Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.10. bls. 17-19
  • Þarf Nonni að fá tölvu núna?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þarf Nonni að fá tölvu núna?
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hefur tölvan uppfyllt vonirnar?
  • Það sem foreldrar þurfa að gera
  • Netárásir!
    Vaknið! – 2012
  • 2000-vandinn - hefur hann áhrif á þig?
    Vaknið! – 1999
  • Láttu tölvutæknina ekki glepja þér sýn
    Ríkisþjónusta okkar – 1995
  • Leyndardómur heilans sem eru vísindunum torskildir
    Vaknið! – 1985
Sjá meira
Vaknið! – 1989
g89 8.10. bls. 17-19

Þarf Nonni að fá tölvu núna?

Hvaða hlutverki gegnir tölvan í menntun barna okkar?

Hversu góður kennari er hún?

MÓÐIR Nonna situr og hlustar alvarleg í bragði á kennara hans. Hann segir henni að drengnum hennar gangi ekki sérlega vel í skólanum.

„Hvað leggur þú til?“ spyr móðirin.

„Hefur þér dottið í hug að útvega honum heimilistölvu?“ spyr kennarinn.

Þessi orð eru sótt í auglýsingu. Auglýsingar af þessu tagi hafa átt þátt í að telja fjölmörgum, áhyggjufullum foreldrum trú um að börnin þeirra verði að vita allt sem hægt er að vita um tölvur, eigi þau að fá viðunandi menntun og hafa þokkalega atvinnumöguleika. Auk þess fjölgar tölvum sífellt í skólastofunum.

Vissulega má nota tölvur til að kenna börnum og þroska sköpunargáfu þeirra og hæfni til að leysa vandamál með öðrum hætti en áður var talið gerlegt.

Til dæmis er á markaðinum tölvuforrit sem nemandinn getur notað til að bæði kryfja frosk og setja hann saman á ný. Ef nemandinn „sker“ froskinn rétt er honum launað fyrir með því að sjá froskinn lifna við og stökkva út af skjánum. Þá eru til forrit sem líkja eftir hreyfingum reikistjarna, lýsa landafræði jarðar, eða leyfa nemandanum að stjórna flugvél, aka bifreið eða gera efnafræðitilraunir.

Þá eru tölvur notaðar við kennslu með þeim hætti að tölvan spyr spurningar sem nemandinn svarar. Ef svarið er rétt birtist næsta spurning á skjánum. Ef ekki gefur hún nemandanum vísbendingar. Þannig lærir nemandinn af mistökum sínum og getur ráðið hraðanum sjálfur. Tölvan er auk þess gædd óendanlegri „þolinmæði“ og verður ekki „geðvond“ þegar nemandinn veit ekki svarið, líkt og mennskur kennari gæti orðið. Það stuðlar einnig að góðum lærdómi.

Flestir skólar bjóða nú upp á tölvukennslu. Þar er nemandanum kennt að nota tölvur og ef til vill að forrita. Sú kennsla getur verið afarþýðingarmikil fyrir þá sem hafa hug á að vinna við tölvur í framtíðinni. Talsmenn tölvukennslu eru margir hverjir eindregnir stuðningsmenn þess að allir skólanemar eigi að þekkja eitthvað til tölva. Það eykur áhuga margra fyrir þessari kennslu að atvinnumöguleikar eru sagðir ráðast mjög af því hvort menn kunna að umgangast tölvur.

Skólatölvur koma einnig að góðum notum við ritstörf og rannsóknir. Kennarar í bókmenntagreinum hafa kynnst því að nemendur eru oft fúsari til að umskrifa og ganga snyrtilega frá verki sínu — sem er nauðsynlegur þáttur góðs ritstíls — ef þeir hafa til afnota tölvu með ritvinnsluforriti, vegna þess að þeir hafa alltaf fyrir framan sig snyrtilegt og frágengið handrit.

Tölva getur einnig veitt nemandanum aðgang að miklum sjóði upplýsinga. Með viðeigandi búnaði getur skólanemi í einum skóla haft samband við nemanda í öðrum skóla í tengslum við sérstök verkefni. Hann getur auk þess sótt upplýsingar í stóra gagnabanka og haft aðgang að nýjustu upplýsingum um fjölmörg efni sem bókasafnið í hans eigin skóla hefði aldrei efni á að liggja með.

Sé tölva notuð með þessum hætti getur hún greinilega komið að góðum notum sem kennslutæki. Það er verðmætt fyrir unga nemendur að geta kynnst tölvum af eigin raun og geta unnið sig áfram skref fyrir skref. Eldri nemendur geta bætt ýmsu við það sem í skólabókinni stendur og notið góðs af nýjum námsaðferðum sem tölvan býður upp á.

Allt þetta hljómar mjög fallega. En er veruleikinn svona? Hefur tölvan uppfyllt þær vonir sem menn bundu við hana?

Hefur tölvan uppfyllt vonirnar?

Það er í rauninni enginn munur á því að ná góðum árangri í kennslu með hjálp tölvu og hinu að ná árangri með venjulegu námsefni. Til þess þarf rétt forrit og kennara sem eru starfi sínu vaxnir. Hefur tekist að uppfylla þau skilyrði?

Sumum skólum lá svo mikið á að kaupa tölvur og ráða yfir nýjustu tækni að þeir skoðuðu ekki vandlega fyrirfram til hvers ætti að nota þær og hverjar væru þarfir nemendanna. Afleiðingin er sú að margir skólar sitja uppi með það óþægilega viðfangsefni að finna einhver verðug not fyrir tölvur sínar.

