Séð með augum barns
FLESTIR foreldrar eru sammála um að minnsta kosti eitt atriði: Farsælt uppeldi barns er eitthvert erfiðasta verkefni sem þeir hafa tekist á við. Ótal bækur hafa verið skrifaðar um það hvernig ala eigi upp börn. Þó er ein aðferð sem allir fullorðnir geta notað — hvort heldur það eru foreldrar, afar, ömmur, frændur, frænkur eða bara fjölskylduvinir — og hún er sú að reyna að sjá hlutina með augum barnsins, reyna að átta sig á því hvað á sér stað í barnshuganum.
Munum að börnin eru smá vexti. Ef við höfum það í huga eigum við auðveldara með að skilja hvaða augum þau sjá okkur. Þau fæðast í heim fólks sem er miklu stærra en þau, sterkara og voldugara. Í huga smábarns geta fullorðnir annaðhvort verið tákn verndar, hughreystingar og hjálpar eða tákn hótana og misþyrminga.
Þau eru ekki fullorðnir í smækkaðri mynd
Annað mikilvægt atriði er að gæta þess að meðhöndla þau ekki eins og þau séu fullorðið fólk í smækkaðri mynd. Bernskuárin ættu að vera hamingjuríkustu ár ævinnar. Það er engin ástæða til að reka á eftir þeim gegnum bernskuna þannig að þau fái varla að njóta þess að vera börn. Leyfið þeim að njóta bernskunnar. Þið foreldrarnir ættuð að leggja ykkur fram um að innprenta þeim þau siðferðisverðmæti sem þau þurfa til að geta orðið jafnlyndir, öfgalausir einstaklingar er þau vaxa úr grasi.
Jafnvel þegar ungbörn eiga í hlut er við hæfi að sjá hlutina með þeirra augum. Grátur ungbarns ætti til dæmis aldrei að fá arga foreldra til að hirta það. Það er eðlilegt fyrir ungbarn að gráta eða vola til að vekja athygli á að það þarfnist einhvers. Eftir að barnið kemur úr öruggu skjóli í kviði móður sinnar er skerandi grátur besta leiðin sem það hefur til að koma skoðunum sínum á framfæri!
Hrós og leiðbeiningar eru betri en kröfur
Það er gott að hvetja börnin til að tjá sig. Kannski eiga þau við einhvern vanda að glíma og það er hægast að leysa vanda ef við kunnum skil á honum. Þó er það ekki nóg að börnin tjái sig heldur skipta viðbrögð okkar líka miklu máli. Wendy Schuman, aðstoðarritstjóri tímaritsins Parents, gefur foreldrum góð ráð um það hvernig þeir ættu að reyna að tala við börnin sín: „Láttu tilfinningar og skilning birtast í orðum . . . Þetta er kjarni nýjustu bókanna um samskipti foreldra og barna. En það er ekki nóg að skilja barnið og tilfinningar þess ef sá skilningur birtist ekki í orðum — og flestir foreldrar eiga erfitt með það.“
Með öðrum orðum, ef barnið er ókurteist eða hefur gert eitthvað af sér og þarfnast þar með aga, þá ættum við að gæta þess vel að láta ekki gremju okkar eða reiði koma fram í athöfnum, orðum eða raddblæ. Það er að sjálfsögðu hægara sagt en gert, en mundu að hranalegar eða niðrandi alhæfingar svo sem: „Heimskingi!“ eða „Þú ert alltaf að gera eitthvað af þér!“ eru aldrei til þess fallnar að bæta ástandið.
Eitt það sem mörgum foreldrum hefur reynst skila jákvæðum árangri er að sýna að þeir séu skilningsríkir og setji sig í spor barnanna með því að hrósa þeim, einkum áður en þeir leiðbeina þeim. Þar er aftur gott tækifæri til að sjá hlutina með augum barnsins. Flest börn skynja á augabragði hvort annarlegar hvatir búa að baki hrósinu eða hvort það kemur frá hjartanu. Þess vegna ættum við, þegar við hrósum börnum, að gæta þess að hrósið sé einlægt og verðskuldað.
Kunnur barnasálfræðingur, dr. Haim G. Ginott, leggur á það áherslu í bók sinni, Between Parent and Child, að foreldrar ættu að hrósa afrekum barna sinna en ekki persónuleika. Ef sonur þinn smíðar bókahillu og sýnir þér hana hreykinn í bragði, þá mun það auka sjálfstraust hans ef þú segir: „Þessi bókahilla er bæði falleg og hentug.“ Hvers vegna? Vegna þess að þú ert að hrósa því sem hann hefur áorkað. Drengurinn skilur þá hvers vegna þú ert að hrósa honum. Það getur haft önnur áhrif ef þú segir við hann: ‚Þú ert góður smiður,‘ því að þá ert þú að beina athyglinni að honum sem persónu.
Dr. Ginott segir: „Flestir halda að hrós byggi upp sjálfstraust barns og öryggistilfinningu. Í reynd getur það gert barnið óöruggt og óþekkt . . . Ef foreldrar segja: ‚Þú ert svo góður drengur,‘ er óvíst að drengurinn geti trúað því vegna þess að hann hefur allt aðra mynd af sjálfum sér . . . Hrós ætti ekki að beinast að eiginleikum barnsins heldur viðleitni þess og afrekum. . . . Hrós er fólgið í tvennu: orðum okkar og þeim ályktunum sem barnið dregur. Orð okkar ættu að segja það skýrt að við metum mikils viðleitni barnsins, verk, afrek, hjálp og tillitssemi.“
Þessar skynsamlegu ábendingar um hrós koma vel heim og saman við hvatningarorð Biblíunnar til örlætis sem er að finna í Orðskviðunum 3:27: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.“
Það má slá því föstu að óháð öllum ráðum og leiðbeiningum, sem við lesum, sé ekki hægt að stytta sér leið við það sem sumir hafa kallað tuttugu ára verkefni — það er að segja að ala upp barn. Það útheimtir þolinmæði, ást, skilning og tillitssemi. En það getur stuðlað mjög að góðum árangri að læra að setja sig í spor barnanna og sjá hlutina með þeirra augum.
„Vitur sonur gleður föður sinn,“ sagði hinn vitri konungur Salómon. (Orðskviðirnir 10:1) Megi betri skilningur á hugsunarhætti barna þinna og viðhorfum hjálpa þér að verða þeirrar gleði aðnjótandi.