúlkur þó einnig. Dagblaðið Plain Dealer í Cleveland sagði þann 19. desember 1987 frá 16 ára stúlku og foreldrum hennar sem höfðuðu mál árið 1986 gegn sjö prestum fyrir kynferðislega misnotkun. Stúlkan hafði orðið barnshafandi og prestarnir hvatt hana til að láta eyða fóstri. Þegar hún neitaði reyndu þeir að fá hana senda til Filippseyja til að breiða yfir þungunina. Kaþólska kirkjan er víst andvíg kynvillu og fóstureyðingum, en bersýnilega ekki þegar hennar eigin prestar eiga hlut að máli.
Óteljandi blaðafréttir segja frá ákveðnum dæmum um kaþólsk börn sem kaþólskir prestar hafa misnotað kynferðislega, frá milljónum dollara sem greiddar eru til að útkljá dómsmál, frá fjölmörgum málum sem útkljáð eru án þess að til réttarhalda komi og frá tryggingafélögum sem „eru hætt að tryggja presta gegn skaðabótakröfum vegna kynferðislegrar misnotkunar.“
Thomas Fox, sem er ritstjóri við dagblaðið National Catholic Reporter, segir: „Biskupar um allt land hafa um árabil haldið vandanum leyndum.“ Eugene Kennedy, fyrrum prestur og nú sálfræðiprófessor við Loyola University, segir: „Það sem kemur til kasta dómstólanna er aðeins brot af vandanum.“ Thomas Doyle, dóminíkanskur prestur og sérfræðingur í kirkjurétti, lýsir yfir: „Kynferðisleg misnotkun presta á smádrengjum er stærsta og alvarlegasta vandamálið sem við höfum átt við að glíma um aldaraðir.“
Hvað segir Biblían?
Hún segir: „Guð [hefur] ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa líka karlmenn hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar. Þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir. Samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum.“ — Rómverjabréfið 1:26, 27, 32.
Annars staðar segir Biblían: „Vitið þér ekki, að ranglátir munu ekki Guðs ríki erfa? Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Vers 11 bætir við: „Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast.“ Ef syndarar, sem höfðu gerst hreinlífir kristnir menn, sneru aftur til óhreinleika síns voru þeir gerðir rækir. „Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi.“ (1. Korintubréf 5:11-13) Ekki er svo að skilja að aldrei séu drýgðar syndir innan kristna safnaðarins, heldur hitt að þegar þær eiga sér stað annaðhvort iðrast syndarinn eða er gerður rækur.
En fæst af trúarsamfélögum kristna heimsins gera andlega hreint hjá sér með því að losa sig við saurlífismenn, kynvillinga og hórdómsmenn. Ísraelsmenn sögðust þjóna Jehóva um leið og þeir stunduðu kynferðisdýrkun. (2. Kroníkubók 33:17) Söfnuðir kristna heimsins segja líka ‚Drottinn, Drottinn,‘ jafnvel þótt siðleysi standi í miklum blóma á meðal þeirra. „Er ekki svo: Stela, myrða, drýgja hór, sverja meinsæri, færa Baal reykelsisfórnir og elta aðra guði, er þér ekki þekkið,“ spyr Jehóva, „og síðan komið þér og gangið fram fyrir mig í þessu húsi, sem kennt er við nafn mitt, og segið: ‚Oss er borgið!‘ og fremjið síðan að nýju allar þessar svívirðingar.“ — Jeremía 7:4, 8-10.
Jehóva lætur ekki að sér hæða; sérhver maður mun uppskera það sem hann sáir. (Galatabréfið 6:7) Orð Jehóva fyrir munn Jeremía er í jafnmiklu gildi núna og það var þegar spámaðurinn mælti við Ísrael: „Þeir munu hljóta að skammast sín fyrir að hafa framið svívirðing! En þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er, að blygðast sín.“ — Jeremía 6:15.
Jehóva fer ekki í manngreinarálit. Hann gerir ekki upp á milli manna. Kristni heimurinn mun hljóta sömu örlög og Kanaan, sömu örlög og Ísrael. — Postulasagan 10:34; sjá Opinberunarbókina 21:8.
[Innskot á blaðsíðu 7]
Biskupakirkjan: „Kristnir menn eru á eftir tímanum í því að vilja ekki sætta sig við kynlíf samkynhneigðra.“
[Innskot á blaðsíðu 8]
„Við teljum að einhvers staðar á bilinu 30 til 40 af hundraði presta Englandskirkju séu samkynhneigðir.“
[Innskot á blaðsíðu 9]
Hylmt yfir með „prestum sem misnota börn kynferðislega.“
[Innskot á blaðsíðu 10]
„Skaðabótaskylda kirkjunnar gæti farið upp í einn milljarð dollara á næsta áratug.“
[Innskot á blaðsíðu 10]
Unglingur, sem prestur hafði misnotað kynferðislega, hengdi sig.
[Innskot á blaðsíðu 11]
Stúlka varð barnshafandi eftir prest; hann hvatti hana til að eyða fóstri.
[Innskot á blaðsíðu 11]
„Þeir skammast sín ekki og vita ekki hvað það er, að blygðast sín.“