Þetta ástand endurspeglast í því hvernig skólatölvur eru notaðar um þessar mundir. Enda þótt til séu skemmtileg forrit og hugvitssamlegar kennsluaðferðir leiða kannanir í ljós að tölvurnar eru minnst notaðar við kennslu af því tagi. Mest notuðu forritin í skólastofunni eru annaðhvort æfingaforrit í ýmsum greinum eða kennsluforrit í tölvutækni.

Æfingar hafa að sjálfsögðu sitt gildi í skólanámi. Það er þó erfitt að hrekja rök kennarans í tölvufræði sem spurði hvaða skynsemi væri í því að eyða 120.000 krónum, 70.000 krónum eða jafnvel 35.000 krónum í kaup á rafeindavinnubók, þegar venjuleg, gamaldags vinnubók, sem kostaði aðeins 170 krónur og væri með fullt af æfingum, dygði jafnvel. Sumir kennslufrömuðir telja jafnframt að slík notkun á skólatölvum stangist á við tilganginn með notkun þeirra, því að námið færist niður í það að velja milli réttra og rangra svara í stað þess að örva hugsun og sköpunargáfu.

Margir telja að hin margumtalaða þörf manna fyrir að „kunna á tölvu“ sé í raun snjallt auglýsingabragð tölvuframleiðenda og tölvusala. Vegna áhrifa auglýsinga, eins og þeirrar sem getið var í byrjun greinarinnar, og ef til vill vegna ótta sjálfra sín við þessi ‚nútímatæki,‘ álíta margir foreldrar að það verði ekkert úr börnunum þeirra ef þau kunni ekki að vinna við tölvur. Sannleikurinn er sá að tiltölulega fá störf krefjast kunnáttu í forritun, tölvumáli og öðru slíku. Tölvur eru í flestum tilvikum notaðar sem verkfæri, ekki ósvipað og reiknivélar og ritvélar. Að sjálfsögðu hefur það sína kosti að kunna að nota þessar vélar, en menn þurfa varla að kunna skil á hinni innri starfsemi þeirra nema þeir sækist eftir starfi á því sviði. Það sjónarmið er því ofan á að tölvutækni skuli kennd sem valgrein en ekki skyldugrein.

Þar eð tölvur eru tiltölulega nýkomnar í skólastofuna eru þær oft jafnóskiljanlegar fyrir þá kennara, sem ekki búa yfir tæknikunnáttu, og nemendur þeirra. Það er reynsla skólayfirvalda að andstaðan gegn breytingum sé einhver stærsta hindrunin í vegi fyrir því að auka tölvufræðslu að einhverju marki.

„Mörgum kennurum líður illa í návist tölvu,“ segir skólastjóri. „Þeir vita að tölvurnar eru komnar til frambúðar og að þeir ættu að hafa áhuga á þeim. En þjálfun kennara er enn stærsta vandamálið.“ Það er bæði fjárfrekt og tímafrekt að endurmennta kennara, en skólayfirvöld eru þó vongóð um að takast muni að finna meiri og betri not fyrir þetta verkfæri eftir því sem kennarar öðlast meiri reynslu og fleiri kennarar með tölvumenntun bætast í hópinn.

Það sem foreldrar þurfa að gera

Þarf Nonni þá að eignast tölvu núna? Svarið við þeirri spurningu er mikið undir ykkur foreldrunum komið. Ef þið hafið áhyggjur af því að ekkert verði úr barninu ykkar ef það hefur ekki tölvu til umráða getur efnið hér á undan ef til vill hjálpað ykkur að íhuga málið af meira raunsæi.

Sérfræðingar í fræðslumálum eru almennt sammála um að skólabörn ættu að fá einhver kynni af tölvum. Flestir skólar bjóða því upp á einhvers konar tölvukennslu handa nemendum sínum til að þeir geti kynnst aðalatriðum vélbúnaðarins, sjálfri tölvunni, hnappaborðinu, skífudrifinu, prentaranum og svo framvegis — og einnig undirstöðuatriði forritunar. Skólarnir sjá nemendum venjulega fyrir nauðsynlegum áhöldum þannig að þeir geti komið höndum á tölvu og kynnst því hvernig á að nota hana. Þeir sem hafa áhuga á tölvum geta oftast í efri bekkjunum valið sérstakar námsbrautir í tölvunarfræðum, líkt og sumir velja námsbrautir í bókhaldi eða öðru slíku.

Að sjálfsögðu eru til skólar þar sem tölvur og hugvitsamleg forrit eru mikið notuð til að kenna margvíslegar námsgreinar. En þar eð slík námstilhögun er enn á byrjunarstigi veit enginn enn með vissu hvort það muni reynast betur en venjubundnar kennsluaðferðir.

Kannski má lýsa stöðunni best með orðum menntaskólanema sem sagði í grein í New York Times: „Tölvur gegna sínu hlutverki sem kennslutæki, en þær eru alls engin almannatrygging gegn hæfnisskorti og grautarlegri hugsun.“ Hann undirstrikaði mikilvægi þess að kenna skólanemendum að hugsa skýrt og rökrétt og sagði: „Það er ekki hægt að stytta sér leið að því marki með tæknibrellum.“

[Rammi á blaðsíðu 18]

„Barnið hefur miklu meira gagn af því að eyða einni klukkustund með foreldri sem sýnir því áhuga, en einni klukkustund fyrir framan pípandi kassa.“ — Úr dálknum Personal Computers í The New York Times.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila