Ungt fólk spyr . . .
Hvernig get ég notað peningana mína skynsamlega?
„UNGT fólk hér á landi er alið upp núna til að eyða peningum,“ sagði Lester Rand eftir að hafa kannað peninganotkun unglinga í Bandaríkjunum. Rand heldur því fram að bandarískir unglingar hafi eytt jafnvirði 39,1 milljarðs dollara á einu ári! Og í hvað fer allt þetta fé?
„Ýmiss konar skemmtun, einkum tónlist, er ofarlega á blaði hjá næstum öllum,“ segja tveir bandarískir rannsóknarmenn að nafni Norman og Harris. „Unglingar, sem hafa bíl til umráða, eyða stærstum hundraðshluta peninga sinna í bensín, viðgerðir og almennt viðhald. Fjöldamargir kaupa alls konar sjoppumat fyrir peningana sína, aðallega pizzur, gosdrykki og hamborgara. Stúlkur virðast eyða meiru í föt en piltar, og að sjálfsögðu eru unglingsstúlkur ómissandi fyrir snyrtivöruiðnaðinn.“
Þeir sem ungir eru þurfa að sjálfsögðu að eyða einhverju fé í ferðakostnað, mat og skemmtun. Það eru eðlileg útgjöld. En skyldu allir unglingar fara viturlega með peningana sína? Og er sanngjarnt að útivinnandi unglingar noti allar sínar tekjur til eigin þarfa?
Hagsýni
Flestu ungu fólki finnst gaman að fara í verslanir, einkanlega ef það hefur peninga í vasanum sem það má eyða. Þá er freistandi að kaupa allt sem mann langar í. En er það hyggilegt?
Í könnun sem gerð var á Englandi og náði til 600 manns kom í ljós að 62 af hundraði fimmtán til nítján ára unglinga, sem spurðir voru, létu að minnsta kosti stundum hugdettu eða tilfinningu augnabliksins koma sér til að kaupa eitthvað. (Adolescence haustið 1982) Til að forðast það er gott að yfirvega fyrirfram hvað þig vantar, hripa niður innkaupalista og halda þér svo við hann þegar þú ferð út að versla. Í bók sinni Options ráðleggja höfundarnir Shaw og Berry enn fremur: „Þegar þú ferð út að versla skalt þú ekki taka með þér meiri peninga en þú þarft í það skipti eða hrökkva fyrir því sem þú ætlaðir þér að kaupa áður en þú lagðir af stað út í verslunina.“
Tímaritið Adolescence nefnir einnig að fullorðnir horfi meira í gæði og endingu þegar þeir kaupa föt, en unglingar hugsi meira um hvað sé í tísku. Ert þú þannig þenkjandi? Þá er hyggilegt af þér að breyta eilítið innkaupavenjum þínum. Áður en þú eyðir peningum, sem unnið hefur verið fyrir hörðum höndum, skaltu íhuga hve lengi flíkin muni endast þér. Fáein ár eða verður hún komin úr tísku eftir nokkra mánuði?
Hugsaðu líka um gæðin. Ódýr flík í lélegum gæðaflokki getur verið dýrari til langs tíma litið vegna viðgerða eða skammrar endingar heldur en dýrari og vandaðri flík. Berðu saman úrval og gæði í nokkrum verslunum. Athugaðu hvaða efni fötin eru gerð úr. Er hægt að þvo flíkina eða þarf að hreinsa hana? Slíkt ættir þú að skoða áður en þú kaupir föt.
Ung stúlka að nafni Lyshondra hefur lært góða innkaupasiði af foreldrum sínum. Hún segir: „Venjulega fer ég út að versla með móður minni og hún hefur kennt mér að fá meira fyrir peningana með því að hafa augun opin fyrir útsölum.“ Margir bíða með fatakaup þar til á árstíðabundnum útsölum. Phyllis, ung kona sem hefur töluverða reynslu í því að leita uppi góð tilboð, bætir við: „Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma keypt eitthvað fullu verði. Ég leita að vörum á tilboðsverði og fer gjarnan í verslanir þar sem notaður varningur er til sölu. Fólk heldur að fötin mín séu ný!“
Taktu þátt í rekstrarkostnaði heimilisins
Vinnur þú hluta úr degi utan skólatímans? Ef þú gerir það, notar þú þá allar tekjurnar fyrir sjálfan þig og hugsar með þér að það sé hlutverk foreldra þinna að sjá fyrir þér? Hvenær heldur þú að foreldrar þínir hafi síðast notað peninga handa sjálfum sér? Eru þeir ekki vanir að nota stærstan hluta tekna sinna handa allri fjölskyldunni? Væri þá ekki sanngjarnt að þú hjálpaðir þeim að rísa undir rekstrarkostnaði heimilisins?
„Það geri ég líka,“ svarar Stephanie. Hún og þrír aðrir úr fjölskyldunni eru vottar Jehóva og þjóna sem boðberar trúarinnar í fullu starfi. „Það er nauðsynlegt,“ segir hún, „og líka lærdómsríkt vegna þess að það er hvergi hægt að lifa án þess að greiða fyrir fæði og húsnæði.“ Ungur maður að nafni Albert bætir við: „Ég skulda foreldrum mínum það. Ef ég byggi ekki heima yrði ég að gera það hvort eð er. Mér finnst ég eiga að leggja mitt fram.“
Að vísu er alls ekki víst að foreldrar þínir ætlist til að þú leggir fram til heimilisins. En ungur maður, Tommy að nafni, hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Mér finnst það bara sanngjarnt. Þau fæddu mig í heiminn og hafa séð fyrir mér allt til þessa, þannig að mér ber hreinlega að gera eitthvað til að endurgreiða þeim það.“
Örlæti hefur blessun í för með sér
„Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta,“ segir í Orðskviðunum 11:25 í Biblíunni. Þegar þú færð útborgað er freistandi að hugsa um allt sem þú getur nú keypt þér. En Jesús minnir okkur á þetta: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Postulasagan 20:35.
Að sjálfsögðu þarft þú að gæta jafnvægis. Það er ekki nauðsynlegt, til að vera örlátur, að gefa svo mikið að þú verðir sjálfur hjálparþurfi. „Ég kaupi fullt af gjöfum, og peningarnir mínir hreinlega hverfa út í buskann,“ segir ung stúlka. „Ég held að 85% af peningunum mínum fari í gjafir.“ En gleymdu þó aldrei að Guð veitir athygli góðverkum sem sprottin eru af réttum hvötum. Orðskviðirnir 19:17 segja: „Sá lánar [Jehóva], er líknar fátækum, og hann mun launa honum góðverk hans.“
Orðskviðirnir 3:9, 10 benda á annað svið þar sem örlæti og gjafmildi er við hæfi. „Tigna [Jehóva] með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar, þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.“ Á biblíutímanum var tilbiðjendum Jehóva í Ísrael skylt að gefa frumgróða uppskeru sinnar til þjónustu Jehóva. Þetta framlag var til framfærslu levítaprestunum sem þjónuðu við musterið í Jerúsalem. Þótt vottar Jehóva nú á tímum tilbiðji ekki Guð í bókstaflegu musteri gera þeir sér ljóst að það kostar eigi að síður fé að halda við og reka ríkissalina þar sem þeir koma saman til tilbeiðslu. Átján ára piltur, Albert að nafni, segir: „Ég hef sett mér það markmið að leggja eitthvað fram í hvert sinn sem ég kem í Ríkissalinn.“
Forðastu öfund
Unglingar hafa að sjálfsögðu mismikil fjárráð. Það er auðvelt fyrir þann sem hefur minna handa á milli en aðrir virðast hafa að finna til öfundar. Ungur piltur að nafni Darnell játar til dæmis: „Ég hef tilhneigingu til að velta fyrir mér hvað aðrir hafa og segja við sjálfan mig: ‚Bara að ég ætti svona mikið.‘“ En hann reynir að berjast gegn þessari tilfinningu í stað þess að gefa henni lausan tauminn.
Það er í sjálfu sér engin synd að langa í eitt eða annað. En leyfir þú sjálfum þér að verða leiður eða óhamingjusamur ef þú hefur ekki ráð á einhverju sem þig langar í? Lætur þú jafnvel gerjast með þér illvilja í garð þeirra sem eru svo lánsamir að hafa meira handa á milli en þú? Þá ættir þú að muna eftir ráðleggingu Jesú Krists í Lúkasi 12:15: „Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“
Þeir verða alltaf til sem hafa meira úr að spila en þú og það leiðir einungis til óhamingju og erfiðleika að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu. Páll postuli minnir okkur á þetta: „Því að ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:7, 8.
Peningar geta verið þarfur þjónn þeirra sem sjá þá í réttu ljósi. Lærðu að leggja fé til hliðar, spara. Lærðu að fara varlega með féð og nota það skynsamlega. Peningar eru lífsnauðsynlegir og geta gert mönnum lífið þægilegra, en eins og ungur maður að nafni Matthew segir: „Peningar eru nauðsynlegir en þeir eru ekki allt. Þeir eru ekki aðalatriðið. Við þurfum peninga til að lifa en þeir ættu aldrei að verða mikilvægari fjölskyldu okkar eða Jehóva.“
[Innskot á blaðsíðu 27]
Vertu hagsýnn í innkaupum. Hugsaðu um verð og gæði.
[Innskot á blaðsíðu 27]
Peningar geta verið þarfur þjónn. Lærðu að spara og fara skynsamlega með þá.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Bandarískir unglingar eyddu 39,1 milljarði dollara á einu ári!
[Mynd á blaðsíðu 28]
Hjálpar þú til við að standa undir útgjöldum fjölskyldunnar ef þú vinnur úti?