Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.10. bls. 23-25
  • Ert þú alltaf seinn?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ert þú alltaf seinn?
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sálfræðilegar orsakir
  • „En ég vinn best undir álagi!“
  • Leiðist þér að bíða?
  • Launaðu sjálfum þér góða frammistöðu
  • Stundvísi
    Vaknið! – 2016
  • Temjum okkur stundvísi
    Ríkisþjónusta okkar – 2014
  • Hvers vegna að vera stundvís?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Hvernig get ég vanið mig af því að slá hlutunum á frest?
    Ungt fólk spyr
Sjá meira
Vaknið! – 1989
g89 8.10. bls. 23-25

Ert þú alltaf seinn?

TVEIR drengir ætluðu að halda boð heima hjá sér klukkan tvö síðdegis á laugardegi. Þeir voru að skrifa boðskortin þegar þeim kom í hug að tveir vina sinna væru venjulega seinir á mannamót. Annar drengurinn sagði: „Af hverju skrifum við ekki bara klukkan eitt á boðskortin þeirra? Þá verða þeir sennilega komnir á réttum tíma, klukkan tvö.“ Og sú varð líka raunin!

En ekki eru öll vandamál viðvíkjandi stundvísi jafnauðleyst og þetta. Sannleikurinn er sá að óstundvísi getur valdið miklum erfiðleikum, bæði fyrir þá sem eru síðbúnir og eins hina sem neyðast til að bíða eftir þeim. Að vísu er ekki sama áherslan lögð á stundvísi í öllum menningarsamfélögum, en óháð því hvar þú býrð þarft þú þó trúlega að gæta þess að vera stundvís þegar þú tekur þér far með flugvél, mætir á formlega fundi, hittir fólk í viðskiptaerindum eða er boðið til mannfagnaðar.

Hvað getur hjálpað þér að vera stundvís ef þú átt vanda til að vera seinn fyrir? Og hvernig getur þú best tekist á við þennan algenga veikleika annarra, ef þú þarft oft að bíða eftir öðrum?

Ert þú yfirleitt of seinn? Reyndu þá fyrst að koma auga á orsökina. Hættir þér til að láta óviðkomandi atriði draga til sín athygli þína? Átt þú erfitt með að koma skipulagi á líf sjálfs þín og fjölskyldu þinnar? Ef slíkt stuðlar að því að þú sért oft seinn fyrir getur meðvituð viðleitni hjálpað þér að sigrast á því. Til dæmis gætir þú tímasett dagleg störf þín og skipulagt daginn eftir því, þannig að þú ætlir þér rúman tíma til allra verka. Fylgstu síðan með því, til dæmis á klukkustundar fresti, hvort þú fylgir áætlun. Þegar þú þarft að vera á ákveðnum stað á ákveðnum tíma skalt þú reyna að mæta tímanlega í stað þess að mæta alveg á slaginu. En stundum getur það vandamál að vera alltaf síðbúinn átt sér dýpri rætur.

Sálfræðilegar orsakir

Stundum liggja duldar hvatir að baki því að vera sífellt of seinn á mannamót — svo sem að komast hjá því að þurfa að taka þátt í óþægilegum athöfnum, sýna hve mikilvægur maður sé, ná athygli annarra eða að vilja ekki þurfa að bíða eftir öðrum.

Dr. Dru Scott bendir á aðra orsök fyrir því að margir eru síðbúnir: „Sölumaður, sem er rétt í þann mund að yfirgefa skrifstofuna á leið til fundar við þýðingarmikinn viðskiptavin, snýr við, þegar hann er kominn að dyrunum, til að eiga ‚eitt símtal í viðbót.‘ Lögfræðingi, sem þarf að ná flugvél, finnst hann mega til að fresta brottför af skrifstofunni ‚til að skrifa ein skilaboð til viðbótar.‘ Þeir hafa eins konar neikvæða örvun út úr þessari frestun. Hún veitir þeim þá spennu sem fylgir því að rjúka af stað á síðustu stundu.“

Sumir virðast fullnægja þörf sinni fyrir spennu með því að vera vísvitandi á síðustu stundu. Ef þig grunar að þú sért ‚háður‘ slíkum spenningi er rétt að íhuga hvernig hægt sé að sigrast á þeim veikleika. Dru Scott segir: „Örvun er sameiginleg frumþörf okkar allra og er ekki vanþroskamerki. Heilbrigt fólk gerir sér grein fyrir þessari þörf. Það lærir að fullnægja henni á uppbyggilegan hátt.“

Þú skalt með öðrum orðum líta yfir áætlanir vikunnar. Hefur þú ætlað þér tíma til að sinna einhverjum jákvæðum áhugamálum til að svala þörf þinni fyrir spenning og örvun? Gerir stundaskráin einungis ráð fyrir einhæfum vanaverkum? Enginn ræður fullkomlega yfir því í hvað tími hans fer, en ef þú einsetur þér að skapa þér hæfilega örvun eins oft og þú getur átt þú auðveldara með að sætta þig við hin daglegu vanaverk og þarft ekki að grípa til þess að vera seinn fyrir til að tryggja þér spennu eða örvun.

„En ég vinn best undir álagi!“

Sumir staðhæfa að þeir vinni best og afkasti mestu ef þeir draga verkin fram á síðustu stundu. Það er auðvitað gott og blessað ef svo er í raun og veru. En vertu hreinskilinn við sjálfan þig. Ert þú í raun og veru afkastamestur ef þú bíður fram á síðustu stundu með verkin?

