Heimilislaus börn — hvers vegna er svona erfitt að hjálpa þeim?
ÞANN 14. október 1987 datt Jessica McClure niður í næstum 7 metra djúpan brunn sem hætt var að nota. Í 58 angistarfullar klukkustundir hömuðust björgunarmenn við að höggva sér leið gegnum klöpp til að bjarga stúlkunni sem var 18 mánaða gömul. Atvikið vakti óskipta athygli í heimalandi hennar, Bandaríkjunum, og sjónvarpið hélt mönnum fjötruðum uns Jessicu var lyft lifandi upp úr dimmum brunninum.
En Jessica átti heimili. Svo undarlegt sem það er vekur neyð heimilislausra barna ekki sömu athygli. Getur ástæðan verið sú að þau eru fátæk? Einn þeirra sem skrifar í World Health, tímarit Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, segir um aðstæður hinna þurfandi: „Hinir fátæku í borgunum eru ekki raunverulegir borgarar síns eigin lands, því þeir hafa engin stjórnmálaleg, félagsleg eða efnahagsleg réttindi. Hinir fátæku eldast hratt og deyja ungir.“ Því þarf afstaða stjórnvalda og almennings til fátækra að breytast stórum áður en nokkur von er um að þeim verði séð fyrir nægum mat, fatnaði og húsaskjóli.
Þannig er hægt að hjálpa sumum
Í réttindayfirlýsingu barna, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt, koma fram göfugar hugsjónir. (Sjá rammann á bls. 15.) Hvers vegna virðist ekki hægt að uppfylla þær? Yfirleitt er fólk hrifið af börnum og vill þeim allt hið besta. Auk þess er mikið í húfi fyrir sérhverja þjóð að velferð barna hennar sé tryggð. Í dagblaðinu Latin America Daily Post segir James Grant við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna: „Þegar öllu er á botninn hvolft eru það börnin sem eiga að leiða þjóð sína út úr efnahagsvandanum.“ Grant bendir á að það komi fram í skýrslu að „fjárframlög til heilsugæslu og undirstöðumenntunar geti aukið framleiðni og hagvöxt stórlega.“ Í Brasilíu og víðar finna menn mjög fyrir þeirri neikvæðu ímynd sem ástand götubarnanna og það ofbeldi sem tengist þeim gefur landi og þjóð. Í Brasilíu er nú reynt að leysa vandann með fátækrahjálp, fósturheimilum, munaðarleysingjahælum og uppeldisstofnunum.
Stjórnir sumra landa hafa komið auga á gildi þess að styðja frumkvæði fátækra fjölskyldna og byggðarlaga við húsbyggingar, í stað þess einfaldlega að reisa húsin. Með þeim hætti eiga hinir fátæku sjálfir þátt í umbótunum.
Fátækar fjölskyldur ættu að vera fúsar til að leggja sitt af mörkum, auk þess að þiggja aðstoð ýmissa stofnana og samtaka. Fjölskyldu vegnar mun betur fjárhagslega og félagslega þegar hún heldur saman og tekst á við vandamál sín. Ef þörf er á geta allir vinnufærir meðlimir fjölskyldunnar átt þátt í að framfleyta henni.
Þannig hafa sumir spjarað sig
Sumum heimilislausum börnum hefur tekist að bæta hag sinn. Við skulum taka Guillermo sem dæmi. Foreldrar hans bjuggu í smáþorpi áður en hann fæddist en fluttust til höfuðborgarinnar vegna bágrar afkomu. Guillermo var aðeins þriggja mánaða gamall þegar faðir hans var myrtur. Fáeinum árum síðar dó móðir hans. Hann og systkini hans voru nú í umsjá ömmu sinnar og hann fór að halda til á götunni ungur að árum. Í fimm ár gekk hann dag eftir dag milli veitingahúsa og vínveitingastaða og betlaði mat og peninga handa fjölskyldunni. Hann var að langt fram á kvöld. Vinsamlegt fólk, sem kynntist honum á götunum, kenndi honum undirstöðuatriði persónulegs hreinlætis og hegðunar. Síðar tóku yfirvöld hann af götunni og settu á barnaheimili þar sem hann fékk mat og menntun. Vottar Jehóva sýndu honum fram á að skaparinn hafði áhuga á honum sem einstaklingi og hjálpuðu honum að fullnægja andlegum þörfum sínum. Einlægni og vinsemd vottanna hafði mikil áhrif á Guillermo og hann sagði síðar: „Hver vill hjálpa dreng sem hefur alist upp á götunni sem nær án aga og leiðsagnar? Það voru aðeins hinir kærleiksríku bræður sem veittu mér slíka hjálp, auk fjárhagsaðstoðar.“ Guillermo lét skírast 18 ára að aldri. Núna er hann einn af starfsliði deildarskrifstofu Varðturnsfélagsins í landinu.
