Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g90 8.7. bls. 10-11
  • Hve heilbrigð erum við?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hve heilbrigð erum við?
  • Vaknið! – 1990
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hver er staðan núna?
  • Framtíðarhorfur
  • Heilbrigði — hvað getur þú sjálfur gert?
    Vaknið! – 1990
  • Hvað er heilbrigði?
    Vaknið! – 1990
  • Varðveittu trú þína og andlegt heilbrigði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Höfum biblíulega afstöðu til heilsuverndar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
Vaknið! – 1990
g90 8.7. bls. 10-11

Hve heilbrigð erum við?

EINN MILLJARÐUR dollara á dag! Það er sú upphæð sem íbúar Bandaríkjanna eyða í heilsugæslu. Vestur-Þjóðverjar eyða yfir fimmtungi vergrar þjóðarframleiðslu, eða yfir 340 milljörðum vestur-þýskra marka á ári, til heilbrigðismála. Hlutfallið er svipað í flestum öðrum iðnríkjum heims.

Lítill vafi leikur á að almenningur í þessum löndum hugsar meira um heilsuna núna en áður var. Algengt er að bækur og myndbönd um megrun og líkamsrækt séu með þeim söluhæstu. Framleiðsla og sala heilsufæðis, vítamína, íþróttafatnaðar og æfingatækja er atvinnugrein sem veltir miklum fjármunum. Og menn sjá viðskiptajöfur ekki lengur fyrir sér sem digran kaupsýslumann með vindil í munni heldur sem grannvaxinn og stæltan mann er lætur sér annt um heilsuna.

Í ljósi þess hve mikið fólk hugsar um heilsuna nú á dögum er eðlilegt að spyrja hvort við séum hraustari núna en fyrri kynslóðir voru. Hafa þær gríðarlegu fjárhæðir, sem varið hefur verið til heilbrigðismála, haft í för með sér betra heilsufar og líðan handa okkur öllum? Hversu heilbrigð erum við eiginlega?

Hver er staðan núna?

Ólíkt því sem margir kannski halda bera skýrslur bæði frá ríkum löndum og fátækum með sér að nútímamenn eru alls engin ímynd hreysti og heilbrigði. Í skýrslu frá Worldwatchstofnuninni segir um hinar margbreytilegu heilbrigðisaðstæður víða um heim: „Þótt mikill munur sé á heilsugæsluþörf manna eiga ríkir og fátækir eitt sameiginlegt: Þeir deyja fyrir aldur fram. Hinir ríku deyja úr hjartasjúkdómum og krabbameini, hinir fátæku úr niðurgangi, lungnabólgu og mislingum.“

Þrátt fyrir framfarir á sviði læknisfræðirannsókna eru hjartasjúkdómar og krabbamein enn plága þeirra þjóða er búa við allsnægtir. The New England Journal of Medicine segir: „Þróun síðustu ára gefur okkur alls enga ástæðu til bjartsýni. Það er engin ástæða til að ætla að tíðni krabbameins sé í rénun á heildina litið.“ Dr. Michael McGinnis við Bandaríska heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið hefur þetta að segja um heilsuræktarbylgjuna sem nú gengur yfir: „Langflestir vita hve þýðingarmikið það er að fá næga hreyfingu. Þeir gera hins vegar ekkert í málinu. Bandaríkjamenn eru alls ekki jafnhraustir og þeir halda sig vera.“

Í skýrslu Worldwatchstofnunarinnar er upplýst að „fjórðungur jarðarbúa hafi ekki hreint drykkjarvatn og gangi ekki sómasamlega frá skólpi. Þar af leiðandi eru niðurgangssjúkdómar landlægir í þriðja heiminum og algengasta dánarorsök ungbarna.“ Niðurgangur, lungnabólga, mislingar, barnaveiki, berklar og aðrir sjúkdómar verða 15 milljónum barna undir 5 ára aldri að bana ár hvert og hamla eðlilegum þroska milljóna barna að auki. Sorglegast er þó að sérfræðingar telja mjög auðvelt að fyrirbyggja þessa sjúkdóma að mestu leyti.

Enda þótt börnin í iðnríkjum heims séu laus við slíkt böl eru alvarleg teikn á lofti um að heilsufar þeirra fari á heildina litið versnandi en ekki batnandi. Lundúnablaðið The Guardian segir til dæmis undir fyrirsögninni „Börn voru hraustari fyrir 35 árum“ að könnun á vegum Rannsóknaráðs læknavísinda hafi leitt í ljós að „innlögnum barna allt að fjögurra ára að aldri hafi fjölgað verulega, tíðni astma þrefaldast, og exem sé sexfalt tíðara meðal nýju kynslóðarinnar“ en áður var. Þá kom einnig í ljós að sykursýki, offita, streita og tilfinningakvillar hafa aukist verulega.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að heilsufar skólabarna í Bandaríkjunum er engan veginn eins og það ætti að vera. George Allen, sem er formaður ráðgjafanefndar forseta um líkamsrækt og íþróttir, segir að hið ‚slaka líkamsástand unglinga sé best geymda leyndarmál Bandaríkjanna.‘ Nýjustu tölur nefndarinnar sýna að 40 af hundraði pilta og 70 af hundraði stúlkna á bilinu 6 til 17 ára geta ekki gert meira en eina armbeygju. Í öðrum rannsóknum hefur komið fram að táningar hafa háan blóðþrýsting, of mikið kólesteról í blóði og eru of feitir, að ekki sé minnst á alvarleg tilfinningavandamál og misnotkun fíkniefna og áfengis.

Framtíðarhorfur

Flestir gera sér grein fyrir að heilsufar barns- og unglingsáranna hefur nokkur áhrif á heilsufar okkar alla ævi. Það er því ekkert undarlegt að George Allen skuli bæta við: „Ég hef áhyggjur af því að börn og unglingar, sem geta ekki tamið sér heilbrigða lífshætti núna, geti það ekki heldur þegar þau ná fullorðinsaldri.“ Hið sama er uppi á teningnum í þróunarlöndunum, að því undanskildu að þar fá mörg börn einfaldlega ekki tækifæri til að þroskast sem hraustir og heilbrigðir einstaklingar.

Þótt þessi vandamál séu vissulega áhyggjuefni eru þau engan veginn óleysanleg. Hvar sem við búum í heiminum getum við, hvert og eitt okkar, gert margt til að bæta heilsu okkar og fjölskyldna okkar. Árangurinn er þó að miklu leyti kominn undir því hvernig við sjálf metum ástand okkar og heilsufar. Því er eðlilegt að spyrja: „Hvað er heilbrigði? Hvað er hægt að gera til að viðhalda góðri heilsu? Um þetta tvennt verður fjallað í greinunum á eftir.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila