„Landinu skipt, heimurinn sameinaður“ — saga Panamaskurðarins
Eftir fréttaritara Vaknið! í Panama
„LANDINU skipt, heimurinn sameinaður.“ Þessi einkunnarorð stóðu um margra áratuga skeið á innsigli Panamaskurðarins. Skurðurinn tengir tvö af heimshöfunum og hægt er að segja að hann hafi sameinað heiminn á vissan hátt. Og hann hefur haft meiri áhrif á líf þitt en þú gerir þér líklega grein fyrir. Hugsanlegt er að bifreiðin þín, heimilistækin og jafnvel maturinn á borðinu hjá þér hafi farið um skurðinn.
Þann 15. ágúst 1989 voru liðin 75 ár frá því að fyrsta skipið sigldi um Panamaskurð. En draumarnir, áformin og vinnan, sem gerðu þennan 80 kílómetra langa skipaskurð að veruleika, eiga sér aldagamla sögu.
Eftir að Kólumbus „fann“ hinn svonefnda Nýja heim hófst landkönnun hinna spænsku landvinningamanna. Vasco Núñez de Balboa fór yfir hið mjóa Panamaeiði árið 1513. Frásögur heimamanna af „mjóddinni,“ þar sem annað haf tæki við, eggjuðu Balboa til að leita uns hann fann hafið mikla vestanmegin eiðisins.
Fáeinum árum síðar sigldi Ferdinand Magellan fyrir suðurodda Suður-Ameríku, um hið varasama sund er nú ber nafn hans, yfir í þetta sama haf. Magellan kallaði það el pacifico, hið friðsæla, í samanburði við hið ólgusama Atlantshaf. Leiðin var löng og hættuleg og hófst því leit að hentugri siglingaleið yfir á Kyrrahaf.
Árið 1534 ljáði Karl I Spánarkonungur athyglisverðri tillögu stuðning sinn: gerð skipaskurðar milli úthafanna tveggja! Þó að hann fyrirskipaði að kannaðir skyldu möguleikarnir á gerð slíks skurðar var hún langt frá því að vera framkvæmanleg með þeirri tækni sem menn þá réðu yfir. Meira en þrjár aldir liðu áður en sá draumur varð að veruleika.
Á 19. öld kom fram ný tækni, gufuvélin og járnbrautirnar, sem vöktu spennandi, nýja möguleika. Þá kom gullæðið í Kaliforníu. Gullgrafarar uppgötvuðu að hægt var að auðvelda sér leiðina til Kaliforníu: Þeir sigldu frá austurströnd Bandaríkjanna til Panama, fóru yfir eiðið annaðhvort fótgangandi eða á múlasna og sigldu síðan áfram til San Francisco! Árið 1855 var lokið gerð járnbrautar yfir Panamaeiði. En hugmyndin um skipaskurðinn var ekki gleymd.
Dirfskufull áform Frakka
Ferndinand de Lesseps greifi, sem stýrt hafði gerð Súezskurðarins með ágætum, hóf nú undirbúning að gerð skipaskurðar yfir Panamaeiði. Hann var formaður nefndar sem stjórnaði frumkönnun og tók landið á leigu til 99 ára af Kólumbíu sem Panamaeiði tilheyrði á þeim tíma. Hafist var handa við að grafa skurðinn árið 1881. Menn voru vonglaðir því að skurðurinn átti aðeins að vera helmingur af lengd Súezskurðarins, og þarna yrði hvorki við vatnsskort að etja né miskunnarlausan eyðimerkursand.
En nýir óvinir komu til sögunnar — hitabeltisskógurinn, gríðarlegar klettahæðir, óstöðugur jarðvegur og það sem verst var, gulusótt og malaría. Þetta reyndist verkamönnunum ofraun. Skortur á vinnuafli sem að því leiddi, hægur framgangur vegna ófullnægjandi tækjabúnaðar og léleg fjármálastjórn neyddi Frakka til að gefast upp á verkinu eftir að hafa kostað til 20 ára vinnu, 260 milljónum dollara (um 15 milljörðum íslenskra króna) og fjöldamörgum mannslífum.
Bandaríkjamenn taka við
Nálægt aldamótum voru Bandaríkin byrjuð að láta að sér kveða sem heimsveldi og beindu fljótlega athygli sinni að Panama. Í spænsk-ameríska stríðinu hafði það tekið herskipið Oregon 68 daga að sigla frá Kaliforníu til Flórida um Magellan-sund! Það undirstrikaði mjög greinilega hina brýnu þörf fyrir betri siglingaleið milli austurs og vesturs. Bandaríkjamenn gerðu sér grein fyrir að skurður um Panama væri mjög hagkvæmur kostur og keyptu réttinn til að gera hann.
Samningaviðræður Bandaríkjamanna við Kólumbíumenn fóru fljótt út um þúfur. Árið 1903 lýsti Panama yfir sjálfstæði sínu frá Kólumbíu og veitti Bandaríkjunum skömmu síðar rétt til að gera skurðinn og fara með yfirráð 16 kílómetra breiðrar landræmu sem skurðurinn átti að liggja um.
Enn var þó við að etja sömu vandamál og Frakkar höfðu staðið frammi fyrir — og ýmis fleiri — sem berjast þurfti við þegar vinnan við skurðinn hófst á nýjan leik. En smám saman tókst að sigrast á þeim einu af öðru.
Sjúkdómar: Gulusótt og malaría voru mjög útbreiddir sjúkdómar í þessu hitabeltislandi. William Crawford Gorgas ofursti setti hins vegar strangar hreinlætisreglur. Það, ásamt miskunnarlausu stríði á hendur moskítoflugunni, sem bar með sér smit, réði nánast niðurlögum þessara sjúkdóma!
Vinnuafl: Panamamenn voru ekki færir um að útvega það gríðarlega mikla vinnuafl sem þurfti til þessara framkvæmda. Lausnin var sú að flytja inn þúsundir verkamanna frá Vestur-Indíum.
Gröftur og losun efnis: Klettarnir og óstöðugur jarðvegurinn hélt áfram að valda miklum erfiðleikum. En sú ákvörðun að gera skipastiga í skurðinum í stað þess að láta hann fylgja sjávarmáli dró verulega úr því jarðvegsmagni sem flytja þurfti. En hvað átti að gera við það efni sem grafið var upp? Sumt var notað í stíflur er mynduðu stöðuvötn sem vera áttu hluti af skipaskurðinum inni í landinu. Afgangurinn var notaður í brimbrjóta, vegi og uppfyllingar þar sem áður voru fen og mýrar. Á hinum uppfylltu svæðum var síðan hægt að byggja hús, bæði til iðnaðar og íbúðar.
John F. Stevens, þrautreyndur maður í lagningu járnbrauta, stýrði verkinu í byrjun. Tæki til jarðvegsflutninga og færanlegar járnbrautir reyndust mjög hentugar. Stevens lét af störfum áður en verkinu var lokið en þær aðferðir, sem hann var frumkvöðull að, voru notaðar áfram uns því lauk.
Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti skipaði þá George Washington Goethals, undirofursta og verkfræðing í Bandaríkjaher, yfir verkið. Reynsla Goethals af verkfræðistörfum reyndist ómetanleg til að fullna verkið. Skurðurinn var opnaður þann 15. ágúst 1914 og lokukerfið í skipastiganum reyndist bæði velheppnað og endingargott. Við skulum nú sigla um skurðinn og virða hann nánar fyrir okkur.
Siglt um skurðinn
Ólíkt því sem ætla mætti er ekki siglt frá austri til vesturs heldur norðvestri til suðausturs þegar siglt er um Panamaskurð frá Atlantshafi til Kyrrahafs. (Sjá kort.) Fyrst er siglt milli 4,8 kílómetra langra brimbrjóta sem verja innsiglinguna fyrir árstíðabundnum öldugangi í Karíbahafi. Skipið kastar akkerum í skjóli brimbrjótanna og bíður þess að röðin komi að því að sigla um skurðinn. Þegar röðin kemur að okkur förum við upp Gatun-skipastigann. Hann er þriggja þrepa og lyftir okkur 26 metra upp í Gatun-stöðuvatnið. Hvert þrep skipastigans er 34 metra breitt og 305 metra langt, nógu stórt til að rúma velflest kaupskip og herskip.
Skipastiginn virkar þannig: Vatn rennur fyrir þyngdarafli í hólfin og lyftir skipinu. Rafdrifnir dráttarvagnar á járnbraut, „múldýrin,“ draga skipið á réttan stað í hverju hólfi. Á milli skipastiganna sigla skipin fyrir eigin vélarafli.
Við siglum úr síðasta hólfi Gatun-stigans yfir í Gatun-stöðuvatnið sem var á sínum tíma stærsta stöðuvatn í heimi gert af mannavöldum. Það er meistaraverk út af fyrir sig hvernig vatnið er nýtt. Hitabeltisrigningin, sem er ríkuleg að vöxtum, er notuð ekki aðeins til að tryggja skurðinum nægilegt vatn heldur líka til að framleiða rafmagn til reksturs Panamaskurðarins. Á leið okkar um Gatunvatn sjáum við fjölmargar eyjar. Áður en vatn færði hitabeltisskóginn í kaf voru þetta hæðir!
Skurðurinn þrengist þegar landið hækkar skyndilega við hin svonefndu meginlandaskil. Það var hérna, við Gaillard Cut, sem mestu jarðvegsflutningar fram til þess tíma áttu sér stað. Fjarlægja þurfti yfir 150 milljónir rúmmetra af jarðvegi og grjóti. Stöðug skriðuföll seinkuðu verkinu og oft grófust járnbrautir og tækjabúnaður í skriðunum. Núna er með reglubundnu millibili kallaður til mannafli og tækjakostur til að viðhalda þessum hluta skurðarins sem er 150 metra breiður.
Við siglum um tvo skipastiga til viðbótar — sem nefndir eru Pedro Miguel og Miraflores — uns við erum komnir aftur niður að sjávarmáli við Kyrrahaf. Ferð okkar er nú lokið en fyrir þau fjölmörgu skip, sem bíða þess að komast um skurðinn í hina áttina, er ferðalagið rétt að hefjast.
Enda þótt flutningatækni hafa fleygt mjög fram á síðustu árum er Panamaskurðurinn enn mikilvægur tengiliður í alþjóðaviðskiptum. Yfir 12.000 skip fara um skurðinn ár hvert og flytja samanlagt um 145 milljónir tonna af varningi. Vafalaust mun Panamaskurðurinn um ókomin ár halda áfram að vera staður þar sem ‚landinu var skipt en heimurinn sameinaður.‘
[Kort á blaðsíðu 23]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
Norður-Ameríka
Mið-Ameríka
Panama-skurður
Suður-Ameríka
[Mynd á blaðsíðu 23]
Þann 15. ágúst 1914 sigldi fyrsta skipið, Ancon, um Panamaskurð.
[Rétthafi]
Panama Canal Commission, Office of Public Affairs