Þá má nefna João. Hann var ekki hár í loftinu þegar drukkinn faðir hans rak hann og bræður hans af heimilinu. João tókst hins vegar að fá vinnu hjá kaupmanni. Hann var iðinn og duglegur, vegnaði vel og ávann sér traust samstarfsmanna og annarra. Nú er hann hamingjusamur fjölskyldumaður. Roberto var rekinn að heiman 12 ára gamall. Hann fór að starfa sem skóburstari og sælgætissali og fékk síðan vinnu sem málari. Bæði João og Roberto sigruðust á margs kyns vandamálum af því að þeir voru fúsir til að læra og vinna. Þeir minnast þess að þeir hafi oft verið kvíðnir og hræddir meðan þeir áttu ekkert heimili en nám þeirra í Biblíunni með hjálp votta Jehóva styrkti þá. Þessi dæmi sýna að börn eru yfirleitt þrautseig og geta á endanum sigrast á erfiðleikum sínum, jafnvel því að eiga ekkert heimili.
Þegar börn fá auk þess handleiðslu foreldra sinna í samræmi við orð Guðs skapar það trausta fjölskylduheild og vandamál svo sem ill meðferð eða heimilislaus börn koma ekki til.
Hvers vegna viðleitni manna ber ekki árangur
Hinar mörgu milljónir heimilislausra barna í heiminum eru eigi að síður glöggt merki um hve vanmegnugir menn eru þess að leysa hin alvarlegu vandamál sín. Tímaritið Time hefur eftir forstöðumanni barnahjálparsamtaka: „Geðveilt fólk, sálsjúkt, veikt — eða sjúk og viðkvæm þjóð — getur ekki stuðlað að framförum.“ Í sama tímariti er því spáð að eitt af ríkjum Rómönsku Ameríku muni, af þessum orsökum, „sligast undan milljónum fullvaxta manna sem eru svo vannærðir, fáfróðir og fákunnandi að þeir verði ómóttækilegir fyrir hvers kyns siðmenntun.“
Heldur þú, í ljósi þessa, að menn geti af eigin rammleik leyst þau vandamál sem eru afleiðing vannæringar, kynferðislegrar misnotkunar og ofbeldis? Heldur þú að áætlanir manna dugi til þess að hjálpa öllum götubörnunum eftir að þau hafa mátt berjast fyrir lífi sínu á götunum meðal árásargjarnra og miskunnarlausra manna? Getur þú séð fyrir þér hvernig hægt verði að kenna foreldrum að ala börn sín upp af ábyrgð og umhyggju? Því miður getur mannleg viðleitni ekki, þótt einlæg sé, leyst að fullu það vandamál sem heimilislausu börnin eru.
Hvers vegna? Hver eða hvað kemur í veg fyrir að vandamálið verði leyst? Jesús talaði um persónu sem hann kallaði ‚höfðingja heimsins.‘ (Jóhannes 14:30) Það er Satan djöfullinn. (Sjá bls. 20.) Hin lævísu áhrif hans á mannkynið eru helsta hindrunin fyrir því að hægt sé að leysa þessi vandamál og tryggja mannkyni sanna hamingju. (2. Korintubréf 4:4) Þess vegna þarf að ryðja þessu ósýnilega, illa afli úr vegi ef tryggja á öllum heimilislausum börnum og bágstöddum einstaklingum fullkomið réttlæti. Getum við þá búist við heimi þar sem ekki verða götubörn, þar sem ekki verður eymd og fátækt? Eiga þessi börn sér raunhæfa von?
[Innskot]
‚Hver vill hjálpa dreng sem hefur alist upp á götunni án aga og leiðsagnar?‘
[Rammi á blaðsíðu 15]
Réttindayfirlýsing barna:
◼ Réttur til nafns og þjóðernis.
◼ Réttur til umhyggju, ástar, skilnings og fjárhagsöryggis.
◼ Réttur til viðunandi næringar, húsaskjóls og heilbrigðisþjónustu.
◼ Réttur til sérstakrar umhyggju handa fötluðum, hvort heldur sú fötlun er líkamleg, hugarfarsleg eða félagsleg.
◼ Réttur til að vera með þeim fyrstu til að fá vernd og neyðarhjálp undir öllum kringumstæðum.
◼ Réttur til verndar fyrir hvers kyns vanrækslu, grimmd og misnotkun.
◼ Réttur til leiks og afþreyingar og jöfn tækifæri til ókeypis skyldunáms til að barnið geti þroskað hæfni sína sem einstaklingur og orðið nýtur þjóðfélagsþegn.
◼ Réttur til að þroskast eðlilega með frelsi og reisn.
◼ Réttur til uppeldis í anda skilnings, umburðarlyndis, vináttu þjóða í milli, friðar og alþjóðlegs bræðralags.
◼ Réttur til að njóta þessara réttinda óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, trú, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum, þjóðlegum eða félagslegum uppruna og efnahag, fæðingu eða öðrum þjóðfélagsaðstæðum.
Tekið saman úr Everyman’s United Nations.
[Rétthafi myndar]
Reuters/Bettmann Newsphotos