Í bók sinni Working Smart segir Michael LeBeouf: „Fáir, ef nokkrir, gera sitt besta undir álagi, hvað svo sem þeir vilja telja sér trú um. . . . Í fyrsta lagi hættir sá sem neyðist til að vinna hratt á að gera fleiri mistök. . . . Í öðru lagi getur eitthvað komið upp á sem er afaráríðandi og rænt þig þeim dýrmætu augnablikum sem ætluð voru til verksins. . . . Í þriðja lagi: Ef við gerum ráð fyrir að allt hafi farið vel og þú hafir komið miklu í verk á skömmum tíma, sýnir það einungis að þú getur verið afkastamikill en þú kýst að vera það ekki nema undir álagi. Þú ert þá að svíkja sjálfan þig með því að koma ekki eins miklu í verk og þú ert fær um.“

Leiðist þér að bíða?

Vera kann að þú sért stundvís en neyðist oft til að bíða eftir öðrum sem eru það ekki. Hvernig getur þú hjálpað, eða í það minnsta umborið ættingja, vini eða félaga sem hafa fyrir venju að vera á eftir áætlun?

Hugsanlegt er að þú getir hjálpað þeim með því að minna þá fyrirfram á stefnumótið eða með því að ræða opinskátt við þá um vandann. Hugsanlegt er að uppeldi eða persónulegir veikleikar valdi því að ekki takist að hjálpa sumum, sem eru að jafnaði óstundvísir, að bæta sig, og þeir haldi áfram að valda öðrum óþægindum með því að vera of seinir á stefnumót eða mannamót. Ef aðstæður valda því að þú þarft að búa eða vinna með slíkum einstaklingum verður þú að sætta þig við að þeir skuli alltaf vera of seinir og beita ýmsum herbrögðum til að mæta vandanum sem best.

Til dæmis getur þú búið þig undir það að þurfa að bíða. Vera kann að þú getir valið fundarstað þar sem ánægjulegt er að bíða, svo sem verslun eða veitingahús. Þú getur líka tekið með þér handavinnu eða lesefni til að nýta biðtímann. Tímasettu stefnumót þín við þá snemma þannig að þín eigin tímaáætlun fari ekki úr skorðum þótt þeir séu á eftir áætlun. Í sumum tilvikum getur þú talið þig tilneyddan að gera ekki ráð fyrir þeim í áætlunum þínum sem alltaf eru seinir á vettvang.

Launaðu sjálfum þér góða frammistöðu

Ef þú átt erfitt með að halda tímaáætlanir skalt þú ekki afsaka þennan veikleika eða umbera hann, og ætlast svo til að aðrir bíði eftir þér. Það væri tillitslaust gagnvart öðrum. Hugsaðu um brúðina sem mætti þrem klukkustundum of seint í sitt eigið brúðkaup. Það varð til þess að flytja þurfti athöfnina á einkaheimili og veruleg óþægindi hlutust af fyrir þá liðlega 200 gesti sem viðstaddir voru. Tillitsemi við aðra ætti að koma okkur til að vera stundvís!

Vafalaust mun viðleitni þín til að vera stundvís hafa í för með sér að þú komir vel tímanlega á fundi og mannamót. Þegar það gerist skaltu umbuna sjálfum þér! Dru Scott segir: „Fundinn tími er eins og fundið fé. Eyddu honum ekki í hversdagslega hluti heldur eitthvað sem þú hefur ánægju af. Hugsaðu um allt sem þú vildir gera ef þú hefðir 10 mínútur aukreitis á hverjum morgni, hálftíma á kvöldin eða fáeinar mínútur af og til yfir daginn. Hafðu nokkrar hugmyndir til reiðu þannig að þú getir umbunað sjálfum þér þegar þú ert á undan áætlun.“

[Rammi/Myndir á blaðsíðu 25]

Nokkur ráð til að forðast það að bíða fram á síðustu stundu

1. Brjóttu stór, yfirþyrmandi verk niður í smærri, viðráðanlegar einingar.

2. Gerðu eitthvað áþreifanlegt til að koma verki í framkvæmd. Ef þú ætlar þér að lesa bók skalt þú taka hana niður úr hillunni og leggja hana í grennd við uppáhaldslestrarstólinn þinn.

3. Skuldbintu þig. Segðu vini eða yfirmanni að þú ætlir að ljúka ákveðnu verki fyrir ákveðinn tíma.

4. Umbunaðu sjálfum þér um leið og hverjum áfanga í stóru verki er náð.

5. Þegar þú stendur sjálfan þig að því að trassa eitthvað skaltu játa fyrir sjálfum þér að þú sért að sóa tímanum. Slík áminning getur með tímanum komið þér til að ná stjórn á tímanum og hætta að trassa hlutina.

6. Íhugaðu ókosti þess að slá hlutunum á frest. Mun það auka vinnuálagið? Mun það auka kostnaðinn? Hvað gerir þú ef þú veikist á síðustu stundu? Hvað gerir þú ef verkið tekur lengri tíma en þú ætlaðir? Getur hugsast að þú verðir truflaður nokkrum sinnum í miðjum klíðum? Mun vinnan, sem þú gerir á síðustu stundu, vera lakari að gæðum en hún ætti að vera? — Úr bókinni „How to Get Control of Your Time and Your Life“ eftir Alan Lakeine.

[Myndir]

Finnst þér þú þurfa að ljúka einu verki í viðbót áður en þú mætir á stefnumót?

Skilar þú í raun besta verkinu undir álagi?

Notaðu biðtíma til að slaka á og gera eitthvað sem þér þykir skemmtilegt.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila